145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég var að velta fyrir mér hér hvort ég ætti að taka til máls um fundarstjórn forseta út af því að hæstv. forsætisráðherra er ekki hér. Ég fór í gegnum smápælingar í huganum í því sambandi. Maður er svolítið orðinn samdauna ástandinu, orðinn vanur því að hæstv. forsætisráðherra komi svona fram við þingið. Hann kemur hingað einstaka sinnum, lætur bíða eftir sér, flytur hérna mál og svo er hann bara farinn. Ég komst að þeirri niðurstöðu í huganum að maður yrði að taka til máls og gera athugasemdir við þetta. Auðvitað er þetta ekki í lagi. Ég beini því til stjórnar þingsins, til forseta þingsins, að líta ekki svo á að þetta sé í lagi. Ef þetta á að vera hefð er þetta vond hefð. Sem betur fer eru aðrir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn öðruvísi hvað þetta varðar. Þeir sitja hérna, fylgja sínum málum úr hlaði og svara spurningum. Þetta er mjög umdeilt mál og mér finnst ekki að hæstv. forsætisráðherra eigi að komast upp með það að (Forseti hringir.) sitja ekki hér og taka þátt í umræðunum.