150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn er að spara í útgjöldum til heilbrigðiskerfisins, í kerfinu, með því t.d. að leggjast svo lágt að spara þvagleggi fyrir fólk í hjólastólum sem getur valdið þeim sýkingum, blóðeitrun og jafnvel nýrnabilun, er langt seilst. Það er viðvarandi alvarlegur lyfjaskortur og hallarekstur á Landspítalanum. Bráðadeildin er svo veik að hún er orðin gjörgæsluhæf með greiningu um að það geti brugðið til beggja vona um framhaldið.

Á sama tíma og sú grafalvarlega staða er uppi og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu þenst báknið út. Eftirlitsstofnanir fara tífalt fram úr fjárlögum. Fjölmiðlanefnd var með 10 milljónir 2008, í fjárlögum 2018 með 56 milljónir. Frá 2018–2020 á hún að fara úr 56 milljónum í nær 500 milljónir. Frá 2010 hafa eftirlitsstofnanir hækkað um nær 9 milljarða eða úr 12 milljörðum í um 20 milljarða. Á sama tíma er ríkisstjórnin að setja sjúkraþjálfunarkerfið í uppnám vegna framúrkostnaðar sem er nauðsynlegur vegna þess að veikt fólk þarf á sjúkraþjálfun að halda. Athugið að á sama tíma og báknið þenst út um milljarða finnur núverandi ríkisstjórn nákvæmlega þá sem þarf að spara hjá, spara þvagleggi hjá fólki sem er í hjólastólum. Er hægt að leggjast lægra? Og ráðast á heilbrigðiskerfið, sjúkraþjálfun. Hvaða áhrif hefur það að ráðast á sjúkraþjálfunina? Jú, það mun hafa þau áhrif að það verða fleiri og fleiri sem þurfa að fara inn á sjúkrahúsin og stífla kerfið enn þá meira. Er það framtíðarsýn okkar?