Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Á dagskrá þessarar hv. deildar eru fjögur mál sem öll eru til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem öll varða efnahagsstjórnun á undanförnum mánuðum. Því má segja að aðgerðir í efnahagsmálum séu á þessum tíma varðaðar með þeim bráðabirgðalögum sem sett hafa verið og eru hér til staðfestingar.
    Ég fjalla í þetta sinn um fyrsta málið, þær síðustu efnahagsráðstafanir sem núv. ríkisstjórn hefur hrint í framkvæmd, en til að skýra mál mitt betur kemst ég ekki hjá því að fjalla um hin málin í upphafi minnar ræðu.
    Síðasta ríkisstjórn ákvað skömmu eftir að hún tók við að bíða með efnahagsaðgerðir þar til kjarasamningar hefðu náðst. Kjarasamningar náðust að hluta í febrúarmánuði. Þá var með samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins gengið fellt um 6%. Sú gengisfelling kom að skammvinnum notum, rann fljótlega út í sandinn eins og reyndar hefur sýnt sig þegar sú leið hefur verið farin og ekki gripið til nauðsynlegra hliðarráðstafana til að draga áhrif slíkrar gengisfellingar út úr víxlverkun verðlags, launa, fjármagns og verðbólgunnar almennt.
    Því var svo komið þegar heildarsamningar náðust að mestu leyti í maímánuði að staða útflutningsatvinnuveganna var afar erfið. Þá var gripið til þess ráðs að fella gengi á ný um 10% og jafnframt veitt heimild til frekari gengisfellingar upp á 3%. Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt allítarlegar aðgerðir í efnahagsmálum sem birtar voru 20. maí sl. Þær aðgerðir gerðu m.a. ráð fyrir að ráðast gegn einum mestu erfiðleikum í íslensku efnahagslífi upp á síðkastið, háum vöxtum og miklum fjármagnskostnaði. Þær gerðu ráð fyrir skuldbreytingu í þágu atvinnuveganna. Þær gerðu ráð fyrir aðgerðum til að milda þær aðgerðir sem bitna helst á þeim sem lægri launin hafa og þeim var fylgt eftir með bráðabirgðalögum um aðgerðir í efnahagsmálum sem gefin voru út sama dag, 20. maí sl.
    Í þeim lögum er m.a. ákveðið að kjarasamningar sem kenndir hafa verið við Akureyri skyldu gilda fyrir landið allt og til 10. apríl. Sömuleiðis var ákveðið að launaliður bænda í verðlagsgrundvelli hækkaði að sama skapi á þessum tíma. Einnig var í bráðabirgðalögunum, og er, ákvæði sem gerði ráð fyrir að felld yrði niður verðtrygging á lánaskuldbindingum til skemmri tíma en tveggja ára. Því ákvæði var að vísu breytt lítillega með öðru máli sem er hér á dagskránni en það er breyting á bráðabirgðalögum þeim sem ég nefndi áðan þar sem heimilað er, þrátt fyrir ákvæði fyrri bráðabirgðalaga, að taka við innstæðum og verðtryggja samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands.
    Eins og fyrr reyndist umrædd gengisfelling og aðrar aðgerðir endast skammt og blöstu við enn meiri erfiðleikar en áður höfðu verið hjá útflutningsatvinnuvegunum um mitt sumar. Að hluta hygg ég að menn geti verið sammála um að það sé vegna þess að gengisfelling fer ótrúlega hratt í

gegnum efnahagslíf þjóðar sem er með mikla verðtryggingu fjármagns eins og við Íslendingar, en að hluta varð þessi aðgerð áhrifaminni vegna verðfalls sem varð á íslenskum sjávarafurðum erlendis, einkum í Bandaríkjunum.
    Í lok júlí var því ákveðið að leita nýrra ráða í þessum efnahagsvanda og skipaði hæstv. fyrrv. forsrh. þá nefnd fulltrúa úr atvinnulífinu. Sú nefnd lagðist gegn því að fara hina hefðbundnu uppfærslu- eða gengisfellingarleið og lagði til niðurfærslu, þ.e. niðurfærslu kostnaðar. Ég ætla ekki að rekja umræður sem urðu um þær tillögur. Um þær náðist ekki samstaða, ég vil leyfa mér að segja því miður.
    Síðasta ríkisstjórn keypti nokkurn frest með frv. sem enn er hér á dagskrá sem 4. liður dagskrárinnar og nefnist Frestun á hækkun launa og búvöruverðs. Samkvæmt þeim var hækkun launa og búvöruverðs frestað um einn mánuð og verðstöðvun jafnframt sett á þann tíma samkvæmt ákvæðum í verðlagslögum.
    Þegar núv. ríkisstjórn tók við 28. sept. sl. var ástand atvinnulífsins orðið afar erfitt og ég hygg raunar miklu erfiðara en menn gerðu sér grein fyrir þá. Ég held að ekki sé ofsagt að íslenskt atvinnulíf hafi verið komið nær bjargbrúninni en áður. Þetta hefur komið glöggt í ljós síðan með þeim fjölmörgu gjaldþrotum sem fréttir berast af nánast daglega og þótt sú þróun væri hafin fyrir stjórnarmyndun hefur fjöldi gjaldþrota mjög aukist á síðustu dögum.
