146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er fyrst að segja að ástæða þess að málið er rætt hófstillt þessa stundina er kannski vegna þess hvernig það kemur inn í þingið. Það kemur ekki inn í þingið í djöfulgangi, eins og gerðist síðast þegar þáverandi hv. formaður atvinnuveganefndar tröllreið hér húsum með látum. Það er kannski fyrst og síðast ástæðan og sem betur fer hefur fólk ekki þurft að eyða tíma sínum í það. Ég verð líka að taka undir og lýsa ánægju minni með að málið sé nú komið heim aftur, þ.e. í umhverfis- og samgöngunefnd. Í dag hefur verið talað svolítið um hvort þingið hafi ekki burði til þess að komast að niðurstöðu og hvort það þýði að við þurfum að taka upp þetta verkferli og þessi lög. Það held ég ekki. Það hefur gjarnan verið þannig með mál, ekki síst svona stór mál eins og þetta, að þau þroskast í meðförum þingsins. Mál þroskast þegar það fær tíma, en ekki vegna þess að það á að þrýsta því í gegn. Þetta er klárlega mál sem þarfnast þess að fá hér góðan tíma og góða umfjöllun, hvort sem tekst að afgreiða það fyrir vorið eða síðar, það eitt og sér skiptir ekki höfuðmáli, heldur að við gefum okkur allan þann tíma sem málið þarf.

Hér var sagt að sátt þyrfti að vera um vegferðina en ekki endilega niðurstöðuna og það er líklega alveg rétt. Við þurftum og komumst að því samkomulagi í sjálfu sér að þetta rammaáætlunarferli varð niðurstaðan. Hér var líka sagt að aldrei hefði verið sátt um það, en það er vissulega staðreynd að vegferðin er þessi. Ég held að við verðum aldrei sammála um niðurstöðuna, eins og hér hefur komið fram í dag, og það er of langt á milli þeirra sem eru hvað æstastir í að nýta og þeirra sem vilja veg verndar- og friðlýsingarferlis og annars slíks meiri.

Ánægjulegt var að heyra í hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra þegar hann sagði að tími Kárahnjúka væri liðinn. Ég held að eiginlega engum hafi dottið í hug að við værum að fara að upplifa slíkt aftur. En hann kom svo fram með aðrar hugmyndir sem manni hugnast kannski misvel, eins og með sæstreng og annað slíkt, en vakti jafnframt athygli á því að við þyrftum að huga að orkuskiptum, hvort sem það væri í samgöngum, sjávarútvegi eða öðrum þeim stöðum sem það er mögulegt.

Ég vil líka segja og taka undir það sem hér var sagt áðan að töluverð orka er til í kerfinu, en hins vegar hefur skort á flutningsgetu. Það er því hægt að nýta töluvert af þeim kostum sem nú þegar eru til staðar í nýtingarflokki án þess að fara að hella sér út í fleiri slíka.

Einnig hefur verið talað um að vernda miðhálendið, þess vegna sé nú vert að gæta að því hvað fer undir í þessari atrennu. Ég verð að taka undir það að við þurfum að huga vel að því. Ég hef trú á hæstv. umhverfisráðherra sem hefur talað fyrir hönd náttúrunnar alla jafna a.m.k. og þá treystir maður því að það verði frekar ofan á en hitt. Ég verð að segja að ég get ekki annað en lýst ánægju minni með að efasemdaraddir hafa komið fram í röðum stjórnarliða um það hvort sú tillaga sem hér liggur á borðinu sé sú besta. En ég tek líka undir það að auðvitað er ánægjuleg niðurstaða hér með mjög margt, ekki síst á mínu svæði, þ.e. norðaustursvæðinu. Þar er þrýst mjög á, eins og sums staðar annars staðar. Við þingmenn höfum fengið áskorun um Hrafnabjargavirkjun og fleira. Ég verð að segja að ég get því miður ekki tekið undir þá áskorun af hálfu heimamanna.

Þegar við erum með svo viðkvæmt mál sem náttúra Íslands er, þá er það náttúrlega þannig að við verðum kannski aldrei öll sátt. Við erum hins vegar það skynsöm að við áttum okkur á því. En það þýðir samt ekki að við beitum okkur ekki af öllu afli fyrir því sem við trúum á eða trúum ekki á, í þessu tilfelli er kannski hvort tveggja undir.

