146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:18]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir andsvar hennar. Jú, ég hef einmitt velt þeim þætti fyrir mér sem snýr að starfsfólkinu og eftirlitinu, því að samkvæmt þessu frumvarpi, ef það nær fram að ganga, mega starfsmenn sem afgreiða áfengi ekki vera yngri en átján ára. Það kom alls ekki nógu skýrt fram í máli hv. þm. Teits Björns Einarssonar í andsvörum í dag hver ætti eiginlega að sinna þessu eftirliti, þ.e. aldurseftirlitinu, hver mætti selja áfengi. Ég held líka að það skapi sömuleiðis ákveðinn freistnivanda fyrir starfsfólk matvöruverslana ef ekkert eftirlit er haft með sölunni.

Ef við tölum almennt um starfsmannamál, og það er punktur sem fylgismenn frumvarpsins eru afar viðkvæmir fyrir að ræða, þá eru starfsmannamálin yfirleitt mjög fyrirferðarmikil þegar einkavæðing á ríkisstofnunum í Evrópu er rædd. Og þá kemur að þeim þætti er lýtur að starfsmönnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Starfsmenn áfengis og tóbaksverslunar ríkisins eru tæplega 700 talsins. Við fjöllum hér fjálglega um starfsöryggi þessa hóps sem er svo sannarlega ekki verið að tryggja með því að breyta þessum lögum. Þar bætist enn þá við þann kostnað sem hlýst af þessu máli og fellur á herðar ríkisins, þ.e. hvað verður um þetta starfsfólk? Fer það að afgreiða í smávöruverslunum? Hvaða hliðaráhrif hefur það á það starfsfólk sem fyrir er í verslunum? Það eru mjög margir fletir á þessu máli sem ekki eru úthugsaðir, hvort sem það er kostnaður ríkissjóðs, lýðheilsusjónarmið, starfsmannamál (Forseti hringir.) eða önnur hliðaráhrif frumvarpsins.