    Ég hygg einnig að öllum hv. þm. muni vera ljósir þeir miklu erfiðleikar sem útflutningsgreinar eiga við að stríða. Víða um landið hafa slík fyrirtæki verið að stöðvast eða legið við stöðvun hjá þeim og er það oftar þá að viðskiptabankar hafa haldið slíkri framleiðslu gangandi þrátt fyrir mikla skuldasöfnun en að um arðbæran eða skynsamlegan rekstur hafi verið að ræða.
    Ríkisstjórnin ákvað því að grípa til allvíðtækra almennra aðgerða til þess að koma í veg fyrir það hrun útflutningsatvinnuveganna sem við blasti. Vissulega má færa rök að því að slíkar aðgerðir hefðu þurft að ná til fleiri greina eins og t.d. margra þátta íslensks iðnaðar og til verslunar, en til þess er ekki svigrúm eins og staða þjóðarbúsins er nú, enda má vissulega halda því fram að þjóðarbúið byggi fremur á útflutningsframleiðslunni en á öðrum
greinum atvinnulífsins þótt mikilvægar séu og að líklegt sé að aðstoðar við útflutningsgreinarnar muni fljótlega gæta í öðrum þáttum atvinnulífsins.
    Ríkisstjórnin gaf því út, strax við myndun ríkisstjórnarinnar, bráðabirgðalög sem hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem birtar voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir og þurfa lagasetningar.
    Í fáum orðum sagt fólust þessar aðgerðir í því, í fyrsta lagi, að notuð var heimild sem fyrri ríkisstjórn hafði gefið og gengið fellt um 3%. Það var gert í því skyni að draga sem mest úr sérhæfum aðgerðum fyrir einstakar atvinnugreinar. Þetta er almenn aðgerð sem að sjálfsögðu bætir afkomu útflutningsatvinnuveganna í heild og sömuleiðis samkeppnisgreinanna í landinu.

    Af öðrum mikilvægum almennum aðgerðum er fyrst og fremst rétt að nefna viðleitni til þess að stöðva kostnaðarhækkanir í þjóðfélaginu fram til 15. febr. nk. Þessi aðgerð nær til stöðvunar á launahækkunum og eru með henni afnumdar þær hækkanir sem um hafði verið samið. Hún nær til víðtækrar verðstöðvunar skv. 7. gr. verðlagslaga og eru eingöngu heimilaðar hækkanir sem stafa af erlendum verðhækkunum. Þetta nær til búvöruverðs, til fiskverðs og til gjaldskráa opinberra fyrirtækja. Það nær til húsaleigu, svo að drepið sé á það helsta.
    Önnur almenn aðgerð sem er afar mikilvæg í þessu sambandi er viðleitni til þess að draga úr þeim gífurlega fjármagnskostnaði sem verið hefur í þjóðfélaginu undanfarin missiri. Þótt deilt sé um vexti, hvort þeir séu óeðlilega háir eða ekki, hygg ég að allir sem atvinnufyrirtæki reka muni vera sammála um það að hinn gífurlegi fjármagnskostnaður er þeim í raun ofviða. Vitanlega er það fleira sem þessu ræður en vaxtahæðin ein. Þarna ræður einnig sú staðreynd að eigið fé í íslenskum atvinnuvegum er afar lítið og lánsfjármagn því meira.
    Í lögum um Seðlabanka Íslands, 9. gr., er heimild veitt til þess að hafa afskipti af vöxtum og vaxtamun ef meiri verður en í okkar helstu viðskiptalöndum. Ríkisstjórnin ákvað að undangengnum viðræðum Seðlabankans við viðskiptabankana að heimila að nota 9. gr. seðlabankalaganna ef ekki tækist með slíkum viðræðum að ná fram lækkun vaxta. Ríkisstjórnin hefur jafnframt ákveðið að losa beri íslenskt efnahagslíf úr víxlverkun verðlags, launa, gengis og fjármagnskostnaðar og er það í raun í samræmi við samþykkt fyrri ríkisstjórnar frá 20. maí sl. þar sem þetta er fram tekið í upphafsgrein þeirrar yfirlýsingar sem þá var gefin út. Mun það verða gert með því, m.a., að fella niður lánskjaravísitölu þegar jafnvægi er náð í íslensku efnahagslífi. En til þess að koma strax í veg fyrir misgengi launa og fjármagnskostnaðar var jafnframt ákveðið að breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar þannig að vægi launa yrði meira en er í lánskjaravísitölunni nú. Í lánskjaravísitölunni nú vegur framfærsluvísitala 2 / 3 í grundvelli en byggingarvísitala 1 / 3 . Að því er hins vegar stefnt að laun hafi 50% vægi í nýjum lánskjaragrundvelli, en framfærsluvísitala verði 1 / 4 og byggingarvísitala 1 / 4 .
    Breyting á grundvelli lánskjaravísitölu hefur vissulega verið umdeild. Þetta var athugað allítarlega á árunum 1983--1984 og þá treystu menn sér ekki til þess að breyta grundvelli lánskjaravísitölu þeirra lána sem þegar eru tekin og byggð á slíkum grundvelli. Í áliti svonefndrar lánskjaravísitölunefndar sem fyrri ríkisstjórn skipaði og skilaði áliti í júlímánuði er hins vegar komist að annarri niðurstöðu. Nefndin telur að heimilt sé að breyta grundvelli lánskjaravísitölu með einfaldri auglýsingu frá Seðlabanka Íslands eins og grundvöllur sá sem nú er byggt á er ákveðinn.
