150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

meðferð einkamála.

100. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála sem gerir breytingar á því hvernig málskoti til æðra dómstigs er háttað í meiðyrðamálum. Frumvarpið hefur verið lagt fram tvisvar sinnum áður en komst ekki til umfjöllunar.

Mikilvægur þáttur í því réttaröryggi sem dómstólar veita er að þeir sem leita til dómstóla eigi möguleika á því að úrlausn þeirra verði endurskoðuð af æðri dómstóli. Slíkar reglur stuðla bæði að auknu réttaröryggi og samræmi í réttarframkvæmd. Á Íslandi starfar nokkur fjöldi dómstóla á fyrsta stigi. Það stuðlar því að samræmi í réttarframkvæmd að gefa aðilum möguleika á að vísa málum sínum til æðra dómstigs. Möguleiki á málskoti og endurskoðuðum úrlausnum dómstóla er nauðsynlegur hluti þess réttarríkis sem við búum við og er í samræmi við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt núgildandi 152. gr. laga um meðferð einkamála er það skilyrði fyrir áfrýjun héraðsdóms til Landsréttar að áfrýjunarfjárhæð nemi 1 millj. kr. Þessi fjárhæð breytist svo um hver áramót miðað við breytingu vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2018. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal ákveða áfrýjunarfjárhæð eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Ef fleiri en ein krafa eru sóttar saman í máli skal leggja þær saman við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar.

Núgildandi reglur um áfrýjunarfjárhæð gera það að verkum að erfitt er að áfrýja málum sem varða lágar fjárkröfur. Þetta kann að vera bæði nauðsynlegt og eðlilegt þegar um er að ræða mál sem varða eingöngu litla fjárhagslega hagsmuni. Slíkar reglur draga til að mynda úr samfélagslegum kostnaði við umfangsmikinn rekstur viðamikilla dómsmála þar sem rætt er um tiltölulega litla hagsmuni. Sambærilegar reglur má finna í öðrum löndum og hefur almennt verið litið svo á að þær séu til bóta.

Undir ákvæðið falla þó einnig þau mál sem varða bæði fjárhagslega hagsmuni og annars konar hagsmuni. Þar má sérstaklega nefna mál sem varða ærumeiðingar samkvæmt 234.–237. gr. almennra hegningarlaga. Slík mál nefnast einkarefsimál þar sem einstaklingur stefnir öðrum vegna ákveðinna ummæla og krefst ómerkingar þeirra, en alla jafna eru einnig uppi miskabótakröfur í slíkum málum sem byggðar eru á 26. gr. skaðabótalaga. Það er þó rétt að nefna að fyrir þessu þingi liggur frumvarp dómsmálaráðherra sem kveður á um að sá hluti hegningarlaga skuli felldur úr gildi og æruverndin færð í sérstakan lagabálk sem kveður á um bætur vegna ærumeiðinga. Þannig hætti þessi mál að vera einkarefsimál og verði einfaldlega hefðbundin einkamál. Ég mun víkja stuttlega að skörun þessa máls við það frumvarp sem hér er til umræðu síðar.

Þegar um er að ræða mál sem varðar ærumeiðingar, meiðyrði, móðganir, aðdróttanir, brigslyrði eða annað sambærilegt er staðreyndin einfaldlega sú að það er meira undir en einfaldir fjárhagslegir hagsmunir. Þar er tekist á um æru fólks annars vegar og tjáningarfrelsi hins vegar. Í þessum málum er nokkuð algengt að dæmdar miskabætur nái ekki þeirri áfrýjunarfjárhæð sem tilgreind er í 152. gr. réttarfarslaganna og því eru dómþolar oft í þeirri stöðu, þegar þeir eru dæmdir fyrir að hafa meitt æru einhvers, að þeir geta ekki áfrýjað dómnum án þess að sækja um sérstakt áfrýjunarleyfi samkvæmt 2. mgr. 152. gr. Þegar um er að ræða áfrýjun til Landsréttar er það undir Landsrétti komið hvort hann veitir slíkt áfrýjunarleyfi. Hins vegar eru dómkröfurnar í slíkum málum nær alltaf mun hærri og í raun einfalt mál fyrir þann sem stefnir, eða stefnanda eins og það er kallað, að tilgreina einfaldlega fjárhæð sem er nógu há til að hann geti í öllum tilfellum áfrýjað dómi ef viðkomandi tapar málinu. Með því að hafa dómkröfur sínar yfir þessari áfrýjunarfjárhæð getur stefnandi tryggt, ef stefndi er sýknaður af kröfum hans, að hann geti alltaf skotið málinu til Landsréttar. Af því fyrirkomulagi, virðulegi forseti, leiðir að það er ákveðið ójafnvægi sem myndast á milli stefnanda og stefnda hvað varðar aðgang að æðra dómstigi. Það fer sem sagt eftir því hver tapar málinu hvort sækja þurfi um áfrýjunarleyfi eða ekki.

