149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og ég lýsi mikilli ánægju með það að hv. þingmaður muni greiða atkvæði gegn innleiðingu orkupakka þrjú. Ég biðst afsökunar á því að hafa sagt að allur þingflokkur Pírata stæði með málinu. Það er ekki rétt og vil ég hrósa hv. þingmanni fyrir það.

Ég styð að sjálfsögðu þverpólitíska samstöðu í stjórnarskrármálinu og mun fara yfir það þegar að því kemur að allir formenn flokkanna nái einhvers konar niðurstöðu þar. En það er hið besta mál og að sjálfsögðu mun ég kynna mér það þegar að því kemur.

Kjarni málsins er þessi: Það er hægt að forðast allar efasemdir og óvissu og annað slíkt með því einfaldlega að hafna málinu hér og nú, vísa því til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá undanþágu. Þá eru öll óvissa með stjórnarskrána og það sem fram undan er í málinu að baki, á bak og burt. (JÞÓ: Þið erum búin að skrifa undir að þetta verði afgreitt þannig að það er ekki í boði.) Ég segi: Það á að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar, hafna þessari innleiðingu og fá undanþágu. Þá er málið leyst að því leytinu til að búið er að leysa þá óvissu sem mun hanga yfir okkur, það er alveg klárt mál, sem gæti orsakað það að við þyrftum að greiða háar skaðabætur o.s.frv.

Það er mikil óvissuferð fram undan sem ríkisstjórnin er að leggja í með þessu máli. Það kemur manni mjög sérkennilega fyrir sjónir vegna þess að Framsóknarmenn hafa ályktað um að það eigi að fá undanþágu frá þessu, grasrót Framsóknarflokksins. Mikil óánægja er meðal Sjálfstæðismanna og um 70% þjóðarinnar eru á móti málinu. Samt er verið að keyra það í gegn. Við hvað eru stjórnvöld hrædd? (JÞÓ: Viltu setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu?) Ég segi bara, hv. þingmaður: Það er fullkomlega eðlilegt að hafna þessu máli hér og nú, þá þurfum við ekkert að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu, bara hafna því. Við vitum að þjóðin er á móti því, (Forseti hringir.) meiri hluti stuðningsmanna stjórnarflokkanna. Þetta er einfaldasta og fljótlegasta leiðin.