Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


107. löggjafarþing 1984–85.
Nr. 24/107.

Þskj. 1011  —  496. mál.


Þingsályktun

um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum.


    Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heims, ekki síst kjarnorkuveldin, geri með sér samninga um gagnkvæma alhliða afvopnun þar sem framkvæmd verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti.
    Enn fremur telur Alþingi mikilvægt að verulegur hluti þess gífurlega fjármagns, sem nú rennur til herbúnaðar, verði veittur til þess að hjálpa fátækum ríkjum heims þar sem tugir milljóna manna deyja árlega úr hungri og sjúkdómum.
    Alþingi fagnar hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins.
    Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni; jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna. Þessu banni og samningum um niðurskurð kjarnorkuvopna verði framfylgt á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti enda verði það gert í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun.
    Leita verður allra leiða til þess að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.
    Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu. Því felur Alþingi utanríkismálanefnd að kanna í samráði við utanríkisráðherra hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og skili nefndin um það áliti til Alþingis fyrir 15. nóv. 1985.
    Jafnframt ályktar Alþingi að fela öryggismálanefnd, í samráði við utanríkisráðherra, að taka saman skýrslu um þær hugmyndir sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, einkum þær sem máli skipta fyrir Ísland með hliðsjón af legu landsins og aðild þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi . Á grundvelli slíkrar skýrslu verði síðan leitað samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um frekari sameiginlega stefnumörkun í þessum málum.

Samþykkt á Alþingi 23. maí 1985.