    Í þessu máli þarf að fara af töluverðri varúð að sjálfsögðu til þess að ekki skapist mikill órói á lánamarkaði. Ríkisstjórnin hefur leitað álits Seðlabanka Íslands á þessari breytingu og er beðið eftir þeirri

álitsgerð.
    Ljóst er að slík breyting á grundvelli lánskjaravísitölu mun nánast koma í veg fyrir misgengi launa og fjármagnskostnaðar á næstu mánuðum og þýðir að sjálfsögðu verulega lækkun á fjármagnskostnaði fyrir útflutningsfyrirtækin sem munu búa við óbreytt gengi á næstu mánuðum.
    Ég vil nota tækifærið og lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að ekki sé fært að búa við vísitölutengingu fjármagns ef önnur vísitölutenging og þá sérstaklega vísitölutenging launa er ekki leyfð og það hygg ég að hafi verið niðurstaða flestra landa sem reyndar hafa flest hver afnumið slíka vísitölutengingu. Oftast er nefnt dæmið um Finnland 1967 þar sem hvort tveggja var á sama tíma afnumið, vísitölutenging launa og vísitölutenging fjármagns.
    Þrátt fyrir þessar almennu aðgerðir, sem vissulega styrkja mjög grundvöll útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisgreinanna í landinu, er ljóst að sérstaklega frysting sjávarafurða hefur staðið mjög höllum fæti. Að mati Þjóðhagsstofnunar var halli á botnfiskveiðum og vinnslu í ágúst og byrjun
september sl. sem nam samtals 6%. Talið var að frystingin væri rekin með halla sem næmi 8%. Hins vegar var talinn smávegis hagnaður af söltun eða upp á 2% og af mjölvinnslu upp á 6%, en halli á rækjuvinnslu upp á 3% og útgerð 4%. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þetta mat sé frekar vanmat en ofmat og byggi ég þá skoðun mína á því að forustumenn fiskvinnslufyrirtækja hafa að því er mér sýnist æðigóð rök fyrir því að ekki sé tekið nægilegt tillit til fjármagnskostnaðar. Í mati Þjóðhagsstofnunar er reyndar viðurkennt að vanskilavextir eru ekki meðtaldir og það liggur heldur ekki fyrir gott mat á eiginfjárstöðu fyrirtækja eða m.ö.o. á því heildarlánsfé sem fyrirtækin hafa í sínum rekstri.
    Ríkisstjórnin ákvað því að flytja sérstaklega fjármagn til frystingar á bolfisk og hörpudisk. Nemur sú upphæð samtals 800 millj. kr. og er um það bil 5% hækkun á útflutningsverði til þessara greina.
    Af öðrum iðngreinum hefur verið talið að ullariðnaðurinn standi hvað lakast. Þar hafa orðið stöðvanir og við blasa meiri erfiðleikar. Því var ákveðið að auka við niðurgreiðslu á ull til vinnslu til útflutnings um 40 millj. kr.
    Þrátt fyrir þessar aðgerðir er ljóst að útflutningsiðnaðurinn fær ekki staðið undir þeim miklu vanskilum sem á hann hafa fallið á síðustu missirum. Þjóðhagsstofnun telur að með þessum aðgerðum megi ætla að frystingin sé rekin með lítils háttar hagnaði, e.t.v. 1%, en í heild muni botnfiskveiðar og vinnsla enn vera rekin með halla og gætir þar fyrst og fremst halla útgerðarinnar sem ekki er leyst úr með þeim aðgerðum sem ég hef nú rakið. Ríkisstjórnin taldi því óhjákvæmilegt að létt yrði skuldabyrðum af útflutningsgreinunum og ákvað að stofna Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina. Til þess sjóðs munu renna samtals 2 milljarðar í reiðufé. Af því eru 300 millj. í tvö ár af framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er byggt á þeim

rökum að Atvinnutryggingarsjóði er ætlað að afstýra miklu atvinnuleysi sem við blasir í íslensku efnahagslífi ef ekki er gripið í taumana. Sömuleiðis mun ríkissjóður leggja þeim sjóði til 200 millj. kr. árlega af sínu fé sem að sjálfsögðu verður þá að afla með sköttum og að því er stefnt.
    Til viðbótar er gert ráð fyrir því að sjóðurinn geti tekið að láni um 1 milljarð með ábyrgð ríkissjóðs eða Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Jafnframt er sjóðnum heimilað að skuldbreyta 5 milljörðum kr. af útistandandi skuldum útflutningsgreinanna.
    Eins og ég sagði áðan eru þau bráðabirgðalög sem ég mæli nú fyrir sett til þess að framkvæma þau ákvæði yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem lög þarf til. Ég ætla nú, með leyfi forseta, að fara yfir einstakar greinar frumvarpsins og skýra þær um leið.
    Í 1. gr. frv., sem er undir I. kafla sem nefnist Aðgerðir í atvinnumálum, er lögbundið að Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins er heimilað að taka 800 millj. kr. lán og er sjóðnum þannig gert kleift að greiða verðbætur ofan á freðfisk og hörpudisk eins og ég hef áður rakið. Jafnframt er sjóðsstjórn heimilað að breyta ákvörðun um viðmiðunarverð fyrir þessar afurðir frá 1. júní sl. --- eða m.ö.o.: þessi 5% uppbót er afturvirk til 1. júlí. 750 millj. kr. af láninu ganga til freðfisksreikningsins í Verðjöfnunarsjóði. Stjórn sjóðsins hefur þegar nýtt heimild bráðabirgðalaganna og breytt viðmiðunarverðinu þannig að 5% er borgað ofan á cif-verð framleiðslu frá 1. júní sl. Eru útgreiðslur þessar þegar hafnar. Er við það miðað að útgreiðsla geti haldið áfram fram í maí á næsta ári.
