Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Frú forseti. Við höfum nú hlýtt á hæstv. forsrh. mæla fyrir þessu frv. sem er bráðabirgðalög sem ríkisstjórn hans setti. Við höfum hlustað á hv. þm. Halldór Blöndal, 2. þm. Norðurl. e. Þetta hafa verið mjög fróðlegar umræður um það hvað gerst hefur og hver voru endalok ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Við höfum fengið tvær söguskýringar á því máli. Ég ætla ekki að bæta þeirri þriðju við, enda er það ekki mitt að dæma hver á sök í þessu máli og hver er saklaus. Hins vegar verð ég að segja að ýmislegt fróðlegt hefur komið fram um það hver hefur rekið rýting í bak hvers og hvers vegna það var gert. Það er greinilegt að sú ríkisstjórn sem starfaði hér áður, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, var aldrei mynduð í þeim skilningi að þarna færi samstillt ríkisstjórn.
    Bráðabirgðalögin, sem hér er mælt fyrir af hálfu forsrh., eru um margt sérstæð. Hv. þm. Halldór Blöndal, 2. þm. Norðurl. e., hefur farið ofan í ýmsa þætti er varða formsatriði þeirra laga og vil ég taka undir ýmislegt sem hann hefur sagt og bæta öðru við. Það er nokkuð ljóst skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar að brýna nauðsyn þurfi að bera til svo bráðabirgðalög skuli sett. Það hefur verið túlkun fræðimanna, bæði hér á landi og á hinum Norðurlöndunum, að það skuli gera mjög miklar kröfur til laga sem sett eru með þessum hætti. Hins vegar hefur túlkunin hjá íslenskum stjórnmálamönnum og ráðherrum verið þannig að það er nánast ákvörðun ríkisstjórna í hvert og eitt skipti hvort gefa skuli út bráðabirgðalög og þá skiptir ekki máli hvaða efni þar er um að ræða.
    Ég held, með hliðsjón af því sem gerst hefur núna í sumar, að það verði að endurskoða þessa heimild stjórnarskrárinnar fyrir ríkisstjórnir til útgáfu bráðabirgðalaga ef við ætlum að viðhalda lýðræðisfyrirkomulaginu sem við teljum okkur búa við. Útgáfa bráðabirgðalaga eru einræðislegir stjórnarhættir. Þar er þingið gert ómerkt í þeim skilningi að það fær ekki að koma að sínum sjónarmiðum sem það kann annars að hafa við þá lagasetningu. Sérstaklega er þetta ámælisvert þegar sú ríkisstjórn sem gefur út lögin getur ekki sýnt fram á að hún hafi meiri hluta í báðum deildum fyrir samþykki laganna. Þannig er að þó að telja megi þessa ríkisstjórn til meirihlutaríkisstjórna á grundvelli þess að hún getur varið sig vantrausti held ég og tel nokkuð ljóst samkvæmt stjórnarskránni að þessi ríkisstjórn hafi ekki heimild til setningar bráðabirgðalaga. Í stjórnarskránni eru sett þau skilyrði fyrir að frv. verði að lögum að það þurfi að samþykkja þau lög í báðum deildum. Það væri einkennilegur túlkunarmáti ef bráðabirgðalög þurfa ekki sömu afgreiðslu.
    Það má benda á það að á hinum Norðurlöndunum er mjög sjaldan gripið til bráðabirgðalaga og nánast aldrei svo ég muni til nema mjög brýna nauðsyn beri til. Það má minna á að í Danmörku situr þingið meginhluta ársins. Því er frestað á milli, en þar er ekki gripið til bráðabirgðalaga. Á hinum Norðurlöndunum er þetta mjög sjaldan gert. Mig

minnir að það hafi verið í Noregi bannað að gefa út bráðabirgðalög. Þetta er því séríslenskt fyrirbrigði. Hér er það nánast regla frekar en undantekning að gefa út bráðabirgðalög við lausn efnahagsvanda.
    Það er fleira er varðar form þessara bráðabirgðalaga sem ég vil gera hér að umtalsefni. Má ég þá í fyrsta lagi minna á og taka til 5. gr. frv., en þar er framkvæmdarvaldið að ómerkja störf Alþingis. Þar er freklega verið að taka fram fyrir hendur Alþingis með því að ráðstafa fjármagni á annan veg en Alþingi hefur ákveðið. Verið er að tak hlut af framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs og ráðstafa því í annan sjóð sem lögin gera ráð fyrir að verði stofnaður og beri nafnið Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina.
    Það má minna á að það er grundvallarregla í öllum lýðræðisþjóðfélögum að löggjafarsamkoman hafi með fjárveitingarvaldið að gera og það eitt geti ráðstafað fé skattborgaranna. Þó forseti Íslands sé annar handhafi löggjafarvaldsins og sá eini þegar Alþingi starfar ekki er honum ekki heimilt að ómerkja ákvarðanir Alþingis. Alþingi eitt hefur með fjárlög að gera og það er beint bannað í stjórnarskránni að gefa út bráðabirgðalög og ógilda þar með ákvörðun Alþingis.
