Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir að þarna séu fjölmiðlar sem hann hafi áhuga á en börnin hans hafi engan áhuga á. Þau munu fá áhuga á þessum fjölmiðlum sem hv. þingmaður nefnir. Kannski eigum við að miða tímamörkin við það þegar sá tími mun renna upp að þau muni fá áhuga á því. Tímamörkin, ég hef ekki mótaðar skoðanir á því en ég tel að það sé hins vegar of stutt að hafa þetta bara til árs í senn. Það á hins vegar ekki endilega vera eitthvað sem er endanlega meitlað í stein hvernig starfseminni er háttað eða úthlutunarreglur, heldur lít ég svo á að það hljóti að þróast eftir því sem reynsla kemst á starfsemina og fólk sem þarna vélar um áttar sig á þeim veikleikum sem koma upp og hvað þurfi að styrkja. Auðvitað verður þetta endurskoðað með kannski fimm ára millibili má ímynda sér en ákveðin festa, ákveðinn fyrirsjáanleiki held ég að sé vanmetinn eiginleiki í íslensku efnahagslífi og svona yfirleitt.

Aðeins varðandi 50 milljónirnar. Það er raunar talað um 400 millj. kr. sem er enn minna þannig að það er nú ekki mikið sem er til skiptanna. Ef við lítum á núverandi fyrirkomulag, að maður geti farið alveg upp í 100 millj. kr., sjáum við bara að hætt er við að þessir fáu stóru sem eru í eigu fjársterkra aðila, held ég að okkur sé óhætt að segja, muni taka til sín of mikið.