Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Það er óþarfi við 1. umr. þessa máls að fjölyrða mjög mikið um það, en þó tel ég ástæðu til að segja hér örfá orð. Þau frv. sem hæstv. viðskrh. mælti fyrir voru undirbúin í tíð fyrri ríkisstjórnar og voru útbúin til þess að festa í sessi nýjungar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Nú er þetta frv. flutt sem stjfrv. nýrrar ríkisstjórnar og ég leyfi mér að skilja það svo að öll ríkisstjórnin, allir stjórnarflokkarnir að Alþb. meðtöldu séu ásáttir um efni frv. í öllum dráttum. Ég rifja það upp að á sínum tíma mátti heyra raddir úr þeim flokki eins og þær að loka bæri svokölluðum okurbúllum og var þá sérstaklega átt við verðbréfasjóðina. Nú er öldin önnur. Nú er Alþb. komið í ríkisstjórn. Nú ætla þeir að kokgleypa þetta atriði í sinni yfirlýstu stefnu og standa að frv. sem hér er til umræðu því að annað verður ekki séð en þetta frv. sé stjfrv. án fyrirvara frá einstökum stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar. ( ÓÞÞ: Var tafið af Sjálfstfl. á sínum tíma að þetta yrði lagt fram?) Ég er nú ekki hér lengur í fyrirspurnatíma og þarf þess vegna ekki að svara hv. þm., en þetta mál var ekki tafið af Sjálfstfl. og kem ég þá að því að segja frá því sem kannski hefur farið fram hjá einstökum hv. þm. og stuðningsmönnum núv. ríkisstjórnar, þingmönnum sem ekki höfðu úthald til að styðja fyrri ríkisstjórn, gáfust upp á miðri leið og lýstu yfir andstöðu við þá ríkisstjórn. En þar sem hv. þm. virðist byggja málflutning sinn utan úr sal á einhverjum misskilningi skal það tekið fram að þetta mál var ekki tafið af Sjálfstfl. Sjálfstfl. styður þetta frv., enda hafa fulltrúar Sjálfstfl. unnið að gerð frv. Vonast ég til þess að þessari fyrirspurn úr sal sé þar með svarað.
    Hitt er svo annað mál að það er full ástæða til þess að ræða einstakar greinar frv. Það gefst betra tóm til þess síðar nema um örfáar greinar sem að sjálfsögðu verða þá betur ræddar í nefnd. Ég tel að það frv. sem hér er til umræðu og reyndar önnur frumvörp sem fylgja þessu frv. og eru þskj. 2 og 3 séu til bóta. Ég ætla að koma síðar í mínu máli að 30. gr. frv. sem ágreiningur er um og ég hef að sjálfsögðu fyrirvara um þá grein, enda lagði nefndin sem vann frv. ekki til að 30. gr. sem nú er í frv. yrði í frv. Það var einkaframtak hæstv. viðskrh. að leggja til þessa grein í frv.
    Hæstv. ráðherra sagði að hlutur verðbréfasjóðanna hefði vaxið mjög að undanförnu og það gefur auðvitað auga leið, enda tíndi hann til tölur í því sambandi. Ég held að það sé ástæða til þess að benda á að verðbréfasjóðirnir og ýmsar nýjungar á fjármagnsmarkaðnum hafa í raun hvatt til aukins sparnaðar og að þeir peningar, sem lagðir höfðu verið í þessa sjóði á móti hlutdeildarbréfum eða þá með öðrum hætti, séu fjármunir sem ella hefðu farið fram hjá innlendum peningalegum sparnaði. Hitt er svo annað mál að það gefur ekki rétta mynd að segja frá vexti þessara sjóða á nokkrum síðustu árum. Við verðum jafnframt að átta okkur á því hve markaðshæf verðbréf í einkaeign eru í raun lítill hluti af

peningalegum sparnaði hér á landi. Það er talið, og ég vitna hér til heimildar, með leyfi forseta, það eru Hagtölur mánaðarins útgefnar í september 1988, að peningalegur sparnaður 1987 sé 181 milljarður og 700 millj. Þar af er frjáls sparnaður um það bil helmingurinn eða 90 milljarðar. Þessi bréf, sem fara í gegnum verðbréfasjóði, eru innan við 10 milljarða og tel ég þá saman þá liði sem eru markaðshæf verðbréf í einkaeign og annar frjáls sparnaður og er þá áreiðanlega fremur of talið en van. Til samanburðar má benda á að innlán og seðlar samkvæmt sömu heimildum eru tæplega 70 milljarðar árið 1987 samkvæmt heimildum Seðlabankans sem birtast í Hagtölum mánaðarins. Af þessu sést reyndar að hér er um að ræða tiltölulega lítinn hluta peningamarkaðarins og ég held, ekki síst vegna þess sem kom fram hjá hæstv. viðskrh., að það sé full ástæða til þess að ýta undir fjölbreytni á þessum markaði því að það er víst, eins og reyndar kom fram í hans máli, að fjölbreytni á þessum markaði kemur til með að hvetja fólk til sparnaðar, ráðdeildar og fyrirhyggju í peninga- og sparnaðarmálum.
