Takmörkun umræðna utan dagskrár
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Albert Guðmundsson:
    Herra forseti. Forseti hefur nú kynnt fyrirvaralítið að hér eigi að fara fram utandagskrárumræða seinna í dag um mál sem hefur vakið mikla athygli í þjóðfélaginu. Forseti hefur einnig tilkynnt að umræðan verði takmörkuð við 30 mínútur eða hálfa klukkustund. Ég vil biðja virðulegan forseta um að endurskoða þessa ákvörðun sína því að það er áreiðanlega ekki nóg fyrir mig einan þátttaka í hálftíma í þeirri umræðu, hvað þá þingheim allan. Ég efast um að frsm., sá sem biður um utandagskrárumræðuna, komist af með hálfa klukkustund svo að ég óska eftir því að forseti opni þessar umræður og að þær verði ótakmarkaðar í tíma, ekki takmarkaðar í tíma. Þetta er allt of stórt mál til þess að takmarka umræður um það við hálfan klukkutíma.