148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

hvalveiðar.

[11:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Með leyfi:

„Litur sjávarins breyttist í rautt og slátrarinn skælbrosir. Hjartað í blóði drifnum höndum hans er enn volgt. Stoltur heldur hann því að myndavélinni.“

Þannig hljóðar fyrirsögn í þýsku dagblaði sem birtist þegar hvalveiðar voru leyfðar aftur á Íslandi árið 2003. Keimlíkar fréttir og frásagnir af hvalveiðum birtust í fjölmiðlum um allan hinn vestræna heim og leiddu til mikillar hneykslunar og gagnrýni. Eftir nokkra daga á að leyfa veiðar á allt að 209 langreyðum, sem eru næststærstu núlifandi dýrategundin og eru á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Þegar veiðar voru leyfðar aftur skömmu eftir hrun var efnahagslíf þjóðarinnar með allt öðrum hætti og þjóðin sleikti sárin eftir hrunið. Í dag er ekki einu sinni hægt að bera fyrir sig efnahagslegum rökum og mestar líkur eru á að þetta muni skaða atvinnulíf okkar stórkostlega. Ekkert liggur einu sinni fyrir um hvort hægt verður að selja þessar afurðir.

190 þjóðir banna verslun og flutning á hvalaafurðum. 28 Evrópuþjóðir og Bandaríkin hafa þar að auki mótmælt veiðunum hér á landi með formlegum hætti. Þá liggur heldur ekki fyrir neitt nægilegt mat á áhrifum hvalveiða á lífríki, efnahag eða samfélag. Loks er ótalið hversu hrottalegar þessar veiðar eru, með eldgömlum tækjum. Í því ljósi er ákvörðunin um áframhaldandi hvalveiðar í raun algjörlega óskiljanleg.

Ég vil einfaldlega fá að vita hvort hæstv. umhverfisráðherra sé mér sammála um að í þessu felist skammsýni og hvort eitthvað hafi breyst í stefnu Vinstri grænna varðandi friðun hvala. Ef ekkert hefur breyst, hvernig hefur flokkurinn þá beitt sér í ríkisstjórn? Og ef eitthvað hefur breyst, hvaða ný rök vill hæstv. ráðherra telja upp sem mæla með hvalveiðum á Íslandi?