    Freðfiskreikningur frystideildar er nærfellt tómur, en verðfall á freðfiski á undanförnum mánuðum hefði eftir almennum reglum sjóðsins gefið tilefni til allt að 5% útborgunar ofan á cif-verð ef innistæður hefðu verið fyrir hendi. Lögin gera því ekki annað varðandi freðfiskinn en gera sjóðnum með lántöku kleift að inna af hendi þær verðjöfnunargreiðslur sem leitt hefðu af almennum reglum laganna um sjóðinn.
    Mikið verðfall varð á hörpudiski á sl. ári. Hörpudisksreikningur Verðjöfnunarsjóðs greiddi verulegar verðbætur á árinu 1987, en tæmdist við það þannig að ekkert fé var eftir til greiðslu verðbóta í ár enda þótt markaðsverð hafi haldist áfram mjög lágt. Því var ákveðið að verja 50 millj. kr. af umræddu láni til að greiða verðbætur á hörpudisksframleiðsluna frá 1. júní sl. eins og með freðfiskinn.
    Lán það sem hér um ræðir tekur frystideild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, en það sem ekki fæst endurgreitt af tekjum deildarinnar á þremur árum fellur á ríkissjóð. Janframt ber fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Þegar hefur verið gengið frá samningi við Seðlabankann um þetta fjármagn. Yfirgnæfandi líkur eru á að endurgreiðsla lánsins falli á ríkissjóð.
    Í 2. gr. er fjallað um verðbætur á rækju og þar háttar töluvert öðruvísi til en í frystideild því að í reikningi fyrir rækjuafurðir í frystideild Verðjöfnunarsjóðs eru allverulegar innistæður, líklega 480 millj. kr., og er

það andstætt því sem gildir um reikning freðfisks og hörpudisks þar sem nánast engin innistæða er. Fyrir gildistöku bráðabirgðalaganna voru greiddar 4% verðbætur ofan á cif-verð skelflettrar rækju samkvæmt almennum verðreglum Verðjöfnunarsjóðs. Með 2. gr. er sjóðnum gert að miða viðmiðunarverð við meðalverð tveggja síðustu ára í stað þriggja vegna framleiðslu á tímabilinu 1. júní 1988 til 31. maí 1989. Þar sem verð á skelflettri rækju var mjög hátt á árunum 1986 og 1987 lyftir þetta viðmiðunarverðinu og eykur útborgun. Hækkar útborgunarhlutfallið því úr 4% í 8--11% við bráðabirgðalögin og má ætla að um það bil 250 millj. kr. verði greiddar úr sjóðnum vegna framleiðslu frá 1. júní sl. til jafnlengdar á næsta ári.
    Augljós er munur á 1. og 2. gr. varðandi sjóðinn. Með 1. gr. er heimiluð lántaka til handa tómum reikningum fyrir freðfisk og hörpudisk til að framkvæma verðjöfnun sem að öðru leyti fellur innan almenns ramma laganna um Verðjöfnunarsjóð, en með 8. gr. er reglum um viðmiðunarverð breytt þannig að útborgun úr reikningi þar sem innistæða er fyrir getur orðið hærri en orðið hefði ef almennum reglum hefði verið fylgt óbreyttum.
    3., 4., 5., 6., 7., 8. og 9. gr. fjalla allar um Atvinnutryggingarsjóð sem ég hef lauslega nefnt áður. Fyrir sjóðinn hefur verið sett reglugerð og var hún gefin út sl. föstudag. Sjóðnum hefur einnig verið skipuð stjórn og þykir mér rétt að rekja, með leyfi forseta, ákvæði reglugerðarinnar sem byggir að sjálfsögðu á þeim greinum sem ég hef nefnt.
    Í 1. gr. er fram tekið að hlutverk Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina er að veita lán til endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar hjá fyrirtækjum er framleiða til útflutnings. Jafnframt skal sjóðurinn hafa forgöngu um að breyta lausaskuldum fyrirtækja í útflutningsgreinum í föst lán til langs tíma.
    Í 2. gr. er fram tekið að fyrirtæki komi því aðeins til álita við lánveitingu eða skuldbreytingu samkvæmt reglugerð þessari að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra að loknum skipulagsbreytingum á fjárhag þeirra og rekstri. Þetta er að sjálfsögðu afar athyglisverð og mikilvæg grein og má segja að með þessari grein er sá grundvöllur lagður sem sjóðnum ber að starfa eftir. Í mörgum tilfellum mun vera afar erfitt um veð hjá þeim fyrirtækjum sem aðstoð þurfa að fá og er því mat á rekstri fyrirtækjanna að loknum þessum aðgerðum ekki síst lagt til grundvallar.
    Í 3. gr. er fram tekið að forsrh. skipar stjórn Atvinnutryggingarsjóðs og veitir henni lausn. Fjmrh., iðnrh., sjútvrh. og viðskrh. tilnefna hver um sig einn stjórnarmann, en einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður sjóðsstjórnar. Forsrh. skipar varamenn í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs. Skulu þeir tilnefndir á sama hátt og aðalmenn. Forsrh. ákveður þóknun sjóðsstjórnar. Þessar tilnefningar hafa borist og hefur stjórnin verið skipuð eins og tilkynnt hefur verið og birst í fjölmiðlum.
    4. gr. kveður á um það að Byggðastofnun hefur á

hendi rekstur og reikningshald Atvinnutryggingarsjóðs í umboði og undir eftirliti sjóðsstjórnar. Endurgreiða skal Byggðastofnun kostnað af rekstrinum eftir nánara samkomulagi milli Byggðastofnunar og stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs. Talið var eðlilegast að sjóðurinn yrði til húsa hjá Byggðastofnun og nyti starfskrafta þeirrar stofnunar því að þar munu liggja fyrir langítarlegastar upplýsingar um stöðu atvinnufyrirtækjanna í landinu. Á það að auðvelda mjög starfsemi sjóðsins.
    Í 6. gr. segir að stjórn Atvinnutryggingarsjóðs ákveði lánveitingar úr sjóðnum og geta einstakir stjórnarmenn haft frumkvæði um einstök mál eins og tilefni er til. Þar segir jafnframt að sérstök samstarfsnefnd lánastofnana atvinnuveganna og Byggðastofnunar geri tillögur um lánveitingar til stjórnar Ätvinnutryggingarsjóðs og er henni til ráðuneytis eins og nánar er mælt fyrir í reglugerð þessari. Skal samstarfsnefndin skipuð einum starfsmanni tilnefndum af Sambandi viðskiptabanka, einum tilnefndum af Fiskveiðasjóði Íslands, einum tilnefndum af Iðnlánasjóði, einum tilnefndum af Stofnlánadeild landbúnaðarins og einum tilnefndum af Byggðastofnun og skal hann kalla nefndina saman. Auk þess má kveðja til fulltrúa viðskiptabanka þess fyrirtækis sem um er fjallað hverju sinni. Með þessari grein er að sjálfsögðu að því stefnt að skapa örugg tengsl við viðskiptastofnanir einstakra fyrirtækja og stofnlánasjóði. Eðlilega verður ekki skuldbreyting eða skipulagsbreyting framkvæmd af neinu viti nema með því að hafa þessar stofnanir með í ráðum.
    Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs getur einnig haft samráð við Vinnumálaskrifstofu félmrn. og viðkomandi atvinnumálanefnd áður en ákvörðun er tekin. Stjórn sjóðsins getur leitað eftir sérfræðiaðstoð við tillögugerð og mat á skipulagsbreytingum og aðgerðum til hagræðingar. Stjórnarmaður skal ekki taka þátt í meðferð máls sem varðar fyrirtæki ef hann situr í stjórn eða er starfsmaður þess. Hann skal einnig víkja ef hann er fjárhagslega háður fyrirtæki vegna eignaraðildar, viðskipta eða af öðrum ástæðum. Sama gildir um þátttöku stjórnarmanns í meðferð máls er varðar aðila sem eru honum svo persónulega tengdir að hætta sé á að hann fái ekki litið hlutlaust á mál.
    Í 7. gr. er kveðið á um að lánveitingum sjóðsins skuli skipt í tvo flokka. Annars vegar almenn lán er fylgja skuldbreytingu og hins vegar lán er tengjast sérstökum aðgerðum til endurskipulagningar. Skal við það miðað að almenn lán er fylgja skuldbreytingum fari ekki fram úr 1200 millj. kr. Þetta er mikilvægt ákvæði. Vafalaust reynist nauðsynlegt að veita ýmsum fyrirtækjum lán til skipulagsbreytingar og var því talið rétt að hafa ákvæði um slíkt í reglugerðinni.
    Í 8. gr. segir að Atvinnutryggingarsjóður hafi milligöngu um skuldbreytingu hjá fyrirtækjum þannig að viðkomandi fyrirtæki gefur út skuldabréf til Atvinnutryggingarsjóðs með samanlagðri fjárhæð þeirra skulda fyrirtækisins sem lánardrottnar hafa samþykkt að skuldbreyta og Atvinnutryggingarsjóður

fallist á að taka við. Lánstími skuldabréfanna skal vera allt að tíu ár, fyrsta afborgun sem næst tveimur árum eftir útgáfu þeirra og bréfin skulu síðan greiðast með jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Skuldabréfin skulu miðast við lánskjaravísitölu eða gengi erlendra gjaldmiðla eftir nánara samkomulagi aðila. Þau skuldabréf er miðast við lánskjaravísitölu skulu bera 6% vexti, en þó skulu vextir af þeim aldrei vera hærri en vegið meðaltal almennra skuldabréfavaxta á hverjum tíma samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands. Sjóðsstjórn skal ákveða vexti af bréfum með gengisviðmiðun er miðist við erlenda markaðsvexti á hverjum tíma að viðbættu álagi.
    Atvinnutryggingarsjóður gefur út skuldabréf til einstakra lánardrottna sem samþykkt hafa skuldbreytingu. Lánstími þeirra bréfa skal vera allt að sex ár, fyrsta afborgun sem næst tveimur árum eftir útgáfu þeirra, og ber síðan að endurgreiða bréfin með jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Skuldabréfin skulu miðast við lánskjaravísitölu eða gengi erlendra gjaldmiðla og bera 1% lægri vexti en skuldabréf samkvæmt því sem ég las áðan. Þessir vextir verða því hæstir 5%. Sjóðurinn ábyrgist greiðslu skuldabréfa samkvæmt þessari málsgrein með eignum sínum.
