Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. forsrh. og þrátt fyrir að flokksbróðir minn, hv. 2. þm. Norðurl. e., hafi að vonum haldið mikla ræðu þykir mér rétt að leggja nokkur orð í belg.
    Hér er til umræðu frv. ríkisstjórnarinnar um efnahagsráðstafanir til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem gefin voru út 28. fyrri mánaðar. Fyrir þessari hv. þingdeild liggja auk þess þrjú frv. um efnahagsaðgerðir til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem gefin voru út af fyrrv. ríkisstjórn.
    Efnahagsaðgerðir, það er stórt orð. Það hefur ekki skort tilburði stjórnvalda sem hefur verið gefið heitið efnahagsaðgerðir. En oftar en ekki hafa svokallaðar efnahagsaðgerðir haft takmarkað gildi, verið ómarkvissar, fálmkenndar og árangurslausar ef þær hafa ekki gert illt verra. Þetta á ekki sérstaklega við atburði síðustu mánaða. Þetta á sér því miður miklu lengri sögu.
    Ástæðan fyrir þessu er sú að menn ráðast ekki gegn sjálfum orsökunum sem valda þeim vanda sem efnahagsráðstöfunum er ætlað að ráða bót á. Menn skirrast við að vega að rótum vandans. Meinsemd efnahagslífsins heldur áfram að grafa um sig þó að reynt sé að draga úr eða fela afleiðingar sjúkdómsins með einhverjum brögðum. Það kemur allt fyrir ekki. Engin önnur leið er en að skera meinsemdina burtu. Efnahagsaðgerðir verður að vega og meta eftir því hvort þær taka á hinum raunverulega vanda. Frv. ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir, sem við nú ræðum, hljótum við að dæma eftir þessum mælikvarða.
    En áður en lengra er haldið vil ég víkja að orsökum vandans í efnahagslífi landsins eins og þær koma mér fyrir sjónir. Það er víðfeðmt mál sem ég ætla mér alls ekki að gera almenn skil í þeim orðum sem ég mæli við þessa umræðu. En til þess að gera málið einfalt geng ég út frá að meginvandamál okkar í dag liggi í því að við eyðum meiru en við öflum. Orsakir og afleiðingar þessa blasa við hvarvetna, hverjum sem sjá vilja.
    Ég ætla samt aðeins að víkja að einum þætti þessa máls, en hann er einmitt allra mikilvægastur. Þetta eru ríkisfjármálin sem þingmenn hafa ekki við aðra að sakast um en sjálfa sig. Það vantar ekki að ríkisfjármálin séu inni í umræðunni. En það gerist ekkert í þeim efnum sem í þessu sambandi skiptir máli. Það er enginn samdráttur í ríkisútgjöldunum, þvert á móti aukast þau jafnt og þétt. Menn tala og tala en ekkert gerist. Það er eins og skáldið sagði um veðrið: Allir tala um veðrið en enginn gerir neitt í því.
    Þetta á við útgjaldahliðina. En hinu er ekki að neita að ýmislegt umtalsvert hefir verið gert sem varðar tekjuhlið fjárlaga. Ég ætla samt ekki að gera að umræðuefni nú þær umbætur og breytingar sem hafa verið gerðar á skattkerfinu, álagningu og innheimtu skatta. Ég ætla ekki að ræða hér um skattamálin, en bendi aðeins á það að á sama tíma sem stjórnvöld

hafa einbeitt sér að skattamálunum hafa þau forðast að gera nokkuð markvert til þess að hafa hemil á útþenslu ríkisbáknsins, hvað þá heldur að koma þar við samdrætti.
    Því miður er þetta ekki ofmælt. Þetta eru staðreyndir málsins. Stjórnvöld hafa algjörlega brugðist í þessu efni og raunar það sem verst er: gripið hefur verið til blekkinga til þess að láta munnræpuna um góðan vilja og tilgang sýnast vera alvörumál.