    Ég vil einnig taka undir það, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. talaði um, er varðar 20. gr. frv., er varðar gildistöku þeirrar greinar skv. 25. gr. En þar er fjallað um nýjan útreikning dráttarvaxta, að sú grein komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. nóv. 1988. Það má minna á að bráðabirgðalögin voru sett vegna brýnnar nauðsynjar, en engu að síður á einn liður laganna ekki að koma til framkvæmda fyrr en síðar og það eftir að Alþingi hefur komið saman. Þarna er verið að fara yfir strikið og þetta er að mínu mati bein lögleysa.
    Í framhaldi af þessu vil ég taka undir þá spurningu sem fram kom frá hv. 2. þm. Norðurl. e., er varðar form þessara bráðabirgðalaga, og spyrja hæstv. forsrh. hvort þessi bráðabirgðalög njóti stuðnings í báðum deildum Alþingis, meirihlutastuðnings, og jafnframt hvort forseta Íslands hafi verið gerð grein
fyrir því að meirihlutastuðningur sé ekki fyrir lögunum í Nd. ef það er svar hans að svo sé.
    Hvað varðar efni þessara bráðabirgðalaga þá einkennist það af launafrystingunni. Þarna er verið að ganga á þau sjálfsögðu mannréttindi að hver aðili hafi samningsrétt. Þarna er verið að höggva í sama knérunn og fyrri ríkisstjórn gerði, að telja verkafólkið í landinu vera meginorsökina fyrir því hvernig komið er. Ekki má túlka þetta á annan hátt því ekki virðist mér vera í þessum bráðabirgðalögum tekið á öðrum þáttum. Þetta er kjarninn í bráðabirgðalögunum. Annað sem gert er er hismið.
    Það kemur fram í bráðabirgðalögunum að verið er að stofna sjóð sem heitir Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina. Þessi sjóður á að sjá um einhverja þá mestu millifærslu sem um getur að ein ríkisstjórn hafi gripið til. Þessi sjóður á að hafa á milli handanna 2 milljarða og hafa heimild til að skuldbreyta 5 milljörðum. Það eru engir smápeningar sem þarna er

verið að tala um. Og allt er þetta á ábyrgð ríkisvaldsins. Þetta er lagt upp með þeim hætti að beint framlag í þennan sjóð er 2 milljarðar kr. sem annars vegar er tekið frá Atvinnuleysistryggingasjóði, upp á 600 millj., 400 millj. af tekjuskattsauka og síðan 1 milljarður að láni sem ríkissjóður ábyrgist og síðan 3 milljarðar í skuldbreytingar.
    Þegar maður veltir fyrir sér þessum sjóði ber það hæst að verið er að taka lögbundið framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs og það án þess að tala við þá sjóðsstjórn. Þetta eru út af fyrir sig ámælisverð vinnubrögð miðað við það sem frá sjóðsstjórninni hefur komið. Þessi ráðstöfun sem slík er kannski ekki neitt til þess að gleðjast yfir, en hins vegar má segja að um aðrar leiðir sem tiltækar voru hafi ekki náðst pólitísk samstaða. Millifærsla skekkir mjög þjóðfélagsmyndina og gerir fyrirtækjum mjög erfitt fyrir, hyglar fyrirtækjum á einu sviði og kemur niður á öðru. Þess vegna ber mjög að varast allar millifærslur.
    Það sem Borgarafl. hefði viljað gera er það að taka ákveðið tillit til fyrirtækja sem verst standa og reyna að tryggja þeim fyrirtækjum sem lífvænleg eru grundvöll, en ekki með þeim hætti sem þarna er verið að tala um heldur með því að auka mjög verulega eigið fé og að nýir aðilar komist inn í fyrirtækin. Þarna er ekki gerð sú krafa.
    Hvað varðar greinar þessa frv., þá mundi ég vilja taka fyrir II. kafla þessara laga og fara inn á verðlags- og kjaramálin. Það er alveg ljóst að staðan í þjóðfélaginu er mjög slæm. Á mörgum sviðum og hjá mörgum fyrirtækjum blasir við algert gjaldþrot. Það er ekki einungis í útflutningsatvinnuvegunum heldur líka í verslun, samkeppnisgreinum. Og það er sama hvert litið er.
    Verðlagshömlur eins og hér er mælt fyrir um geta ekki verið til góðs og þó svo að hægt sé að þrýsta verði niður með valdboði er alveg ljóst að þegar spennan minnkar þá gýs heldur betur úr katlinum. Lögin sem slík leysa engan vanda heldur fresta vandanum fram yfir 15. febr. Verðlagshömlurnar sem þarna er mælt fyrir um geta ekki verið lækning á þeim vanda sem við er að etja.
    Ég hef lítillega farið yfir kjaramálin. Ég tel að það hafi verið rangt hjá þessari ríkisstjórn að banna kjarasamninga og tel það vera yfir höfuð ranga pólitík að fara inn á þessar brautir. Hins vegar hefur verkalýðshreyfingin því miður ekki andmælt þessari lagasetningu nema að litlu leyti og er ég hissa á þeim viðbrögðum.
    Ég ætla ekki að hafa mikil orð um þessi bráðabirgðalög og það frv. sem upp úr því var samið sem er samhljóða, en vona að þetta frv. hljóti fljóta og góða afgreiðslu hér í deildinni svo að við þurfum ekki að búa við það ástand að hafa bráðabirgðalög í gildi sem ekki nýtur stuðnings á Alþingi.