    Sjóðnum er óheimilt að gefa út skuldabréf samkvæmt þessari grein fyrir hærri fjárhæð en nemur 2,5-faldri fjárhæð almennra lána er tengjast skuldbreytingu samkvæmt 9. gr. án bakábyrgðar banka eða annarra fjármálastofnana. Um þetta ákvæði var töluvert rætt og vissulega er ekki hægt að neita þeirri staðreynd að erfiðleikum kann að valda að ekki hvílir ríkisábyrgð að baki allrar starfsemi sjóðsins, þ.e. allrar þeirrar skuldbreytingar sem honum er heimiluð. Að mati þeirra sem gerst þekkja var þó talið að með bakábyrgð banka og annarra fjármálastofnana mætti leysa þann vanda. Hins vegar er sjóðnum, eins og fram kemur, heimilt að veita ábyrgð sem samkvæmt fyrri grein gæti numið allt að 3 milljörðum kr., þ.e. samkvæmt þeirri grein sem kveður á um að allt að 1200 millj. megi verja til útlána í tengslum við skuldbreytingu.
    Í 9. gr. er fjallað um almenn lán úr Atvinnutryggingarsjóði sem fylgi skuldbreytingu og skulu þau vera til allt að tólf ára, afborgunarlaus allt að fyrstu þrjú árin að ákvörðun sjóðsstjórnar, en síðan með jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Skuldabréfin skulu bundin gengisviðmiðun eftir nánara samkomulagi aðila og er heimilt að áskilja að gengisviðmiðun geti komið til endurskoðunar á lánstíma. Stjórn sjóðsins ákveður vexti er miðist við erlenda markaðsvexti á hverjum tíma að viðbættu álagi. Sjóðsstjórn setur almennar reglur um lán samkvæmt þessari grein. Sjóðsstjórninni er heimilt til ársloka 1988 að fengnum tillögum samstarfsnefndar að veita bráðabirgðalán til þeirra fyrirtækja sem eiga við bráðan rekstrarfjárvanda að etja, enda fullnægi þau ákvæðum reglugerðar þessarar um lánshæfi og jafnframt verði samið um skuldbreytingu.
    Í þessari grein felst eins og fram kemur að þessi lán með skuldbreytingum verða gengistryggð, en menn

geta hins vegar á lánatímanum breytt gengisviðmiðun. Þetta var talið eðlilegt þannig að lánin tengdust sem mest þeim gjaldmiðli sem tekjur viðkomandi aðila eru í. Bráðabirgðalán kunna í ýmsum tilfellum að verða nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir stöðvun, m.a. með tilliti til þess að nokkurn tíma getur tekið að gera upp fjármál viðkomandi fyrirtækis. Því var talið rétt að heimila sjóðsstjórninni að veita slík lán, enda verði þau hluti af væntanlegri skuldbreytingu.
    Í 10. gr. er fjallað um lán er tengjast sérstökum aðgerðum til endurskipulagningar og er sagt að miða skuli við að auka tekjuhæfi fyrirtækja, svo sem með sameiningu þeirra eða samstarfi, með samhæfingu hráefnisöflunar og framleiðslu, breyttu vinnuskipulagi sem leiði til betri nýtingar á fjárfestingu, sérhæfingu, vöruþróun eða nýjungum í gæðastjórnun eða markaðsmálum. Heimilt er að veita lán til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækjum sem falla undir verksvið þessa sjóðs, þ.e. eru í útflutningsgreinum. Í sérstökum tilvikum er sjóðsstjórn heimilt að lána til nýrra fyrirtækja sem komið er á fót í stað fyrirtækja sem hætta starfsemi. Þá er sjóðsstjórn og heimilt, ef sérstaklega stendur, á að leysa til sín húseignir og búnað fyrirtækja sem lið í fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra. Lán má því aðeins veita að umsóknum fylgi ítarlegt arðsemismat, kostnaðar- og tekjuáætlun
og önnur nauðsynleg gögn er sýna hagkvæmni endurskipulagningarinnar. Lánstími samkvæmt þessari grein skal vera allt að tólf ár og skulu lán miðast við gengi erlendra gjaldmiðla og bera vexti með sama hætti og um var rætt í grein um almenn lán sem fylgja skuldbreytingum.
    Í 11. gr. er fjallað um veð og segir þar að lántakendur hjá Atvinnutryggingarsjóði skuli setja sjóðnum tryggingar fyrir lánum. Við mat á tryggingum skal stjórn sjóðsins styðjast við eftirfarandi atriði og matsgerðir:
Áætlaðar tekjur fyrirtækis á móti hreinum skuldum þannig að ætla megi, miðað við eðlilega rekstrarafkomu, að fyrirtækið geti greitt skuldir sínar á eðlilegum tíma. Sjálfskuldarábyrgð banka, sjóða og traustra fyrirtækja eða einstaklinga. Sérstakt mat á eignum unnið af atvinnuvegasjóðum þar sem það liggur fyrir. Fasteignamat og endurskoðað brunabótamat fasteigna, vátryggingarverðmæti véla, áhalda, tækja og húftryggingarmat skipa. Samfara útgáfu skuldabréfa til Atvinnutryggingarsjóðs sé heimilt að gera sérstaka samninga um tryggingu á greiðslu, t.d. þannig að viðskiptabanki lántakanda haldi eftir ákveðnu hlutfalli af fjárhæð við gjaldeyrisskil til viðkomandi fyrirtækis og greiði það beint til Atvinnutryggingarsjóðs. Viðskiptabanki áriti greiðslutryggingarsamninga þess.
