145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt athyglisvert að sjá fjarveru þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þingmanna Framsóknarflokksins úr þessari umræðu. En ég skil það vel að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins á suðvesturhorninu sem eru að rembast við að ná endurkjöri vilji ekki verja þessa grímulausu haftavitleysu sem hér er í gangi. Þeir eru að reyna að passa að láta kjósendur sína ekki fatta hvers konar rugl er í gangi. Þess vegna hefur hv. þm. Jón Gunnarsson verið sendur út með þetta reykský, hugmyndina um einhvers konar þriggja ára samning sem samt sé tíu ára samningur en enginn veit hvernig raunverulega er, til þess að reyna að draga athyglina frá bullinu sem hér er í gangi. Ég held að kjósendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og í Reykjavík þurfi að hugsa sinn gang yfir framgöngu hv. þingmanna Vilhjálms Bjarnasonar, Sigríðar Á. Andersen, Birgis Ármannssonar, Brynjars Níelssonar, Elínar Hirst. Eigum við að fá að hlusta á fleiri meintar frjálslyndisræður frá þessu fólki? Guð forði okkur frá því. Þetta fólk verður að fara í þann Framsóknarflokk sem það á heima í og útskýra það fyrir kjósendum sínum að það hefur enga heimtingu til þess að tala fyrir frjálslyndi á einn eða annan hátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Af því að hv. þingmaður hins vegar spyr um stjórnarskrána þá er það þannig að Samtök verslunar og þjónustu, held ég það hafi verið frekar en Samtök atvinnurekenda, höfðuðu mál til ógildingar búvörusamnings. Því var vísað frá vegna þess að ekki væri búið að staðfesta hann hér. Það mun því reyna á það fyrir dómstólum ef menn ætla að reyna að böggla einhverjum tíu ára samningi í gegn. Ég er sammála hv. þingmanni um að það stenst ekki stjórnskipan Íslands að binda svo hendur Alþingis um ókomin ár. Ég held að það sé mjög mikilvægt þess vegna að kreista það þá alla vega út úr þessum þykjustufrjálslyndisþingmönnum Sjálfstæðisflokksins að þeir gangi alla vega tryggt fram hér þannig að þetta bindi hendur næstu þinga (Forseti hringir.) af því að það kann nefnilega að vera að það komi alvörufrjálslyndisþingmenn á næsta þing, ekki svona (Forseti hringir.) þykjustufrjálslyndisþingmenn eins og við höfum fengið í boði Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili.