152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að taka fram að ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða að breyta kosningalögunum þannig að flokkar fái það sem þeim ber. Mér finnst gott að hv. þm. Sigmar Guðmundsson segist skilja vandamálið við algjöra jöfnun atkvæða þvert á kjördæmi þótt hann sé ekki sammála því. Ég er sjálfur á því að við eigum auðvitað að stefna að því að þetta verði sem jafnast. En mig langar að velta upp hvort það geti verið samt að það þurfi ýmislegt annað að koma til líka. Best væri auðvitað að við værum eins og Þýskaland, sem er auðvitað mjög margar borgir, frekar litlar. Berlín er sú eina sem kemst inn á topp 20, held ég, en ef við tökum topp 100 eru rosalega margar þýskar borgir af því að þær eru gjarnan 600.000 til 1 milljón manns. Þar er þetta ekki vandamál með öðrum orðum. Við hérna inni erum náttúrlega þingmenn alls landsins, ekki síður við af landsbyggðinni og þingmenn höfuðborgarsvæðisins, og ég held að við höfum alveg sýnt það. En gallinn við kerfið okkar er að við erum bara komin með svo mikinn ójöfnuð í þróun. Hér kom hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson áðan og nefndi frumvarp Héðins Valdimarssonar frá 1927. Þá er rétt að minna á að þá voru höfuðborgarbúar 29% af landsmönnum. Árið 2020 eru þeir 65%. Ég kem inn á það á eftir, en ég spyr bara hv. þingmann hvort hann telji ekki að það þurfi þá að gera annað líka, styrkja þjónustu úti á landi til að vega upp á móti þessari íbúaþróun.