    Það sem hins vegar einkennir kannski peningamarkaðinn hér á landi er fyrst og fremst stærð ríkisbankanna og umsvif þeirra, en af innlánum bankanna held ég að ég fari rétt með að ríkisbankarnir eigi í innlánunum yfir 70% en einkabankarnir innan við 30%. Það eru kannski þessi hlutföll sem eru íhugunarverð. Ég hygg að hvergi á Vesturlöndum þekkist það að ríkisbankakerfi fari með svo mikinn hluta þessa markaðar. Þetta ætti að vera hæstv. ráðherra íhugunarefni og það væri reyndar ágætt að fá álit hans síðar í þessari umræðu, hvort hann hyggist stefna að einhverjum breytingum á þessum málum sem verða til þess að aðrir og fleiri geti tekið yfir þann þátt sem ríkisbankarnir hafa nú í innlánum og umsvifum á peningamarkaðnum.
    Þegar litið er á efnahagsmálin um þessar mundir blasir við mikill viðskiptahalli og gífurlegar erlendar skuldir og það fer ekki fram hjá nokkrum manni sem fylgist með stjórnmálum að núv. ríkisstjórn hefur það að yfirlýstu markmiði að auka erlendar skuldir íslensku þjóðarinnar. ( ÓÞÞ: Þetta er lygi.) Ég hélt að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, núv. stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar og fyrrv. andstæðingur fyrri ríkisstjórnar, einn óþægasti
þingmaður Framsfl. um margra ára skeið, hefði nú verið tekinn þannig í fóstur hjá fóstra sínum, hv. 1. þm. Norðurl. v. Páli Péturssyni, að hann þyrfti ekki að kalla þessi orð fram í ræðu ræðumanns, en gæti tekið þátt í umræðunum síðar á þessum fundi. Vona ég að hv. þm. líði ekki svo illa í sæti sínu að hann geti ekki þolað að bíða meðan ég flyt mína ræðu. Ég skal hins vegar lofa því, hv. þm., að þú færð nóg efni í þína ræðu þegar þú hefur hlustað á fleiri atriði í mínu máli. Vona ég nú að hv. þm. jafni sig aðeins og sitji hljóður og reyni að hlusta eins og góðum nemanda sæmir, en hann þekkir það víst best þegar kennarar tala við nemendur, enda fyrrv. kennari eins og heyra má á orðfæri hans þegar hann kallar hér

fram í.
    Í öðru lagi er það ljóst, og vona ég nú að allir heyri, bæði góðir nemendur og slæmir, fyrrv. kennarar og aðrir hv. þm., að halli á ríkissjóði er talsverður og hæstv. núv. ríkisstjórn stefnir að því að auka enn þann halla á yfirstandandi ári samkvæmt yfirlýstu markmiði sínu. Það er líka ljóst að það er of lítill innlendur sparnaður í þessu landi og hann þarf að auka. Hæstv. ríkisstjórn hefur hins vegar lýst yfir þeirri stefnu að hún ætli ekki að taka á þeim vanda í atvinnulífinu sem við er að etja heldur fresta þeim tökum þar til næsta vor. Hún hefur ákveðið að auka millifærslur, taka peninga að láni erlendis frá, sem síðar á að greiða með sköttum, nota þá peninga til þess að auka skuldastöðu fyrirtækjanna í stað þess að koma á eðlilegum rekstrarskilyrðum. Síðan, og það hljóta allir heilvita menn að sjá, jafnvel hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, kemur að því að skrá verður gengi íslensku krónunnar rétt og skapa þau rekstrarskilyrði sem atvinnulífið þarf á að halda í stað þess að auka sífellt skuldabyrði fyrirtækjanna. Það sem skiptir mestu máli í því sambandi er auðvitað að tryggja og treysta eiginfjárstöðu fyrirtækjanna. Þess vegna skiptir afar miklu máli í umræðum um það mál sem við ræðum hér í dag að átta sig á því hvort ekki megi auka fjölbreytni á íslenska fjármagns- og peningamarkaðnum til þess einmitt að gefa almenningi í landinu tækifæri til að taka þátt í því að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna en láta ekki peningaþuklara úr heimi stjórnmálanna fara höndum um peninga og velja úr fyrirtæki sem síðar eiga að njóta góðs af því að fá sérstaka fyrirgreiðslu ríkisins sökum þess að hæstv. ríkisstjórn heykist á því að koma á þeim eðlilegu rekstrarskilyrðum sem atvinnulífið þarf á að halda.
