149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að rifja upp að fyrir nokkrum árum síðan kom ég með inn í þingið tillögu að breyttu fyrirkomulagi þessara mála sem fól í sér að komið yrði á fót eins konar starfseiningu undir fjármála- og efnahagsráðuneytinu í stað stofnunarinnar.

Málið var rætt töluvert hér í þinginu og sitt sýndist hverjum. Ætli við getum ekki sagt að í nefnd hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að þeir vildu heldur halda í þetta fyrirkomulag. Það var uppi sú túlkun í þinginu á þeim tíma að stofnunin yrði ekki lögð niður á grundvelli þessa ákvæðis gildandi laga heldur þyrfti ný lög, það þyrfti að koma til lagabreyting. Á þeim grundvelli hefur stofnunin starfað frá þessum tíma.

En nú er ég kominn með nýtt frumvarp. Það frumvarp fjallar eingöngu um bráðabirgðaákvæðið og í raun og veru fellir það niður. Textinn sem lesinn var upp úr gildandi lögum er fyrst og fremst til vitnis um að á þeim tíma sem þurfti að endurfjármagna fjármálafyrirtækin eftir hrunið sáu menn ekki fyrir sér að ríkið yrði til lengri tíma eigandi að þeim hlut sem þar var undir. Þess vegna væri ekki ástæða til að koma á fót sérstakri stofnun til að halda utan um eignarhlutinn nema í takmarkaðan tíma. Það er hin sögulega skýring á þessu. Menn hafa litið þannig á að stofnunin yrði ekki lögð niður nema með nýrri ákvörðun þrátt fyrir þetta orðalag í lögunum. En nú erum við með frumvarp til að fella það úr gildi, enda hefur það runnið sitt skeið.