Í 4. mgr. 152. gr. laga um meðferð einkamála er að finna heimild til handa Landsrétti til að heimila áfrýjun máls með áfrýjunarleyfi þegar áfrýjunarfjárhæð er ekki náð. Kveðið er á um nokkur skilyrði fyrir því að áfrýjunarleyfi skuli veitt. Svör við umsóknum um áfrýjunarleyfi eru þó ekki birt opinberlega og það er því lítið gagnsæi í því hvernig farið er með umsóknir um slík leyfi. Í raun er það sjaldgæft að áfrýjunarleyfi séu gefin út í meiðyrðamálum jafnvel þótt að úrslit málsins geti varðað mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis, eins og t.d. frelsi hans til tjáningar sem varið er í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Til þess, virðulegi forseti, að tryggja að stefnandi og stefndi hafi í meiðyrðamálum jafnan rétt til að fá úrlausn endurskoðaða af æðra dómstigi verður því að ganga úr skugga um að báðir aðilar hafi jafnan rétt til áfrýjunar án þess að þurfa að sækja um áfrýjunarleyfi.

Í íslensku einkamálaréttarfari er meginregla um jafnræði málsaðila en reglunni má lýsa á þann hátt að hún gerir ráð fyrir því að málsaðilar njóti sömu aðstöðu við rekstur máls án nokkurrar mismununar. Sú regla endurspeglast í þeim mannréttindaákvæðum sem gilda um réttláta málsmeðferð. Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er mönnum tryggður réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þá er kveðið á um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Markmið þessarar reglu er að tryggja jafnræði fyrir dómstólum og að ákvarðanir sem dómstólar taka um réttindi og skyldur manna hvíli á hlutlægum grundvelli.

Reglan um réttláta málsmeðferð í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar á sér hliðstæðu í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Þrátt fyrir að möguleiki til áfrýjunar í einkamáli sé ekki beint tilgreindur í áðurnefndum greinum sem grundvallarréttindi hefur Mannréttindadómstóll Evrópu fjallað um möguleika til áfrýjunar sem ákveðinn þátt í aðgengi að dómstólum. Þannig geti synjun á áfrýjun vegið að reglum mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Þá hefur mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lýst því að takmarkanir í lögum á rétti til áfrýjunar kunni að fela í sér takmörkun á rétti manna til að fá dóm sinn endurskoðaðan í samræmi við 5. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem kveður á um jafnræði manna fyrir dómstólum og um jafnan aðgang þeirra að þeim

Ríkjandi ástand stuðlar ekki að jöfnum aðgangi að áfrýjun til æðra dómstigs. Það leiðir til þess að málsaðilar hafa ekki jafnan aðgang að endurskoðun á úrlausnum dómstóla. Það er hvorki í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, né 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá kann ríkjandi ástand einnig að stríða gegn 13. gr. sáttmálans sem felur í sér rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, þ.e. að hafa eitthvert að leita þegar brotið er á réttindum manna.

Með frumvarpi þessu er lagt til að ekki þurfi að uppfylla þau skilyrði sem finna má í 1.–4. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991, um áfrýjunarfjárhæð, þegar um er að ræða meiðyrðamál samkvæmt 234.–237. gr. almennra hegningarlaga eða þegar krafist hefur verið ómerkingar ummæla samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Slík mál snerta ávallt mikilvæg réttindi einstaklinga. Annars vegar snúa þau að mannhelgi þeirra á persónu, þ.e. ærunni, og hins vegar að tjáningarfrelsi einstaklinga eða lögaðila.

