145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Hún kom inn á ýmsa þætti, þar á meðal stöðu Landspítalans, þjóðarsjúkrahússins okkar. Mér fannst það ágætt sem kom fram í máli hennar, að hún vildi sama kerfi fyrir sjálfstætt starfandi lækna og í opinbera heilbrigðiskerfinu. Það sem hefur verið að gerast er að opinbera heilbrigðiskerfið hefur verið að veikjast mikið, ljóst og leynt. Það lýsir sér núna í fjárlögum þegar gert er ráð fyrir að hægt sé að fara út í einkarekstur heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og er verið að ýta undir þá þróun.

Í nefndaráliti 1. minni hluta kemur fram í samanburði á milli OECD-landanna og Íslands varðandi fjármuni í viðhald, húsnæðis- og tækjakaup og ýmsa framþróun að við erum þar lægst, á sama stað og Grikkir og Mexíkóar. Að meðaltali leggja OECD-löndin til 0,5% af vergri landsframleiðslu í þessa liði en við Íslendingar eingöngu 0,1% af vergri landsframleiðslu og erum ekki á besta stað miðað við að við erum á sama stað og ríki eins og Grikkland og Mexíkó.

Mig langar aðeins að heyra frá hv. þingmanni um aukinn einkarekstur ljóst og leynt, eiginlega á bak við tjöldin, án þess að ræða þau mál á Alþingi, og hvert stefnir fyrir Landspítalann, þjóðarsjúkrahúsið okkar, ef áfram heldur sem horfir.