145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa gert átak með aukafjárveitingu til Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að stytta bið eftir þjónustu. Jafnframt fagna ég því að skipa eigi vinnuhóp til að skoða í víðu samhengi stöðu þessarar þjónustu. Þrátt fyrir að þetta sé góðra gjalda vert er sérstaklega mikilvægt að um þennan málaflokk sé til langtímastefnumótun, sérstaklega varðandi forvarnir, greiningu og meðferð við ADHD sem er að mati sérfræðinga á því sviði ein mesta heilsuógn og einn dýrasti sjúkdómur eða geðröskun mannkynsins. Þeir telja ADHD eiga stóran þátt í ýmsu sem glímt er við í nútímaþjóðfélagi, vandamálum eins og fíkn, glæpum, námserfiðleikum, fjölskylduvandræðum, slysum og vinnutapi vegna veikinda.

Staðan er grafalvarleg þar sem það liggur fyrir að um 400 börn bíða eftir sérhæfðri og dýrri þjónustu. Ég er ekki að tala um heildarvandann í sambandi við ADHD, en eins og flestum er kunnugt þá bíða ríflega 600 fullorðnir einstaklingar eftir þjónustu ADHD-teymisins á Landspítala. Varðandi börnin er það gríðarlega mikilvægt fyrir alla sem tengjast þessu máli að koma í veg fyrir að vandi þeirra verði svo flókinn, sársaukafullur og dýr sem raun ber vitni. Þess vegna þarf að auka þekkingu og styrkja forvarnir allt frá því að barnið er á unga aldri, t.d. forvarnir innan leikskóla. Í þessu samhengi er þverfagleg samvinna mjög mikilvæg, t.d. samvinna milli leikskóla, heilsugæslu, sálfræðinga og Þroska- og hegðunarstöðvar. Stefnumótun til langs tíma um forvarnir, greiningu og meðferð ADHD þarf að taka mið af því. Þess vegna er mjög miður að í nýjum drögum að geðheilbrigðisþjónustu er hvergi að finna áherslur í stefnumótun á sviði þessarar geðröskunar.

Spurningar mínar til hv. ráðherra eru: Hvaða áform hefur ráðherra um að bæta aðgengi barna að greiningu á taugaþroskaröskuninni ADHD, þ.e. athyglisbresti og ofvirkni? Hyggst ráðherra bæta aðgengi að meðferð fyrir börn sem eru greind með ADHD?

Í ljósi átaks ráðherrans beinast þessar spurningar ekki síst að langtímaáætlunum og stefnumótun sem eru forsenda þess að okkur takist að draga úr gríðarlegum kostnaði og lífsgæðatapi barnanna, aðstandenda og samfélagsins alls, sem fylgir þessum vanda ef ekki verður gripið til fullnægjandi úrræða strax á fyrstu stigum.