Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


108. löggjafarþing 1985–86.
Nr. 2/108.

Þskj. 372  —  193. mál.


Þingsályktun

um staðfestingu samkomulags um stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið.


    Alþingi ályktar að staðfesta fyrir Íslands hönd samkomulag, sem undirritað var í Nuuk 24. september 1985, um stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið. Samkomulagið er prentað sem fylgiskjal með ályktun þessari.


Fylgiskjal.


SAMKOMULAG UM VESTNORRÆNA ÞINGMANNARÁÐIÐ
Inngangur.

Í ljósi þess

    að Færeyjar, Grænland og Ísland, vestnorræna svæðið, eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í varðveislu og skipulegri hagnýtingu endurnýjanlegra og óendurnýjanlegra auðlinda landa sinna,

    að þessar auðlindir hafa úrslitaþýðingu fyrir efnahag landanna, menningu og framtíðarþróun,

    að varðveisla og skipuleg hagnýting endurnýjanlegra auðlinda landanna hefur einnig þýðingu fyrir matvælaöflun annarra heimshluta,

    að löndunum er ljós nauðsyn þess að efla og þróa samstarf á sviði menningar-, viðskipta- og samgöngumála, auk annars samstarfs, ásamt því

    að löndin leggja með eflingu samstarfs síns sitt af mörkum til aukins skilnings þjóða í milli og friðsamlegrar sambúðar í heiminum:

    komumst við, kjörnir fulltrúar Lögþings Færeyinga, Landsþings Grænlendinga og Alþingis Íslendinga, á grundvelli ályktana Lögþings Færeyinga frá 27. janúar 1981, Landsþings Grænlendinga frá 23. maí 1985 og Alþingis Íslendinga frá 19. maí 1981, á fundi í Nuuk 24. september 1985, að þeirri niðurstöðu að nauðsyn væri á formlegri stofnskrá er mótaði reglur fyrir samstarfið.

    Við föllumst á og viðurkennum hér með þá stofnskrá sem hér fer á eftir, lið fyrir lið:

I.

     1.      Til að annast samstarf þjóðþinga Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga er sett á stofn Vestnorræna þingmannaráðið, hér eftir nefnt ráðið.
     2.      Ráðið hefur einungis tillögurétt til landanna þriggja, eins eða fleiri.

II.

     1.      Lögþing Færeyinga, Landsþing Grænlendinga og Alþingi Íslendinga kjósa þann fjölda fulltrúa og varamanna úr hópi þingmanna sem hvert þing ákveður. Sé umboð þingmanna útrunnið vegna kosninga og hafi nýtt umboð ekki verið viðurkennt fyrir fund ráðsins geta þeir flokkar, sem fulltrúa eiga á komandi þingi, valið til bráðabirgða fulltrúa og varamenn.
                  Þjóðþingið eða flokkarnir, þegar það á við, tilkynna formanni ráðsins um val fulltrúa og varamanna.
     2.      Ráðið er ályktunarhæft ef meiri hluti fulltrúa hvers hinna þriggja landa er viðstaddur.
     3.      Formaður ráðsins er kjörinn til skiptis úr hópi fulltrúa hvers lands, til eins árs í senn. Samtímis er kjörinn fyrsti og annar varaformaður. Formaður og varaformenn skipa forsætisnefnd ráðsins.
     4.      Formaður boðar til árlegs fundar á þeim tíma og þeim stað sem ráðið ákveður. Meiri hluti fulltrúa getur boðað til aukafundar fyrir milligöngu formanns. Formaður ákveður þá fundarstað.

III.

     1.      Á fundi ráðsins má taka til umfjöllunar hvert það málefni sem þýðingu hefur fyrir samstarfið.
     2.      Þegar ráðið sendir frá sér tillögu er gerð grein fyrir því hvaða fylgi tillagan hefur hlotið í ráðinu.

IV.

    Formaður ráðsins sér ráðinu fyrir ritara.

V.

    Hvert land ber kostnað af þátttöku fulltrúa sinna í samstarfinu. Kostnað af starfi ritara ber land formanns ráðsins.

VI.

    Samin verði fundarsköp þar sem nánar verði kveðið á um framkvæmd stofnskrárinnar.
Fundarsköpin skulu lögð fyrir fund ráðsins til samþykktar.

VII.

    Stofnskrá þessi, sem samin er á dönsku, færeysku, grænlensku og íslensku, jafngild á öllum málunum, öðlast gildi er hún hefur hlotið samþykki Lögþings Færeyinga, Landsþings Grænlendinga og Alþingis Íslendinga.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1985.