    Eins og fram kemur í þessari grein er teygst æðilangt í heimild til að taka veð og má segja að fyrsta atriðið sé lagt til grundvallar, þ.e. rekstrarútlit viðkomandi fyrirtækis.
    Í 12. gr. er fjallað um að takmarka skuli áhættu sjóðsins eins og frekast er unnt.

    Í 13. gr. er tekið fram að stjórn sjóðsins auglýsi eftir umsóknum.
    Í 14. gr. að öll skjöl viðkomandi lánum sem sjóðurinn veitir eða tekur, þar á meðal skuldbreytingar, skuli undanþegin stimpilgjaldi.
    Ég hef talið, herra forseti, rétt að rekja nokkuð ítarlega þessa reglugerð því að hún er mjög til umræðu nú og ég þykist vita að hv. alþm. muni vilja þekkja efni hennar um leið og þeir fjalla um þær greinar sem á er byggt.
    Í 10. gr. bráðabirgðalaganna er kveðið á um að sama gjald skuli lagt á loðnu sem flutt er óunnin til vinnslu erlendis og nemur áætluðum greiðslum til Verðjöfnunarsjóðs vegna þeirrar loðnu sem landað er til vinnslu innan lands. Greininni er m.ö.o. ætlað að koma í veg fyrir að ákvörðun um greiðslu fiskimjölsverksmiðja til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins raski samkeppnisstöðu milli íslenskra og erlendra verksmiðja. Er gjaldið hliðstætt sérstöku verðjöfnunargjaldi sem lagt hefur verið síðan 1987 á ísfisk sem fluttur er út í gámum. Gjaldið leggst ekki á nema um inngreiðslu sé að ræða í Verðjöfnunarsjóð. Með atkvæðum fulltrúa kaupenda og seljenda í stjórn Verðjöfnunarsjóðs hefur nú verið ákveðið viðmiðunarverð á lýsi og mjöli fyrir yfirstandandi vertíð sem ekki leiðir til inngreiðslu. Því mun líklega ekki koma til gjaldtöku samkvæmt þessari grein á næstunni.
    Um 11. gr. er það að segja að þar er eina breytingin sú að ríkissjóði er heimilað að taka veð í afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar, en heimild til töku afurðaveðs hefur hingað til verið bundin við banka og aðrar lánastofnanir. Þetta er ekki síst með tilliti til þeirra staðgreiðslulána sem ríkissjóður hefur veitt út á sauðfjárafurðir.
    12. gr. bráðabirgðalaganna og reyndar II. kaflinn fjallar um verðlags- og kjaramál og þykir mér í því sambandi rétt að rekja í nokkrum orðum það sem ákveðið hefur verið í þeim efnum. Í fyrsta lagi er rétt að minna á að í bráðabirgðalögum frá 20. maí 1988 var gildistími kjarasamninga bundinn til 10. apríl 1989. Hækkun launa samkvæmt samningum sem þá voru lausir var lögbundin, hvort tveggja gildistími og áfangahækkanir er miða við svokallaða Akureyrarsamninga Verkamannasambands Íslands eins og ég hef áður nefnt.
    Í bráðabirgðalögum frá 26. ágúst 1988 var áfangahækkun, sem samkvæmt fyrri lögum átti að eiga sér stað 1. sept. 1988, frestað um mánuð. Jafnframt var búvöruverð fryst og tekin upp almenn verðstöðvun. Í bráðabirgðalögum þeim sem ég fjalla nú um, frá 22. sept. 1988, er ákveðið að áður ákveðnar launahækkanir á tímabilinu 1. sept. 1988 til og með 1. mars 1989 falli niður, en í stað þess komi hækkun sem nemi 1,25% 15. febr. 1989. Samkvæmt 12. gr. nær þessi ákvörðun til allra launa í landinu, kjaratengdra liða og hvers konar endurgjalds fyrir unnin störf. Samkvæmt 13. gr. bráðabirgðalaganna skulu fjárhæðir launaliðs á verðlagsgrundvelli búvöru til 1. mars 1989 ekki taka meiri hækkunum en almenn

laun skv. 12. gr. og skv. 13. gr. Gildir það sama um launalið í gjaldskrám starfandi sérfræðinga. Þess skal jafnframt getið um búvöruna að ákveðin hefur verið niðurgreiðsla á þeirri hækkun búvöru sem var í raun gjaldfallin áður en til þessara bráðabirgðalaga kom og verður varið til þeirrar niðurgreiðslu um 170 millj. kr. á þessu ári. Reyndar leiðir sú niðurgreiðsla til nokkurrar lækkunar á eldra kjöti.
    Þá er ákveðið að til 15. febr. 1989 verði allir kjarasamningar bundnir, en frá þeim tíma er heimilt að segja þeim upp. Hækkanir samkvæmt kjarasamningum sem áttu að koma til framkvæmda síðar en 1. mars 1989 halda þó gildi sínu.
    Í þeim greinum sem fjalla hér um verðstöðvun er ákveðið að gjaldskrár
opinberra stofnana skuli bundnar til loka febrúar 1989 með fyrirvara þó um áhrif af verði innfluttra aðfanga. Leiga er einnig bundin til sama tíma. Loks er í 14. gr. ákvæði þar sem segir að almennt fiskverð breytist eins og laun á gildistíma laganna, þ.e. hækki um 1,25% 15. febrúar en sé þá uppsegjanlegt með viku fyrirvara miðað við þann dag.
