150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Unu Maríu Óskarsdóttur fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu um bætt uppeldi og betri lýðheilsu. Í fyrsta lagi óskar hv. þingmaður eftir umfjöllun um framtíðarsýn varðandi bætt uppeldi hér á landi og hvernig sú sem hér stendur telji að best sé að haga uppeldi barna og ungmenna.

Við vitum að til þess að vel takist til við uppeldi barna og ungmenna þurfa margir að taka saman höndum. Oft hefur verið sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn og þess vegna þarf samfélagið að styðja bæði við börn og fjölskyldur. Ég gæti sagt ýmsar sögur af minni eigin persónulegu reynslu af uppeldismálum, enda á ég fjóra krakka, en ég efast um að það sé nákvæmlega það sem hv. þingmaður er að spyrja um. Framtíðarsýn okkar í þessum efnum hlýtur að taka mið af því sem hefur verið sýnt fram á með vísindum og rannsóknum að virki best til að styðja við heilbrigði og þroska barna og ungmenna og við höfum nú þegar aðgerðir sem miða að því.

Ef við lítum til þess sem snýr sérstaklega að heilbrigðismálum kemur fram, bæði í lýðheilsustefnu sem hv. þingmaður vísaði hér til og stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum, að mikilvægt er að leggja áherslu á aðstæður og umönnun yngstu barnanna. Rannsóknir benda til þess að meðganga og fyrstu æviárin séu mikilvægari tími en áður var talið og að fyrstu árin hafi verulegt forspárgildi um heilsu og líðan fólks þegar það eldist. Því er nauðsynlegt að styrkja foreldra í foreldrahlutverkinu, sérstaklega þá sem hafa sjálfir búið við erfiðar aðstæður og áföll. Nærgætin umönnun í frumbernsku mótar viðbrögð og viðhorf til verkefna framtíðarinnar. Heilsugæslan er þar í lykilhlutverki með þverfaglegri mæðravernd og ung- og smábarnavernd og fylgir svo börnunum áfram inn á grunnskólaaldur með heilsuvernd skólabarna. Allt er þetta kerfi til fyrirmyndar á heimsvísu.

Í stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum var kveðið á um að settur yrði á fót starfshópur til að setja fram tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þessi hópur skilaði tillögum sínum til mín. Þær ná ekki einungis til heilbrigðisþjónustunnar heldur líka til menntakerfis og félagsþjónustu, jafnvel frekar. Tillögur þessa hóps hafa verið samþykktar af ríkisstjórn og innleiðing þeirra tillagna kallar á samvinnu en samhugur ríkir um þetta verkefni og fellur vel að verkefnum stýrihóps Stjórnarráðsins um málefni barna. Sá hópur var skipaður í janúar á síðasta ári og hefur það hlutverk að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta og móta stefnu Íslands, framtíðarsýn og markmið sem stuðla að farsæld barna. Stýrihópurinn styður við og starfar með þverpólitískri þingmannanefnd um málefni barna, enda er þarna um að ræða málaflokk sem á ekki að hafa í pólitískum skotgröfum. Mikil framfarasveifla er í samhæfingu mála sem lúta að farsæld barna og ungmenna.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að standa vörð um þann mikilvæga árangur sem náðst hefur hérlendis í að draga úr vímuefnaneyslu ungmenna, þar með talið áfengisdrykkju, svo eftir hefur verið tekið á alþjóðavísu. Sá árangur náðist með samstilltu átaki heimila, skóla og heilbrigðisyfirvalda.

Hv. þingmaður spyr síðan hvernig ráðherrann hyggist beita sér fyrir því að uppfyllt verði aðgerð lýðheilsustefnu um uppeldi og færni til framtíðar, námskeið fyrir foreldra. Eins og kemur fram í stefnunni er þekkt að hegðun, líðan og sjálfsmynd barna mótast að miklu leyti af uppeldisaðferðum foreldra. Gagnreynd foreldrafærninámskeið fyrir foreldra hafa í gegnum árin verið haldin víða, t.d. í Reykjavík, á Vesturlandi og í Reykjanesbæ. Árangur af þessum foreldrafærninámskeiðum sem byggja á gagnreyndri þekkingu um árangursríkar uppeldisaðferðir hefur verið metinn í rannsóknum og samantekið hafa rannsóknir sýnt að foreldrar sem hafa setið slík námskeið eru líklegri til að nota meira af æskilegum uppeldisaðferðum og minna af óæskilegum aðferðum eftir þátttöku. Sömuleiðis hefur komið í ljós að foreldrar eru sjálfsöruggari í uppeldinu og treysta sér betur til þess að setja nauðsynleg mörk. Með þetta að leiðarljósi var lagt upp með námskeið fyrir foreldra, uppeldi og færni til framtíðar, en markmið þess verkefnis er að efla jákvæða leiðandi uppeldishætti foreldra og forráðamanna barna sex ára og yngri. Þetta skyldi gert með því að efna til endurmenntunar um uppeldi fyrir fagfólk í mæðra-, ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar og námskeiðahalds fyrir foreldra. Framkvæmd og ábyrgð verkefnisins var sett á herðar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og Þroska- og hegðunarstöð tók að sér að hafa umsjón með verkefninu. Námskeiðið hefur verið og er enn haldið bæði fyrir foreldra og fagfólk í heilbrigðisþjónustunni.

Í samræmi við ákvæði stefnunnar um að auka þekkingu og færni fagfólks innan heilsugæslunnar hafa verið haldin sérstök leiðbeinendanámskeið í öllum heilbrigðisumdæmum. Síðasta námskeiðið í þessu átaki var haldið í maí 2019 og þá höfðu 58 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem sinna ungbarnavernd tekið þátt í námskeiðinu. Þetta er hannað fyrir hjúkrunarfræðinga og annað fagfólk. Almennt hefur verið mjög mikil ánægja þátttakenda með námskeiðið og áhugi á að halda það áfram fyrir foreldra um allt land líka. Það þarf að skoða hvernig best verði farið að því að koma þessum námskeiðum af stað í öllum heilbrigðisumdæmum. Til greina kemur að fela Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu þetta verkefni en hún vinnur að samræmingu verklags og að samhæfingu milli fagfólks á heilsugæslustöðvum, gæðaþróun og framförum í heilsugæslu í samráði við heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar um allt land.