150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vil vekja athygli á og ég nefndi í fyrri ræðu minni er að fjármálastefnan gerir sjálf ráð fyrir því að ef forsendur efnahagsspár bresta og ekki er hægt að gera ráðstafanir, ekki þyki eðlilegt að gera kröfu um ráðstafanir til að mæta því, geti afkoman verið neikvæð. Mitt sjónarmið er að það geti vel verið eðlilegt við einhverjar slíkar aðstæður. En við erum hér að ræða um hluti sem enginn er að spá, enginn af spáaðilunum í þessu fjárlagafrumvarpi sem við tiltökum, hvorki Hagstofan né nokkur af hinum sem eru tilteknir, og dregin er upp mynd í efnahagskaflanum um þetta, gerir ráð fyrir samdrætti á næsta ári.

Ég vil síðan nefna það, af því að hér er komið inn á sölu banka, að sala banka er tækifæri til að losa um mikla fjármuni og fara í sókn í innviðauppbyggingu. (Forseti hringir.) Maður spyr sig hvort hv. þingmaður sé hreinlega andvíg því að farið verði í sölu banka og losað um fjármuni til að forgangsraða upp á nýtt.