152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af orðum hv. þingmanns um þetta tæknilega ætla ég að játa það á mig að vera svo leiðinlegur lögfræðingur að það pirrar mig þegar talað er um að hlutir séu lagatæknilegir. Það er eins og að segja við félagsvísindamanneskju: Ó, þetta er nú bara aðferðafræði. Eða að segja við verkfræðing: Er þetta ekki bara burðarþol? Eða hvaða orð sem þeir nú nota. Þetta eru leikreglur fræðanna um hvernig hlutirnir eiga að virka og þær eru settar í ákveðnum tilgangi og með ákveðin markmið. Þessi tækni er kannski ekkert alltaf sérstaklega skemmtileg en hún þjónar tilgangi. Það er bara dálítið atriði í þessu að hugsa lögin sem regluverk í þágu okkar allra. Auðvitað er alltaf ákveðið hagsmunamat hvaða hagsmunir verða ofan á eða hvert jafnvægið er þar á milli. Þetta samtal um að keyra mál út af borðinu vegna þess að það sé lagatæknilegt er líka oft felubúningur fyrir það að taka ákveðin mál út af dagskrá. Þess vegna þarf líka að rýna reglurnar eins og hv. þingmaður gerir með því að skoða t.d.: Hefur það áhrif á ólíka hópa í samfélaginu hvaða vikudag er kosið, klukkan hvað er kosið? Getur það verið að svona hlutlausar reglur birtist ólíkum hópum í samfélaginu með mismunandi hætti? Getur það verið t.d. að munur sé á því eftir aldri eða jafnvel kynjum hvort það er heppilegt að kjósa á laugardegi eða virkum degi? Það er ekki tilviljun, held ég, að Bandaríkjamenn komust að þeirri niðurstöðu að það færi vel á því að kjósa á þriðjudögum og hafa ævintýralegar langar raðir á kjörstöðum þannig að hinn vinnandi maður eigi stórkostlega erfitt með að kjósa. (Forseti hringir.) Hlutlaus og tæknileg regla, hún þjónar tilgangi.