150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[15:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um hið besta mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, skuldbindingar og losunarheimildir. Það stendur ósköp vel á, núna í Covid hafa íbúar í ákveðnum borgum í fyrsta skipti í mörg ár séð bláan himin, íbúar Feneyja sjá fiska synda í sjónum hjá sér í fyrsta skipti í fjölda ára. Ég hef komið þangað og þar sást ekkert nema drulla til botns. Við mengum gífurlega mikið.

Erum við að byrja á réttum enda? Ég spyr hæstv. ráðherra um heimild til að selja mengunarkvóta. Er það ekki eitt af því sem við ættum að byrja að taka á, að af því að við mengum lítið sé hægt að menga meira annars staðar? Frumvarpið er 41 blaðsíða og svo eru reglugerðir og annað. Ég reyndi að lesa mig í gegnum textann og á hverri einustu blaðsíðu stendur ESB, EES og EFTA og stundum yfir alla blaðsíðuna.

Hversu mikið af þessu er frá EES, eru það 98% og 1% frá Íslandi og 1% Noregi?