149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir svarið. Kannski til að fylgja þessu aðeins eftir: Við horfum á hvernig samskipti einkaaðila og sjálfstætt starfandi sérfræðinga hafa verið — Klíníkin, hægt er að taka ótalmörg dæmi — milli þessara þessa hóps annars vegar og heilbrigðisráðherra og ráðuneytisins hins vegar undanfarna mánuði og misseri, sem sagt undir stjórn núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur.

Hvernig metur hv. þm. Vilhjálmur Árnason það? Metur hann það sem svo að það sé raunverulegur áhugi hjá núverandi heilbrigðisráðherra að nýta kosti einkarekstrar þar sem það á við? Komið hefur verið inn á það í umræðunni fyrr í dag að mjög erfitt sé að sækja upplýsingar um kostnaðargreiningu, sem sagt um raunkostnað, á Landspítala og svo sem víðast hvar í kerfinu. Er það raunhæft að mati þingmanns að við munum sækja þá þjónustu þar sem hún er veitt á sem hæfilegustu verði miðað við afrakstur? Eða er þetta draumsýn til einhverrar framtíðar? Því að það er ekkert að mínu mati í umhverfinu eins og það blasir við okkur núna sem gefur til kynna að það sé raunveruleg ætlan þess ráðherra að leita hagkvæmustu leiðanna, ef það gæti kallað á að semja við einkaaðila.