    Það er ástæða enn fremur í þessum umræðum að spyrja hæstv. viðskrh. nokkurra spurninga vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir á fjármagnsmarkaðnum sökum yfirlýsinga ýmissa ráðamanna þjóðarinnar og þá einkum og sér í lagi einstakra hæstv. ráðherra. Í Dagblaðinu í gær er haft eftir hæstv. forsrh.:
    ,,Tillaga um að breyta grunni lánskjaravísitölu kom inn í stjórnarmyndunarviðræðurnar frá Alþfl. og Alþb. með því fororði að þetta væri mjög að vilja verkalýðshreyfingarinnar. Ég skal ekki segja hvort fyrir liggur formleg samþykkt þar.``
    Ég man þá tíð, þegar ég sat í ríkisstjórn, að núv. hæstv. forsrh. beitti sér mjög fyrir því að lánskjaravísitalan yrði lögð niður eða henni a.m.k. breytt. Nú bregður svo við að hæstv. forsrh. segir að kröfur um að taka þetta inn í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar séu komnar frá Alþb. og Alþfl. sérstaklega til þess að þóknast vilja verkalýðshreyfingarinnar. Ekki virðist hæstv. forsrh. lesa blöðin nægilega vel því að hinn 6. okt. sl. segir hagfræðingur Alþýðusambandsins, Ari Skúlason, að það sé hrein og klár lygi, svo að ég noti það orð sem hann notar og kom jafnframt fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni áðan, ( Viðskrh.: Hann dró það til baka.) klár lygi hjá Steingrími það sem hann hafi

sagt. --- Hver dró hvað til baka? ( Viðskrh.: Ari. Hann dró orð sín til baka.) Það hef ég ekki orðið var við. ( Viðskrh.: Þú hefur ekki lesið blöðin betur.) Það vona ég að hæstv. ráðherra hafi með þessu svarað spurningunni og sagt og staðfest að það sé þá rétt hjá hæstv. forsrh. að það hafi verið að kröfu Alþb. og Alþfl. sem hróflað er við lánskjaravísitölunni á þá leið sem gert er í núverandi stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. ( Viðskrh.: Það er allt annað.) Já, þá held ég að það sé full ástæða til þess að hæstv. viðskrh. komi hér í stólinn á eftir og skýri það út fyrir þingheimi og alþjóð hvað er lygi og hvað er satt í þessum efnum þannig að menn velkist ekkert í vafa um það og óska ég sérstaklega eftir því, enda var spurt til að finna út úr því hver það er sem lýgur og hver það er sem segir satt í þessum veigamiklu umræðum.
    Ég man heldur ekki betur en hæstv. viðskrh. setti á laggirnar nefnd til þess að fjalla um lánskjaravísitöluna og niðurstöður nefndarinnar voru á ákveðna leið og væri full ástæða til þess að fá hæstv. viðskrh. til að rifja það upp hver var meginniðurstaða nefndarinnar. Lagði vísitölunefndin til að lánskjaravísitölunni yrði breytt? Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. skýri það fyrir þingheimi hér á eftir.
    Í öðru lagi langar mig til að beina þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. hvernig hann hyggist standa að því að auka innlendan sparnað. Það eina sem heyrist í umræðunni, reyndar minnst frá hæstv. viðskrh., er að það eigi að
lækka vexti með handafli, það eigi að setja skatta á vexti, en heldur lítið fer fyrir yfirlýsingum hæstv. vaxta- og viðskrh. um það hvernig auka eigi innlendan sparnað. Ég óska þess vegna eftir því í umræðum um þetta mál þegar fjallað er hér um fjármagnsmarkaðinn að hæstv. viðskrh. geri okkur grein fyrir því hvernig hann telur að eðlilegast og sjálfsagðast og best sé að auka innlendan sparnað til að freista þess að koma í veg fyrir of miklar erlendar lántökur. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt mál sem þarf að ræða þegar þessi mál eru hér til umræðu.
    Í þriðja lagi vil ég minnast á hlutabréfamarkað. Á sínum tíma beittu Seðlabankinn og Iðnþróunarsjóður sér fyrir því að Enskilda Securities gerði skýrslu um hlutabréfamarkað. Í þeirri skýrslu, sem var ákaflega gagnleg og góð skýrsla, komu fram ýmsar hugmyndir um hlutabréfamarkað og um skattalega meðferð á hlutafé og arði. Mig langar til þess að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvað verði um þessa skýrslu og hvort hann hyggist í núv. ríkisstjórn beita sér fyrir því að hér verði komið á öflugum hlutabréfamarkaði sem er óneitanlega viðbót við þá markaði sem hér starfa og mundi auka á fjölbreytnina og gefa almenningi í landinu tækifæri til þess að spara á fleiri vegu en nú er hægt.