Sú staðreynd að auðveldara er að áfrýja úrlausnum dómstóla í meiðyrðamálum þegar sýknað er fyrir ærumeiðingar, frekar en þegar sakfellt er, leiðir til ójafnvægis og getur bjagað niðurstöðu dómstóla. Rétturinn til að fá niðurstöðu dómstóla endurskoðaða tryggir réttaröryggi og samræmi í réttarframkvæmd. Það að einungis annar aðili hafi möguleika á áfrýjun, eftir því hver niðurstaðan er, býr til skekkju í dómaframkvæmd sem hefur neikvæð áhrif á tjáningarfrelsið. Það er því afar mikilvægt, forseti, að bregðast við þeirri stöðu og lagfæra þennan ágalla á réttarfarslögum. Það að annar aðili máls hafi ríkari rétt til áfrýjunar stríðir gegn meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði málsaðila og um rétt til réttlátrar málsmeðferðar.

Forseti. Ég tel einnig nauðsynlegt að víkja aðeins að frumvarpi dómsmálaráðherra um bætur vegna ærumeiðinga sem liggur fyrir þessu þingi. Um er að ræða mál sem byggir á þingsályktun frá 138. löggjafarþingi um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar og upplýsingafrelsis, oft kennt við IMMI. Þar fól Alþingi ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi og í því skyni skyldi m.a. gerð úttekt á lagaumhverfinu svo hægt væri að afmarka viðfangsefni og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf. Meðal þeirra lagabreytinga sem komu út úr því var þetta frumvarp ráðherra sem fellir refsingar við ærumeiðingum úr lögum um almenn hegningarlög og færir í sérstakan lagabálk sem kveður á um greiðslu miskabóta þeirra sem með saknæmum og ólögmætum hætti meiða æru annars einstaklings með tjáningu sinni.

Það er auðvitað nauðsynlegt að það frumvarp sem ég mæli hér fyrir muni taka mið af þeim lagabreytingum sem kunni að verða við samþykkt frumvarps hæstv. ráðherra en með frumvarpinu eru 234.–241. gr. felldar úr almennum hegningarlögum. Það vandamál sem frumvarp mitt er sett fram til að leysa stendur þó enn eftir verði frumvarp dómsmálaráðherra samþykkt þar sem ekki eru gerðar breytingar á ákvæðum réttarfarslaga er snúa að áfrýjunarfjárhæð og áfrýjunarheimildum. Það væri því æskilegt, virðulegi forseti, að skoða bæði málin samhliða. Verði frumvarp dómsmálaráðherra samþykkt verður hægt að uppfæra mál mitt þannig að það muni eiga við um hin nýju lög um bætur vegna ærumeiðinga. Það er alveg jafn nauðsynlegt að tryggja jafnræði í hinum nýju lögum eins og í núgildandi hegningarlögum. Jafnvel þó að refsingar verði felldar úr gildi eru fjárhæðirnar sem dómþolum er gert að greiða helsta kvöðin, ekki í sjálfu sér að ummælin hafi verið ómerkt eða einn hafi brotið á æru annars.

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt gefið þegar kemur að tjáningarfrelsi hér á landi og þetta höfum við endurtekið verið að upplifa. Við höfum líka séð að smáir sjálfstæðir fjölmiðlar þurfa að hafa sérstaka sjóði til að verjast kærum um ærumeiðingar. Ef þeir sem kæra fjölmiðla geta endalaust gert það í skjóli þess að geta líka áfrýjað og haldið viðkomandi fjölmiðlum, blaðamönnum eða einstaklingum sem tjá sig í réttarsal í kannski fleiri ár en það sama gildi ekki þegar viðkomandi fjölmiðill tapar málinu er ekki réttlátt, virðulegi forseti. Það er það sem við erum að leggja til að breyta með þessu frumvarpi.