    III. kafli fjallar um vaxtaákvarðanir. Þar er m.a. lögbundið að dráttarvextir skuli ætíð reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt fyrir í lögum. Þetta er ákvæði sem fyrri ríkisstjórn hugðist hrinda í framkvæmd og reyndar samþykkti í yfirlýsingu sinni 20. maí, en því miður hafði ekki tekist að fá framkvæmda í viðskiptabönkum og þótti því rétt að skylda þá til framkvæmda á þessari samþykkt með ákvæði í lögum.
    Samkvæmt 21. gr. er Seðlabankanum skylt að reikna vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum lánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eigi sjaldnar en mánaðarlega og birta meðaltal þetta í Lögbirtingablaði ásamt dráttarvöxtum samkvæmt fyrri grein. Þetta er að sjálfsögðu fyrst og fremst til upplýsingar, en ég hygg það fróðlegt og mikilvægt í því skyni.
    Í 9. gr. laga um Seðlabankann er bætt við ákvæði þar sem segir: ,,Á sama hátt getur Seðlabankinn ákveðið hámark þess álags er innlánsstofnanir mega bæta við vexti gengisbundins fjár er þær endurlána í formi afurðalána.`` Í samkomulagi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að lækka vaxtamun sem er yfirleitt til sjávarútvegsins og reyndar fleiri í erlendum gjaldeyri. Hefur sú lækkun þegar orðið og nemur 0,7%.
    Undir Ýmis ákvæði í 23. gr. er fjmrh. heimilað þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1988 að hækka ríkisútgjöld um 600 millj. kr., en það er sú upphæð sem þær aðgerðir sem til framkvæmda koma strax eru taldar kosta ríkissjóð.
    Í 24. gr. er fjallað um lög frá 14. sept. 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og er fjmrh. heimilað að kveða á um í reglugerð að þeir einstaklingar, sem ekki höfðu aðrar tekjur en þær sem um ræðir í lögum og reglugerðum frá 1981 á því tekjuári sem skattinn varðar, geri upp vangoldinn tekjuskatt og eignarskatt álagðan á árinu 1987 eða fyrr

með þeim hætti sem greint er í þessari grein. Hér er einnig um að ræða að lögbinda ákvæði sem fyrri ríkisstjórn hafði samþykkt að beita við uppgjör á vanskilum skattgreiðenda. Þetta hefur ekki enn komið til framkvæmda.
    Herra forseti. Ég hef nú rakið efni frv. til l. um efnahagsaðgerðir sem er lagt hér fram til staðfestingar á bráðabirgðalögum. Mörg fleiri orð mætti hafa um efnahagsástandið í landinu. Ég sagði í upphafi míns máls að að öllum líkindum væru erfiðleikarnir töluvert meiri en menn gerðu sér grein fyrir þegar þær aðgerðir voru ákveðnar sem bráðabirgðalögin byggja á og sem bráðabirgðalögunum er ætlað að hrinda í framkvæmd. Ég tel að mjög mikilvægt og e.t.v. mikilvægast í þessu sambandi verði þó að sá Atvinnutryggingarsjóður sem ég hef rætt um allítarlega starfi fljótt og vel og komi þeim fyrirtækjum í útflutningsgreinum til aðstoðar þar sem erfiðleikar eru mestir. Ég vil þó leggja á það mikla áherslu í þessum lokaorðum að ég tel mjög ólíklegt að öllum fyrirtækjum verði forðað frá stöðvun. Eins og ég las áðan eru ströng ákvæði í reglum Atvinnutryggingarsjóðs um rekstrarhæfni slíkra fyrirtækja og mig grunar að töluvert átak þurfi til að ná því hjá ýmsum þeim fyrirtækjum sem verst standa í dag. En ríkisstjórnin og sjóðsstjórnin munu gera allt sem í þeirra valdi er til að stuðla að því að flestum fyrirtækjum verði hjálpað.
    Í umræðum upp á síðkastið hafa ýmsar greinar útflutnings verið nokkuð til umræðu, sérstaklega loðdýrarækt og fiskeldi. Ég tel rétt strax að leiðrétta misskilning sem mér finnst hafa orðið og tengist þeirri auglýsingu sem sjóðsstjórnin hefur nýlega gefið út þar sem segir að aðstoð við fyrirtæki í þessum greinum komi ekki til greina á þessu ári. Þarna er í raun til þess vísað að fyrri ríkisstjórn ákvað sérstaka aðstoð við loðdýrabændur og þá aðstoð er nú verið að framkvæma hjá Byggðastofnun og ekki séð hvernig því reiðir af. Sömuleiðis ákvað fyrri ríkisstjórn að heimila allt að 800 millj. kr. lán til fiskeldis til þess að sá mikli seiðafjöldi sem nú er í landinu færi ekki forgörðum. Heimilað var að taka 300 millj. á þessu ári en 500 á því næsta. Sömuleiðis hefur bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi til meðferðar afurða- og rekstrarlán fiskeldisins. Fiskeldið býr við miklu lakari rekstrarlán og afurðalán en aðrar útflutningsgreinar og það er ákveðinn vilji þessarar ríkisstjórnar að leysa þau mál. Það er með tilliti til þessa sem sjóðsstjórnin mun hafa talið rétt að leggja fyrst um sinn til hliðar skuldbreytingu og aðstoð við þessar greinar, en það ber að leggja á það mikla áherslu að samkvæmt lögunum og samkvæmt reglugerðinni eiga allar útflutningsgreinar rétt á aðstoð sjóðsins.
    Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.