    Þegar menn hafa verið að manna sig upp í sérstakar yfirlýsingar um samdrátt í ríkisútgjöldum er þar aldrei átt við lækkun heildarútgjalda heldur í besta falli að aukningin sé minni en hún hafi einhvern tíma áður verið. En þetta þýðir alls ekki að samdráttur hafi orðið í ríkisbákninu. Það heldur alltaf áfram að þenjast út þó að einhver hemill kunni að vera á heildarútgjöldunum. Það hefur verið fundin sú ljúfa leið að lækka útgjöld til verklegra framkvæmda til að auka þeim mun meir rekstrarútgjöldin. En þetta er vegurinn til glötunar. Sú var tíðin að framlög fjárlaga til fjárfestingar voru um 25% af heildarútgjöldunum en nú nálgast þau 5%. Þetta segir sína sögu.
    Og svo hafa menn talað um að spara í ríkisrekstrinum. Auðvitað má spara í ríkisrekstrinum í mörgu og koma við hagræðingu á ýmsum sviðum. En bæði er það að þetta er allt meira í orði en á borði og ekki það þýðingarmesta þótt mikilvægt sé vissulega.
    En eitt er nauðsynlegt. Það verður að ráðast til atlögu við ríkiskerfið með því að fela sum verkefni, sem ríkið hefur með að gera, öðrum aðilum þar sem þau eru betur komin, sveitarfélögum, samtökum borgaranna og einstaklingum. Það þarf að endurskipuleggja frá rótum stjórnkerfi ríkisins í stóru og smáu. Raunar er fyrir löngu tímabært að taka til skipulegra og markvissra ráða til að skera niður ríkisútgjöldin. Og nú liggur hér fyrir frv. ríkisstjórnarinnar um efnahagsráðstafanir sem er markleysa nema jafnframt fylgi niðurfærsla á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs.
    En ég skal nú víkja nokkrum orðum að sjálfu efni frv. Í I. kafla frv. er fjallað um aðgerðir í efnahagsmálum til stuðnings fyrirtækjum í fiskiðnaði og öðrum útflutningsgreinum. Hér er Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins heimilað að taka lán til að ráðstafa til greiðslu verðbóta á freðfisk og hörpudisk eins og
hér hefur verið greint frá áður. Of lítið, of seint eins og venja er um hinar gamalkunnu kákaðgerðir millifærslunnar, verður manni fyrst á að hugsa. En það er augljóst að aðstoð við fiskiðnaðarfyrirtækin var nauðsyn þegar í stað svo sem komið er nú fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar víðs vegar um landið. Fiskvinnslufyrirtækin berjast í bökkum og sum eru á vonarvöl vegna greiðsluerfiðleika svo að liggur við rekstrarstöðvun og gjaldþroti. Sum fyrirtæki hafa þegar gengið þessa braut til enda. Það var ekki vonum fyrr að stjórnvöld kæmu hér til aðstoðar. En hér er ekki ráðist að orsökum þess vanda sem fiskiðnaðurinn hefur nú við að stríða. Hér er einungis gripið til

bráðabirgðaaðgerða sem stoða ekkert nema raunhæfar efnahagsaðgerðir fylgi þegar á eftir þar sem vegið verði að rótum vandans.
    Hin aðgerðin í atvinnumálunum, sem frv. gerir ráð fyrir, er stofnun svonefnds Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Þessum sjóði er ætlað að veita lán til endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar hjá útflutningsfyrirtækjum. Þá á sjóður þessi að hafa forgöngu um að breyta lausaskuldum fyrirtækja í útflutningsgreinum í föst lán til langs tíma.
    Því verður ekki á móti mælt að nú sé svo komið fyrir útflutningsatvinnugreinunum að þörf sé aðgerða. En hitt orkar tvímælis sem fyrir er mælt í frv. um þennan Atvinnutryggingarsjóð, um leiðina sem valin er, um yfirstjórn og fjármögnun sjóðsins. Og að sjálfsögðu verða menn að hafa hugfast hvers eðlis þær aðgerðir eru sem hér um ræðir.
