149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég rakst á, í Morgunblaðinu í dag, grein eftir Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, undir yfirskriftinni: Vönduð málsmeðferð um þriðja orkupakkann. Ef ég gríp aðeins niður í greinina, með leyfi forseta, þar sem verið er að tala um innleiðingu þriðja orkupakkans, segir:

„… heldur eru reglur hans til hagsbóta fyrir Íslendinga vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði.“

Þetta er einmitt það sem stjórnarþingmönnum hefur orðið svolítið tíðrætt um, þessi neytendavernd og að þetta sé allt til hagsbóta fyrir okkur.

Nú hef ég hér töflu sem er yfirlit yfir hækkun raforkuverðs frá janúar 2013 til janúar 2017. Í þessari töflu eru talin upp ein sex raforkufyrirtæki eða raforkusalar og meðaltalshækkun þessara fyrirtækja á þessu tímabili er 19,6%. Á sama tíma hefur vísitalan hækkað um 9% þannig að við sjáum að hér fer hv. þingmaður bara með rangfærslur. Svo höfum við, þingmenn Miðflokksins, verið sakaðir um að fara með rangfærslur.

Ég vil fá álit hv. þingmanns á framsetningu eins og birtist okkur hér.