145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svarið. Mig langar að byrja á að taka fram að með þessari spurningu minni var ég ekki að segja að ég væri hlynnt því að skilyrða megi þá sem hafa fulla starfsgetu, bara svo því sé alveg til haga haldið.

Það sem ég hef áhyggjur af er það sem meðal annars hefur verið rætt í nefnd um endurskoðun á almannatryggingakerfinu, að taka upp starfsgetumat og að þeir öryrkjar sem fari í starfsgetumatið eigi þá rétt á hlutabótum en séu á vinnumarkaði í samræmi við starfsgetu sína. Ef þessir einstaklingar fá hins vegar ekki vinnu gætu þeir hugsanlega farið á atvinnuleysisbætur og þegar því tímabili er lokið, ef einstaklingurinn er enn ekki kominn með vinnu, tæki fjárhagsaðstoð sveitarfélaga við.

Í íslenskri löggjöf er ekkert sem bannar að fólki sé mismunað á vinnumarkaði vegna fötlunar. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að fólk geti lent í mjög erfiðum núningi á milli kerfa þar sem fólk er í rauninni búið að fá mikla höfnun á vinnumarkaði og er þess vegna komið á þennan stað. Það sem ég er að segja er að mér finnst við þurfa að hugsa þetta heildrænt. Ef við ætlum að leggja til breytingu á öðrum staðnum, þ.e. taka upp starfsgetumat, þurfum við að hugsa það til enda hvaða samfélagslegu áhrif það hefur, bæði fyrir samfélagið allt og ekki síst einstaklinginn svo ég reyni að koma þessu skýrt og skilmerkilega frá mér.

Það er annað sem hv. þingmaður kom inn á í upphafi ræðu sinnar sem mig langar að nota síðustu sekúndurnar til að spyrja út í, 1. gr. um að ráðherra gefi árlega út leiðbeiningar til sveitarstjórna. Telur hv. þingmaður koma til greina að setja hreinlega inn (Forseti hringir.) lágmarksfjárhæðina sem sveitarfélögin ættu að veita og auðvitað byggja hana á einhverjum viðmiðum? Væri sterkari leikur að hafa tiltekna fjárhæð í þessu frumvarpi?