    Þó að hæstv. forsrh. hafi sagt í ræðu sinni áðan og ég tók sérstaklega eftir að ríkisstjórnin teldi rétt að létta skuldabyrðum af útflutningsatvinnuvegunum, þá er Atvinnutryggingarsjóðnum ekki ætlað að létta byrðar og bæta eiginfjárstöðu fyrirtækjanna heldur að veita þeim ný lán, auka skuldir þeirra og þannig lengja hengingarólina sem þau eru í ef ekkert kemur meira til. Það ber allt að sama brunni. Allt er unnið fyrir gýg nema fram komi í beinu framhaldi aðgerðir sem ráðast að rótum meinsins. Það er ekkert sem að lokum getur komið til bjargar annað en heilbrigður rekstrargrundvöllur fyrir fyrirtækin. Aðgerðir frv. í atvinnumálum snúa ekki að þessum kjarna málsins.
    Slæm eiginfjárstaða hrjáir íslensk fyrirtæki í dag. Ekki má það gleymast að besta leiðin til að auka eigið fé fyrirtækja er að þau séu rekin með hagnaði. Það er frumskylda ríkisvaldsins gagnvart atvinnulífinu að skapa þau skilyrði með löggjöf og stjórnvaldsráðstöfunum að atvinnureksturinn geti dafnað eðlilega og skilað hagnaði. Aldrei má missa sjónar á því að án hagnaðar verður engin aukning kaupmáttar og engin trygging fyrir atvinnuöryggi.
    Þá er nauðsyn á viðbótarfjármagni inn í atvinnulífið sem eigið fé. Til þess að svo megi verða þurfa bæði stjórnvöld og atvinnurekendur að sýna skilning og vilja í verki. Skattalögin verða að vera þannig úr garði gerð að sparnaður í formi hlutafjár geti verið ábatasamari en önnur form sparnaðar. Og atvinnurekendur þurfa að tileinka sér þá víðsýni og þjóðhollustu að opna fyrirtækin fyrir nýju fjármagni og nýjum hluthöfum.
    Þetta og margt fleira þarf ríkisstjórnin að hafa í huga ef henni er full alvara að gera ráðstafanir til stuðnings útflutningsfyrirtækjum landsins. Aðgerðir í atvinnumálum sem fyrir er mælt í I. kafla þessa frv., sem við nú ræðum, ná harla skammt ef ekki kemur fleira til.
    Í II. kafla frv. er fjallað um verðlags- og kjaramál. Hér er raunverulega um að ræða framhald af bráðabirgðalögum fyrrverandi ríkisstjórnar um frestun á hækkun launa og búvöruverðs frá 26. ágúst sl. Með því að þau lög giltu aðeins til loka septembermánaðar

er eðlilegt að framlengja þessi ákvæði eins og gert er í frv. því sem við nú ræðum. Þetta var liður í aðgerðum til að skapa svigrúm til athugunar og undirbúnings ráðstafana sem áttu að miða að því að treysta rekstrargrundvöll útflutnings- og samkeppnisgreina atvinnulífsins og hemja verðbólgu, eins og komist var að orði í yfirlýsingu fyrrverandi ríkisstjórnar 26. ágúst sl.
    Það er nú eins og í sumar. Þessi ákvæði frv. um verðlags- og kjaramál eru í eðli sínu bráðabirgðaráðstafanir sem þjóna þeim tilgangi að gefa ríkisstjórninni svigrúm til langtímaráðstafana þar sem stefnt er að því að ryðja úr vegi orsökum þess vanda sem við er að glíma. Ef núverandi ríkisstjórn notar ekki þetta svigrúm til raunhæfra aðgerða til að hemja verðbólguna og treysta rekstrargrundvöll útfutningsfyrirtækja eru ákvæðin í II. kafla þessa frv. einskis nýt.
