145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkuð yfir fjárlagafrumvarpið og einstaka þætti sem ég hef ekki náð að fara yfir áður í fyrri ræðum. Það einkennir þetta fjárlagafrumvarp og ótrúlega margar breytingartillögur fjárlaganefndar hversu víða er um að ræða efnislegar breytingar sem almennt hefði mátt gera ráð fyrir að væru ákveðnar með öðrum hætti á hinu pólitíska sviði. Sérstaklega er þetta áberandi í vegamálum og samgönguframkvæmdum þar sem þessi ríkisstjórn hefur aldrei frá því að hún tók við haft í gildi samgönguáætlun sem er hinn eðlilegi vettvangur til að forgangsraða samgönguframkvæmdum og ákveða röðun þeirra. Þar með er Alþingi haldið frá pólitískri ákvörðun um þá forgangsröðun að ósekju og þvert á ákvæði gildandi laga.

Það er vert að minna á að í rannsóknarskýrslu Alþingis var ónógri reglufestu og ríku ráðherraræði lýst sem einum af höfuðáhættuþáttum í aðdraganda hruns. Ríkisstjórnin hefur tekið þá stjórnarháttu upp á algerlega nýtt plan með því að koma aldrei með neitt inn í þingið nema bara í gegnum fjárlög og breyta þannig umgjörð samfélagsins einungis með fjárveitingum. Það kveður svo rammt að þessu að hún er farin að ákveða líka útlit húsa í breytingartillögum fjárlaganefndar. Fjárveitingar til verkefna sem ákveðin eru með lögbundnum hætti verða umfangsmeiri og fyrirferðarmeiri en ella af þeim ástæðum. Og það eru áreiðanlega ekki fordæmi um það áður að fjárlaganefnd mæli fyrir í breytingartillögu um útlit húsa sem leggja á fjármagn í.

Það vekur líka athygli í þessari umræðu sem hefur átt sér stað um fjárlagafrumvarpið við 2. umr. hversu vinnan við fjárlagavinnuna er í miklum handaskolum. Á síðasta kjörtímabili var hér gengist fyrir breytingu á þingsköpum sem miðaði að því að auka möguleika á vönduðum vinnubrögðum við gerð fjárlaga með því að flýta samkomudegi Alþingis til annars þriðjudags í september. Þar með gæfist rýmra svigrúm til meðferðar fjárlagafrumvarpsins og vinnslu þess. Á þetta nýja kerfi hefur reynt í fyrsta sinn að fullu og öllu nú einungis þetta ár og árið í fyrra en það vekur athygli að hinum fyrirframákveðna umræðudegi fyrir 2. umr. fjárlaga hefur verið frestað í bæði skiptin þó að fordæmalaus tími hafi gefist til vinnslu fjárlaga. Reyndar hefur það verið þannig að í kjölfar umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í upphafi þings hef ég staðið með hæstv. forsætisráðherra tvö haust í röð hér frammi í hliðarsal með sjónvarpsfréttamanni í beinni útsendingu í tíufréttum Ríkissjónvarpsins og í bæði skiptin hefur hæstv. forsætisráðherra tekið til baka stefnumörkun sem er að finna í fjárlagafrumvarpi sem hefur ekki einu sinni verið mælt fyrir. Þessi losaragangur við undirbúning fjárlaganna, við pólitísku stefnumörkunina að baki þeirra og síðan við vinnsluna í meðferð fjárlaganefndar hefur auðvitað verið til mikils vansa og skaðað úrvinnsluna.

Það vakti þjóðarathygli þegar í ljós kom að meiri hluti fjárlaganefndar hafði gleymt launahækkunum kennara við vinnslu fjárlaga. Þannig vantaði fjárheimild til að standa við gerða kjarasamninga að því leyti. Maður hefði nú haldið að fjárhæð upp á 1,2 milljarða ætti að koma fram í villuprófun og yfirlestri en það er auðvitað mikið umhugsunarefni að svo er ekki.

Ég velti líka fyrir mér og var bent á dálítið skondið orðalag í einni breytingartillögu við lítinn lið. Það er kannski ekki neitt sérstaklega stórt mál en það er liður upp á 235 millj. kr. í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar, liður 06-651 Vegagerðin, þar sem gerð er tillaga um 235 millj. kr. tímabundið framlag til vegagerðar í dreifðum byggðum. Svo er það rökstutt og segir í textanum:

„Lagt er til að af framlaginu verði 150 millj. kr. varið í tilraunaverkefni um að leita ódýrari lausna við uppbyggingu malarvega. Jafnframt er lagt til að veitt verði fé í brú yfir Þverá, lagfæringar á vegi við Norðlingafljót/Helluvað og í lagfæringar á Tindastólsvegi nr. 746.“

Nú hef ég farið dálítið víða um Ísland og eitt vekur athygli, það er hversu margar Þverár eru á Íslandi. Hér er sagt í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar: Lagt til að veitt verði fé í brú yfir Þverá, en ekki tekið fram yfir hverja Þverá af þeim mörgu sem eru til í landinu. Það hlýtur að benda til þess að fram undan sé mjög spennandi tími fyrir áhugamenn um vegagerð yfir ýmsar Þverár vítt og breitt um landið að útfæra hugmyndir um brúarsmíð og sækja í þennan sjóð til Vegagerðarinnar því verði þetta að lögum er það þannig að samkvæmt greinargerð með tillögu í gildandi fjárlögum skal veita fé í brú yfir Þverá án þess að það sé sérstaklega tiltekið hver sú Þverá er.

Að síðustu vegna þess að það er farið að sneyðast um tíma minn vil ég undirstrika mikilvægi þessarar ítarlegu umræðu sem hefur orðið um fjárlagafrumvarpið við 2. umr. vegna þess með hvaða hætti ríkisstjórnin mætir að öðru leyti til þings þennan veturinn. Hér hefur engin pólitísk umræða að viti farið fram í vetur vegna þess að hér hafa engin mál verið á dagskrá frá ríkisstjórninni að heitið geti. Okkur hefur tekist í þessari umræðu að varpa kastljósinu á stóru málin sem miklu skipta, að lífeyrisþegar njóti réttlætis á við launafólk í landinu og við höfum kreist út úr ríkisstjórninni svör hvað það varðar og ábyrgðaryfirlýsingu fjármálaráðherra landsins um að hann telji það bara einfaldlega gott að lífeyrisþegar sitji eftir þegar kemur að samanburði við launafólk.

Við höfum líka náð að varpa kastljósinu að vanda Landspítalans og mikilvægi þess að honum verði séð fyrir fullnægjandi fjárveitingum og kreista út úr stjórnarmeirihlutanum að ekki standi til að mæta eðlilegum beiðnum Landspítalans um aukið fjármagn sem kallað er eftir af yfirstjórninni og var svo vel gerð grein fyrir í sögulegri grein Kára Stefánssonar í liðinni viku.

Við höfum líka lagt áherslu á málefni Ríkisútvarpsins, mikilvægi þess að ekki sé vegið að Ríkisútvarpinu og það verði áfram sú höfuðstoð mennta og menningar í landinu sem það hefur verið frá upphafi síns vega og það muni áfram geta verið burðarás í þjónustu við hinar dreifðu byggðir sem hefur miklu skipt í gegnum tíðina. Þetta hafa verið áherslumálin í þessari umræðu og það skiptir miklu máli að halda þeim til haga og það er gott að tekist hafi að nýta hana til að varpa kastljósinu með þessum hætti.