149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég mun nýta minn stutta tíma til að ræða netöryggi. Einn af áherslupunktum þjóðaröryggisstefnu Íslands er að stuðla að auknu netöryggi með áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og í samstarfi við önnur ríki. Við Íslendingar þurfum nauðsynlega að efla samstarf við háskóla í nágrannaríkjunum sem mennta sérfræðinga á þessu sviði og gera háskólum okkar kleift að mennta sérfræðinga til að kenna, ráðleggja og sinna samstarfi fyrir okkar hönd, við önnur lönd um netöryggi.

Við búum að samstarfi við NATO í þessum efnum og samstarf við Norðurlönd hefur einnig verið gott og mun eflast enn frekar eftir nýlega samþykkt á þingi Norðurlandaráðs á dögunum. En til að taka þátt í frekara samstarfi og víðar hefur okkur skort sérmenntað fólk. Netvæðing hefur hrundið af stað samfélagsbreytingum og gjörbreytt skilyrðum, þörfum og aðstæðum einstaklinga og samfélagsins alls, fyrirtækja, stofnana, vinnumarkaðar, menntakerfis og félagasamtaka. Stafræn tækniþróun hefur áhrif á hagvöxt og sjálfbærni, velferð og jöfnuð, öryggi og lýðræði.

Netárásir geta lamað heilu samfélögin og afleiðingarnar geta verið bæði beinar og óbeinar í gegnum falsfréttir. Almenningur veit að netnotkun fylgja hættur en ekki alltaf hvar þær leynast og hvað sé til ráða. Vitundarvakning um það þarf að eiga sér stað og samkvæmt nýútkominni skýrslu þjóðaröryggisráðs, er stefnt að því að auka samvinnu um upplýsingamiðlun og vitundarvakningu á þessu sviði, á vettvangi netöryggisráðs með ýmsum hagsmunaaðilum og það er vel.

Netárásir eru hernaður á friðartímum. Vegið er úr launsátri og árásirnar geta verið hvaðan sem er í heiminum. Netið er alþjóðlegt og því skiptir alþjóðlegt samstarf miklu máli. Þar þurfum við Íslendingar að vera virkari þátttakendur.