    Varðandi 30. gr. í frv. sem hér er til umræðu vil ég að það komi skýrt fram að nefndin sem samdi þetta frv. lagði ekki til að sú 30. gr. yrði í frv. sem nú er komin í það. Hæstv. viðskrh. segir að þessi grein sé tilkomin til þess að hægt sé að ná, ef á þarf

að halda, jafnræði á milli aðila. Í því sambandi er eðlilegt að spurt sé hvað eigi þá að gera við veðdeildir bankanna og eins hvort ekki sé þá fremur ástæða til þess að orða ákvæðið þannig að til þessarar heimildargreinar, sem er heimild fyrir Seðlabankann og um leið ríkisstjórnina, að hafa sams konar bindiskyldu á þessum sjóðum og á innlánsstofnunum, orða greinina þá með þeim hætti eins og kom fram hjá hæstv. viðskrh., að til þessa yrði hugsanlega gripið ef verðbréfasjóðirnir stunduðu sams konar starfsemi, þ.e. innláns- og útlánsstarfsemi. Það er nefnilega talsverður munur á verðbréfasjóðum og bönkum.
    Í fyrsta lagi lofa verðbréfasjóðir ekki ákveðinni ávöxtun heldur ákvarðast hún af afkomu sjóðanna eins og gildir um annað eigið fé. Í öðru lagi er sparnaður í verðbréfum í flestum tilvikum til mun lengri tíma heldur en í bankakerfinu. Í þriðja lagi lofa verðbréfasjóðir ekki innlausn samdægurs þótt það þekkist einkum og sér í lagi vegna þeirrar samkeppni sem er á milli þessara sjóða. Og verðbréfasjóðir taka ekki áhættu af töpuðum kröfum á sama hátt og innlánsstofnanir þurfa að gera. Það er m.ö.o. heilmikill munur annars vegar á verðabréfasjóðum og hins vegar á innlánsstofnunum sem mér sýnist ekki veita af að láta hæstv. viðskrh. vita af, en hann hefur kannski af sinni háttvísi og hógværð ekki haft tíma til þess að kynna sér það. Og mig langar til þess að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvar bindiskylda hafi verið notuð með þeim hætti sem hann segir bæði í grg. með frv. og eins í ræðu sinni. Ég kannast við það að í örfáum löndum er þessi heimild til, en hvenær hefur verið til hennar gripið og við hvaða skilyrði? Og ég vil fá gefið upp í hvaða löndum það er og nákvæmlega við hvaða skilyrði því að bindiskylda á verðbréfasjóði eru heimildir sem ég kannast ekki við að hafi nokkurn tíma verið notaðar. Ég vil gjarnan fá skýr svör um það af hverju hæstv. ráðherra setur þetta inn í lagafrv. því ég tel að hans rökstuðningur nægi ekki til. A.m.k. þarf að breyta þessari 30. gr. og hún nái þá einungis til verðbréfasjóða ef þeir, eins og hann sagði, ætla að stunda innláns- og útlánsstarfsemi sem alls ekki er tilgangur með starfsemi verðbréfasjóðanna.
    Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að flytja hér langt mál um þetta frv. eða þau frv. sem verða hér til umræðu í dag. Fulltrúi Sjálfstfl. mun að sjálfsögðu taka þátt í afgreiðslu málsins í nefndinni og mun ekki skorast undan að afgreiða málið með skjótum og vönduðum hætti eins og ósk hæstv. ráðherra var um. Ég tel að það skipti afar miklu máli að festa í sessi þá starfsemi sem hér er verið að ræða um. Ég lýsi yfir ánægju minni með það að þingflokkur Alþb. skuli nú ætla að styðja þessa starfsemi og að festa hana í sessi eins og þetta lagafrv. gerir ráð fyrir. Ég ítreka fyrirspurnir mínar til hæstv. ráðherra og óska eftir því að hann megi í sínu starfi ýta undir aukið frelsi á þessum markaði, auka fjölbreytnina og koma í veg fyrir að það kerfi sem við byggjum upp verði skriffinnum að bráð. Jafnframt tel ég vera fulla ástæðu til þess að hér fari fram

umræður um hvernig skynsamlegast sé að hafa skattastefnuna gagnvart verðbréfasjóðunum og reyndar gagnvart sparnaðarformum almennings, gagnvart hlutafé og arði, því að það skiptir auðvitað gífurlega miklu máli að skattlagning á þessu sviði sé með þeim hætti að það hvetji til sparnaðar. Það eru fáar þjóðir í heiminum sem þurfa jafnmikið á því að halda og Íslendingar.