Hér hefur margt verið nefnt, hvort sem við tölum um Skjálfandafljót og jökulárnar í Skagafirði eða Aldeyjarfoss, þá yrði það að mínu mati stórkostlegt slys ef menn færu að láta það verða að veruleika að virkja, af því að ég held að við eigum alltaf að hafa það að leiðarljósi að náttúran eigi að njóta vafans. Þess vegna má kannski segja að rammaáætlun sé að einhverju leyti með öfugum formerkjum; þeir sem vilja vernda þurfa alltaf að færa þyngri sönnunarbyrði einhvern veginn fyrir því að það sé skynsamlegt heldur en þeir sem vilja nýta.

Talað hefur verið um að það sem hér er undir gæti dregið úr ásókn ferðamanna víða um þau svæði sem gert er ráð fyrir að virkja, m.a. þau sem ég nefndi áðan, hvort heldur er við Skjálfandafljót eða annars staðar. Það er auðvitað ekki bara það. Við erum að tala um varpstöðvar fugla og hér hefur verið nefnd laxagengd og annað slíkt. Það liggur ekki fyrir að það sem lagt er til sem mótvægisaðgerðir gangi eftir eða geti staðið á móti þeim neikvæðu áhrifum sem undir eru.

Núna fer málið til umhverfisnefndar. Nú er það svo að fjármálaáætlun er fram undan, þegar fjármálastefnan verður afgreidd hér á þinginu þá verður fjármálaáætlun næst á dagskrá. Ég hvet fulltrúa í umhverfis- og samgöngunefnd til að gæta þess að fjármunir verði til staðar til að hægt sé að klára friðlýsingarferlið víða og helst að auka við slíkt, af því að það gerist náttúrlega ekkert ef ekki verða settir í það peningar. Það er alveg ljóst. Það er því eitt af því sem þarf að hafa í huga við þetta verkefni, þ.e. þegar fjallað er um rammaáætlun, hvað það kæmi til með að kosta, og eins í rauninni þegar þau málefni sem heyra undir umhverfis- og samgöngunefnd og tilheyra fjármálaáætlun að öðru leyti koma til umfjöllunar, að fólk hafi þetta almennt í huga.

Það er ekki langur tími hér og maður nefnir bara eitthvað örstutt til að koma inn á það sem snýr kannski næst að manni. Aðrir hafa talað meira um Þjórsá og Skrokköldu og annað sem hefur verið farið ágætlega yfir. En eins og ég segi, það eru góðir hlutir hérna líka, en aðrir sem maður á erfitt með að fella sig við, eins og t.d. virkjanirnar í Þjórsá sem hafa verið ræddar. En það verður auðvitað aldrei svo að hægt sé að koma til móts við alla.

Þess vegna segi ég það nú bara enn og aftur að það er okkar þingmanna að hafa trú á ferlinu sem við erum með í fanginu, en það þýðir það ekki að við megum ekki spyrna við fótum teljum við, eins og hér hefur verið sagt, að unnið hafi verið hratt, og aðilar sem komið hafa að málinu hafa talað um að tíminn hafi ekki verið nægur. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór einmitt ágætlega yfir ferlið, hvernig það hefur verið og það að formaður verkefnisstjórnar 3. áfanga ítrekaði það margsinnis að tímaþröngin hefði verið töluverð. Það eitt og sér er kannski ástæða þess að hér var spurt um hvers vegna tillagan kæmi óbreytt inn, hvort ekki hefði átt að gefa sér meiri tíma í ljósi þess að málið fékk í raun ekki þann tíma sem það átti að fá í ferlinu, sem í upphafi var ætlað að gefa því.

Við erum með gott fólk í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég treysti því. Við erum með fólk sem hefur mikla þekkingu á þessum málaflokki þar. Ég vona svo sannarlega að nefndin nýti sér það þegar hún fer að fá gesti og sjónarmið þeirra sem betur þekkja til.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að láta slag standa í þessu. Málið fer væntanlega núna til nefndarinnar og fær þar þá faglegu umfjöllun sem við þurfum á að halda.