Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Mánudaginn 10. október 1988

     Aldursforseti (Stefán Valgeirsson):
    Ég býð hv. alþingismenn og starfsfólk Alþingis velkomin til starfa með þeirri ósk og von að það þinghald sem nú er að hefjast verði landi og þjóð til heilla og að störf þess í vetur verði til þess að auka réttlæti og minnka aðstöðumun í okkar þjóðfélagi.
    Borist hefur svohljóðandi bréf, dags. 17. maí 1988:
    ,,Með bréfi þessu segi ég af mér þingmennsku.
Virðingarfyllst,

Sverrir Hermannsson,

4. þm. Austurl.

Til forseta sameinaðs Alþingis,
hr. Þorvaldar Garðars Kristjánssonar.``
    Af þessu leiðir að Kristinn Pétursson framkvæmdastjóri tekur nú sæti Sverris Hermannssonar hér á Alþingi og verður 5. þm. Austurl. en hv. þm. Egill Jónsson verður 4. þm. Austurl.
    Ég býð Kristin Pétursson velkominn til starfa.

    Þá hefur borist hér annað bréf, dags. 10. okt. 1988:
    ,,Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að 1. varamaður Alþfl. í Reykv., Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.
Jón Baldvin Hannibalsson,

15. þm. Reykv.``

    Lára V. Júlíusdóttir hefur áður tekið sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili og býð ég hana velkomna til starfa.

    Hér er enn eitt bréf, dags. 10. okt. 1988:
    ,,Þar sem ég vegna sérstakra anna get ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að 1. varamaður Samtaka um kvennalista í Reykjavík, Guðrún J. Halldórsdóttir forstöðumaður, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.
Þórhildur Þorleifsdóttir,

18. þm. Reykv.``

    Guðrún J. Halldórsdóttir hefur einnig tekið sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili og býð ég hana einnig velkomna til starfa.

    Nú verður fundi frestað til morguns og hefst hann kl. 2 eftir hádegi.