Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kannski er þetta með einhverjum hætti áframhald á fyrri spurningu hjá hv. þingmanni og nú skil ég hann kannski betur. Ég held að það sé ekki endalaust hægt að bæta við inn í óbreytt kerfi ef það er svo gallað að það sé kostnaðarsamara heldur en það þarf að vera. Ég held að við þurfum að einbeita okkur meira að snemmtækum úrræðum og grípa fyrr inn í þannig að við spörum á hinum endanum. Hvernig á að leysa það? Það held ég að verði gert best með víðtæku samráði allra flokka. Ef ég man rétt eru útgjöld til geðheilbrigðismála í dag um 13,8 milljarðar kr., samkvæmt skýrslunni, en aurar sem Tryggingastofnun er að borga út úr kerfinu vegna slysa og örorkulífeyris eru 26,6 þannig að það segir sig sjálft að hver króna sem sparast í seinni upphæðinni með því að leggja örlítið til á fyrri stigum hlýtur að skila okkur töluverðum árangri. Þetta eru ekki neitt meiri vísindi heldur en dæmið sem ég nefndi í ræðu minni um hvernig byggingarkostnaður er reiknaður. En það virðist einhvern veginn vera auðveldara af því að það snýst um dauða hluti og ískalt mat. En hér erum við að ræða miklu alvarlegri hluti og mál sem snerta svo ofboðslega mikið líf einstaklinga og fjölskyldna þeirra að við hljótum að þurfa að kafa mjög djúpt ofan í þetta, kalla til alla flokka á þingi, alla sérfræðinga, fólk í mismunandi samtökum, vegna þess að við getum ekki haldið svona áfram.