145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

löggæslumál.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að deilur og átök á vinnumarkaði hafi einkennt líftíma þessarar ríkisstjórnar, bæði á hinum almenna vinnumarkaði en ekki síður á hinum opinbera. Þegar ég gekk yfir Austurvöll í morgun var þar mættur fjöldi fólks að mótmæla frá SFR, frá Sjúkraliðafélaginu og frá Landssambandi lögreglumanna.

Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra lögreglumála. Lögreglumenn geta ekki farið í verkfall en þeir mótmæla eigi að síður kjörum sínum. Það liggur fyrir og hefur lengi gert að það þarf að styrkja löggæsluna í landinu. Það blasir við almenningi í landinu að verulega hefur verið þrengt að rekstri hins opinbera á öllum sviðum, þar á meðal lögreglunnar, en á sama tíma blasa við stóraukin verkefni. Nægir þar að nefna eitt sem er auðvitað stóraukinn fjöldi ferðamanna hér á landi.

Þessi þörf hefur verið greind af hálfu stjórnvalda, m.a. í þverpólitískri nefnd sem vann að greiningu á fjárþörf lögreglunnar. Hún lagði til ákveðnar aðgerðir og ákveðna forgangsröðun í þeim verkefnum. Þrátt fyrir að sú þverpólitíska samstaða hafi náðst þá stöndum við frammi fyrir þeirri stöðu að ríkið og Landssamband lögreglumanna ná ekki saman. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um mat hennar á þessari stöðu. Enn ein átökin á milli hins opinbera og starfsmanna hins opinbera, þeirra sem vinna að samfélagslegum verkefnum í þágu almennings. Hvernig getur hæstv. ráðherra beitt sér fyrir því að leysa þennan hnút þótt samningsumboðið sé auðvitað á hendi hæstv. fjármálaráðherra, sem er ekki hér í dag? Það skiptir máli fyrir almenning í landinu að staða löggæslunnar sé tryggð, að við þurfum ekki að horfa á þessi átök sem hafa auðvitað áhrif á allt samfélagið og allan almenning í landinu. Hvernig getur hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) beitt sér fyrir því að þessi mál leysist sem fyrst þannig að áhrifin á öryggi almennings og hag almennings í þessu landi verði sem minnst?