    Kem ég þá að III. kafla frv., um vaxtaákvarðanir. Hér er um að ræða sjálfsögð ákvæði sem miða að lækkun vaxta. En það verður að hafa í huga að þessi ákvæði ná skammt þótt miði í rétta átt. Drápsklyfjum vaxtabyrðanna verður ekki létt af framleiðslufyrirtækjum og hinum mikla fjölda einstaklinga, sem skuldugir eru, nema með hraðri verðbólguhjöðnun og mikilli.
    Allt ber þetta að sama brunni. Þessi ákvæði frv. um vaxtaákvarðanir stoða lítt ef ríkisstjórnin sker ekki á það kaun sem veldur hinum óhæfilega háu vöxtum, ræðst ekki að orsökum vandans.
    Sá vandi sem við er að glíma er margslunginn. En upp úr stendur að taprekstur útflutningsatvinnuveganna er svo mikill að hreinn voði er fram undan ef ekkert verður að gert. Mikilvægast er í stöðu útflutningsgreinanna og ástandi efnahagsmálanna í dag að kveða niður verðbólguna. Orsök verðbólgunnar er í hnotskurn sú að við lifum um efni fram. Til að komast fyrir rætur verðbólgunnar eigum við því ekki annars úrkosta en að draga saman, færa niður útgjöldin í einu eða öðru formi. Mikilvægast af öllu í því efni er niðurfærsla ríkisútgjalda og að því hef ég áður komið í máli mínu. En til þurfa að koma alhliða efnahagsaðgerðir sem ég ætla ekki að ræða sérstaklega nú.
    Í upphafi máls míns sagði ég að efnahagsaðgerðir væru stórt orð. Frv. það, sem við ræðum nú, er nefnt frv. til l. um efnahagsaðgerðir. Þó er þetta frv. ekki um almenna efnahagsstefnu, heildarstefnu í aðgerðum til varnar þeim voða sem við stöndum frammi fyrir í dag. Hér er aðeins um að ræða ákvæði um nokkur tiltekin atriði sem eru í eðli sínu skammtímaráðstafanir, ekki til þess að ráðast að rótum efnahagsvandans heldur aðeins til að gefa stjórnvöldum svigrúm til frekari aðgerða.
    Ég hef hér í máli mínu vikið að þessum skammtímaráðstöfunum. Þó að ég hafi haft uppi ýmsar athugasemdir vil ég ekki gera lítið úr þessum skammtímaráðstöfunum og viðurkenni nauðsyn bráðabirgðaráðstafana og það strax vegna þess að ástand útflutningsgreinanna þolir ekki bið. En

endanlegur dómur verður að bíða eftir framvindu mála og þeim langtímaráðstöfunum sem þurfa að standa undir nafni sem efnahagsráðstafanir til raunhæfra úrlausna.
    Eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. forsrh. hér í umræðunum hefur mér þótt þörf á að leggja einmitt áherslu á þetta meginatriði. Ég heyrði ekki hæstv. ráðherra sjálfan leggja áherslu á það að ráðstafanir þær sem frv. gerir ráð fyrir eru einungis til þess að skapa svigrúm til undirbúnings efnahagsaðgerða til þess að treysta rekstrargrundvöll útflutningsgreina atvinnulífsins. Allt er komið undir framhaldinu.
    Ef raunverulegar efnahagsaðgerðir líta ekki dagsins ljós nú fyrr en síðar verða skammtímaaðgerðir frv. þessa til einskis nýtar og aðeins til að tefja fyrir því að málin verði tekin traustum tökum. Það er ekki undankomu auðið. Við verðum að sjá fótum okkar forráð í efnahagsmálunum. Þar liggur við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.
    Herra forseti. Mér hefur þótt rétt að tjá mig um þetta frv. þegar við 1. umr. þar sem ég á ekki sæti í þeirri þingnefnd sem fær málið til meðferðar.