150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

. mál
[16:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og við þekkjum í tengslum við þetta mál var kynnt í síðasta mánuði skýrsla dómsmálaráðherra ásamt fjármála- og efnahagsráðherra um aðdraganda og ástæður þess að Ísland hafnaði á hinum svokallaða gráa lista FATF. Eitt helsta markmið FATF er að stuðla að skilvirkri innleiðingu löggjafar, regluverks og aðgerða til að berjast sérstaklega gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og öðrum tengdum ógnum við stöðugleika alþjóðlega fjármálakerfisins. Þær afsakanir sem eru tíndar til í þessari skýrslu eru fremur ódýrar að mínu mati. Ég ætla ekki að gera hana neitt sérstaklega að umtalsefni hér en vildi þó nefna þetta. Þar er m.a. vísað til þess að hér hafi verið tíð stjórnarskipti sem hljómar svolítið eins og embættismenn í ráðuneytunum sitji auðum höndum ef ekki stendur yfir þeim ráðherra.

Ég vil aðeins víkja að praktískum atriðum í tengslum við lögin sem tóku gildi í sumar. Nú á að breyta ákveðnu ákvæði í þeim og í því sambandi langaði mig að nefna athyglisverðar athugasemdir sem Magnús Óskarsson hæstaréttarlögmaður hefur sett fram og ég kem að á eftir, en í lagatextanum segir að almenningur skuli hafa aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur. Á þessu ári, 6. júlí sl., tóku gildi lög um skráningu raunverulegra eigenda og þetta eru nýjar reglur hér á landi eins og við þekkjum. Hér hafa þó í nokkurn tíma verið í gildi reglur um að í skýrslu stjórnar félaga í ársreikningum skuli upplýsa um tíu stærstu hluthafa í lok reikningsárs og alla hluthafana ef þeir eru færri en tíu og hundraðshluta hlutafjár hvers þeirra í lok ársins.

Nýju lögin ganga mun lengra. Nú er öllum lögaðilum sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða skráðir eru í fyrirtækjaskrá, þar með talið útibúum erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga, gert skylt að tilkynna ríkisskattstjóra um raunverulega eigendur sína. Lögin gilda einnig um svonefnda fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila, en á það reynir líklega minna en hjá öllum þeim fjölda lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá. Um skilgreiningu á því hvað raunverulegir eigendur eru vísa nýju lögin til laganna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar er nokkuð löng skilgreining, en í einföldu máli má segja að hinir raunverulegu eigendur séu einstaklingar sem eiga eða ráða yfir meira en 25% í lögaðila eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra lögaðila eða vafi leikur á um eignarhaldið, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi.

Í upphafsákvæði hinna nýju laga um skráningu raunverulegra eigenda er tekið fram að markmiðið með því að skrá raunverulega eigendur sé að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þó er ljóst að þessar upplýsingar munu einnig nýtast í öðrum tilgangi því að í lagatextanum segir að almenningur skuli hafa aðgang að upplýsingum um raunverulega eigendur. Upplýsingarnar gætu því nýst í ýmsum viðskiptum til að kanna tengsl manna eða t.d. í dómsmálum til að kanna hæfi manna. Einnig opnast þarna aðgangur að miklum upplýsingum fyrir blaðamenn, það er rétt að nefna það.

Samkvæmt nýju lögunum skal tilkynna um raunverulega eigendur við nýskráningu í fyrirtækjaskrá og skráningarskyldum aðilum er skylt að tilkynna ríkisskattstjóra innan tveggja vikna um allar breytingar sem varða skráninguna. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði við lögin skulu aðilar sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá við gildistöku laganna veita upplýsingar um raunverulega eigendur eigi síðar en 1. júní 2020. Þessari dagsetningu stendur nú til að breyta í 1. mars og um það snýst þetta frumvarp. Í lögunum eru heimildir til að leggja á ströng stjórnsýsluviðurlög og eru þau sett þannig fram að erfitt er að leita til dómstóla ef ágreiningur er um viðurlögin. Vegna brota á lögunum er ríkisskattstjóra heimilað að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir sem eru aðfararhæfar og þær geta verið nokkuð háar. Dagsektirnar geta verið allt að 500.000 kr. á dag og stjórnvaldssektirnar 10% af veltu. Þessa fjármuni geta yfirvöld verið búin að sækja með aðför áður en sá sem telur á sér brotið gæti fengið niðurstöðu dómstóla um réttmæti ákvörðunar ríkisskattstjóra. Þar að auki getur ríkisskattstjóri fellt skráningu aðila niður og málshöfðunarfrestur þeirra sem vilja ekki una ákvörðunum ríkisskattstjóra er ákveðinn þrír mánuðir sem verður að teljast fremur stuttur frestur. Því virðist ekki vera raunhæft að leita til dómstóla sem þýðir að ríkisskattstjóri er í raun eftirlitslaus við töku slíkra ákvarðana.

Varðandi það að færa frestinn til 1. mars vil ég að lokum nefna það að það er ólíklegt að mörg fyrirtæki viti af þessum fresti og því væri þörf á að auglýsa hann enn frekar. Ég legg áherslu á það hér vegna þess að vitaskuld eru þetta mjög mikilvæg lög og út á við skipta þau okkur verulegu máli. Eins og við þekkjum hefur verið álitshnekkir fyrir íslensk stjórnvöld og ríkisstjórnina, það verður að segjast eins og er, að við skyldum hafa lent á þessum lista. Það er erfitt að átta sig á því hvers vegna upphaflega var ákveðið að hafa lok frestsins í byrjun sumars á næsta ári. Ég tel að það hefði verið heppilegra, herra forseti, ef þessi frestur færi t.d. saman við ársreikningaskil sem hjá flestum félögum eru í lok septembermánaðar ár hvert, þ.e. átta mánuðum eftir lok reikningsárs samkvæmt 109. gr. laga um ársreikninga. Almanaksárið er reikningsár flestra fyrirtækja og þá gætu stjórnir félaga, endurskoðendur og aðrir sem koma að gerð ársreikninganna gætt að því að þessar upplýsingar um raunverulega eigendur séu sendar inn um leið og ársreikningar.

Það er þetta sem ég vildi koma að í þessari umræðu. Ég held að þetta hefði átt að skoða betur og ég vænti þess að það verði gert vegna þess að ég tel heppilegra að þetta fari saman við ársreikningaskil.