Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Til að útskýra það aðeins nánar þá er ég ekki að gera efnislega gagnrýni á frumvarpið, þetta er versta frumvarpið sem ég hef séð hvað varðar gagnsæi og nákvæmni sem slíka. Svo er alltaf hægt að vera ósammála pólitískt um efnið. Augljóslega hef ég efnislega gagnrýni líka en þetta er ekkert endilega versta eða besta frumvarpið efnislega heldur er þetta versta frumvarpið hvað gagnsæi og nákvæmni varðar, bara praktískt séð. Vandinn sem við glímum við í fjárhag heilbrigðiskerfisins er að við höfum bara ekkert þessar upplýsingar á takteinum. Það er nýbúið að setja stjórn yfir Landspítalann sem á að hjálpa okkur til við greiningar og við fáum alls konar tillögur héðan og þaðan og ég tók þann pól í hæðina að setja ekki út einhverja milljarða hingað og þangað til þess að komast að einhverjum tölum í heilbrigðiskerfinu eða nýjum upphæðum fyrir lífeyri aldraðra eða eitthvað því um líkt í þetta skiptið. Það er ekki á mína ábyrgð að gera það. Ég geri hérna nokkrar tillögur þar sem mér finnst vera augljósir gallar. Þeir eru fleiri, en þetta eru dæmi um augljósa galla sem ég sé og vantar að bæta úr í fjárlögum. Vandinn sérstaklega við það að gera breytingartillögur núna er einmitt hversu ónákvæmt fjárlagafrumvarpið var við framlagningu. Það var gjörsamlega ómögulegt að sjá og greina út frá réttri stöðu hvað vantaði til og frá í hinum og þessum málaflokkum. Þannig að ég ætla bara að sleppa því í þetta skipti og vísa í útskýringar mínar á breytingartillögunum þess fyrir utan.