145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[22:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að hérna sé á tvennt að líta. Það er annars vegar að á móti þessari fjárfestingu myndast eign, framseljanleg eign, seljanleg eign. Það eru öll merki þess að með því að taka þátt í stofnun bankans, verða stofnaðili að bankanum, muni menn enn frekar geta horft fram á að virði fjárfestingarinnar vaxi en ef þeir vildu reyna að eiga aðild að bankanum á síðari stigum.

Svo er það hitt. Ég tel mjög mikilvægt að við gerum það sem við getum til að styrkja og efla íslensk útflutningsfyrirtæki í störfum þeirra, þar með talið verkfræðistofur, arkitekta, jarðvarmasérfræðinga og allt sem tengist þeirri sérfræðiþekkingu sem við höfum fram að færa og getum boðið. Með því að Ísland eigi aðild að bankanum mun hann lána (Forseti hringir.) til slíkra aðila, ella mundi bankinn ekki gera það og það væri erfiðara fyrir íslensk fyrirtæki, sem eru jú íslenskir skattgreiðendur, að sækja verkefni á þessu svæði. Vonandi mun okkur takast á þessu svæði (Forseti hringir.) eins og annars staðar í heiminum að efla útflutning.