150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[12:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek heils hugar undir með henni, ég er alveg sammála. Ef við hugsum aðeins til baka barst umsögn frá Brynju – hússjóði Öryrkjabandalagsins og rosalega margar fleiri umsagnir, 30 ef ég man rétt. Við náðum ekki að kalla nema hluta af umsagnaraðilum inn en það breytir ekki því að þetta fer í þennan farveg og þá þurfum við að passa okkur á að tryggja aðgengi fyrir fatlaða.

Ég legg líka enn meiri áherslu á brunaþáttinn. Það skiptir gífurlegu máli að brunavarnir séu í lagi, bæði fyrir fatlaða og ófatlaða, og síðan hef ég haft áhyggjur af því að við séum hvorki nógu grimm né nógu skilvirk að setja okkur reglur nú þegar um það hvernig við ætlum að bregðast við sinueldum — og skógareldum þegar þeir koma, ekki ef þeir koma heldur þegar þeir koma. Síðasta sumar var rosalega þurrt og við urðum vör við hvernig sinueldar léku Mýrarnar. Við verðum að hafa þetta á hreinu og við eigum að læra af þeim sem eru í kringum okkur. Nú eigum við bara að fara í skólann hjá Svíum. Í Ameríku kvikna skógareldar aftur og aftur, liggur við á sama svæðinu, og ég skil ekki að allir virðist alltaf verða jafn hissa. Mér finnst skelfileg tilhugsun um að við lendum í svona skrýtnum hlutum.