145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hæstv. utanríkisráðherra áður en hann rauk hér á dyr, þá vil ég segja eftirfarandi: Það hefur aldrei tíðkast hér þegar mál eru enn á forræði ráðherra og eru hér í 1. umr. að ráðherra fari úr umræðunni eða fái sérstaka heimild þingsins og eftir atvikum þingflokksformanna til þess og alls ekki þegar um er að ræða umdeild mál. Það hefur alltaf verið gerð skýlaus krafa um það sem ég þekki mætavel af eigin raun að ef slíkt kemur upp þá er umræðunni frestað. Og aðeins til að ég miðli af reynslu þingmanns sem hefur verið hér í fjórum ríkisstjórnum þá minnist ég þess þegar ég var hér einu sinni og hafði framsögu fyrir mjög umdeildu máli, þá gerðu þingmenn, þar á meðal úr flokki hæstv. ráðherra, athugasemdir við það ef ég brá mér úr salnum til að hlýða kalli náttúrunnar svo ég hélt bara í mér. (Forseti hringir.) Ég tel hins vegar sjálfsagt að verða við því sem hæstv. ráðherra sagði að fresta fundi, ég mæli með því, það er ekki hægt að halda áfram án hans, og hefja þá umræðuna kl. 7 og vera eftir atvikum til þess tíma sem búið var að semja um.