Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Flestir munu sammála um að löngu sé orðið tímabært að lögbinda starfsemi verðbréfafyrirtækja og fjármagnsleiga og fleiri fyrirbæra á fjármagnsmarkaðnum, en umsvif af því tagi hafa vaxið með ævintýralegum hraða á mjög skömmum tíma og kannski ekki laust við að sumum þyki sá vöxtur nánast óhugnanlegur. Margt hefur verið sagt miður fallegt um þessa þætti fjármálalífsins, ófreskjur málaðar á vegginn auk heldur annað, og ekki laust við að skepna þessi hafi komið talsvert við sögu í stjórnmálaumræðum nú um nokkurt skeið. Þessi hraði vöxtur umsvifa á fjármagnsmarkaði hefur vakið nokkra tortryggni og ekki hefur nýleg kollsteypa eins verðbréfasjóðsins orðið til að bæta þar um. Það hefur verið mörgum áhyggjuefni að þessi starfsemi hafi ekki haft nægilega stoð í lögum né reglur við að styðjast. Rammalöggjöf um þessa starfsemi er því nauðsynleg fyrir alla aðila og hlýtur að hafa þann tilgang að tryggja öryggi og hag bæði fyrirtækjanna og viðskiptavina þeirra.
    Nú mun það raunar vera svo að mörg hinna stærri fyrirtækja á þessu sviði hafa sannarlega skilið nauðsyn þess að hafa samræmdar reglur um starfsemi sjóðanna. Þau hafa sem sagt komið sér saman um slíkar reglur, jafnvel fyrir alllöngu, og ég reikna að sjálfsögðu með að höfundar þessa frv. hafi kynnt sér þær reglur og hafi þær að einhverju leyti til viðmiðunar við samningu þessa frv. Það er því alls ekki þessum fyrirtækjum til höfuðs, síður en svo, sem löggjöf um þau er nú hér í burðarliðnum heldur er hér að mínu viti um sjálfsagt öryggisatriði að ræða. Dæmin sanna að slíkrar löggjafar er þörf svo að starfsemi af þessu tagi hafi traustan bakgrunn og skýrar skyldur. Markmiðið hlýtur að vera fyrst og fremst að tryggja hag þeirra sem skipta við fjármálafyrirtæki, hverju nafni sem þau nefnast, og að hinar ýmsu stofnanir á fjármagnsmarkaði, þótt ólíkar séu að formi og starfsemi, búi við nokkurn veginn sambærilegar reglur.
    Nú skal ég ekki um það segja hér og nú hvort þeim markmiðum er náð til fullnustu í þeim lagafrv. sem hér liggja fyrir. Við eigum eftir að fjalla, vonandi ítarlega, um þau í nefnd og heyra álit kunnugra í þessum greinum, en við fyrstu athugun virðist mér margt gott um þessar tillögur. Ég ætla því ekki að gera margar athugasemdir nú við 1. umr., en þó þá helsta að ég tel nauðsynlegt að snerpa orðalag varðandi eftirlit með þessari starfsemi. Ég tel að bankaeftirlitið verði að hafa mjög skýrar skyldur í þessum efnum og einhver völd svo að það sé nægilega virkt.
    Þriðja setningin í 34. gr. frv., þ.e. í máli nr. 1, er of veikt orðuð að mínu mati, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Þyki bankaeftirlitinu rekstur verðbréfasjóðs vera athugaverður og eigi fæst þar bætt úr við ábendingar þess getur það lagt til við ráðherra að hann afturkalli rekstrarleyfi viðkomandi verðbréfafyrirtækis.``
    Þetta finnst mér vera mjög hógværlega orðað. Ég held að betra væri að í stað orðanna ,,getur það lagt

til`` verði einfaldlega sagt: er því skylt að leggja til við ráðherra að hann afturkalli rekstrarleyfi viðkomandi verðbréfafyrirtækis. Hér á ekki að leika neinn vafi á um viðbrögð eftirlitsaðila.
    Það er reyndar annað atriði í þessari sömu grein sem ástæða er til að athuga vel og það er skilafrestur ársreikninga verðbréfasjóða, þ.e. 30 daga eftir undirritun reikninganna og eigi síðar en þrem mánuðum eftir lok reikningsárs. Þetta held ég að sé töluverð ofrausn. 30 dagar, að ekki sé minnst á þrjá mánuði, eru langur tími í svona starfsemi er mér sagt og væri eðlilegt að stytta þennan skilafrest.
    Það má búast við töluverðri umfjöllun í nefndarvinnunni um ýmis atriði þessa frv., t.d. varðandi reglur um fjárfestingar og eignir verðbréfasjóða í 28. gr. Ég hefði t.d. talið 5% hlutfall í hlutabréfum eins fyrirtækis eða bréfum eins skuldara býsna hátt hlutfall og tel ástæðu til að athuga það mjög vel.
    Um stíflugarðinn sem hæstv. ráðherra nefndi svo hérna í 30. gr. skal ég ekki fullyrða, en þetta er vissulega umdeilt eins og kom fram bæði hjá honum og hv. síðasta ræðumanni og rök bæði með og á móti sem rétt er að gaumgæfa mjög vandlega. En nóg um það.
    Ég vænti þess að þessi atriði og önnur skýrist frekar í nefnd og alltént er gott að þessi frv. eru hér fram komin og vonandi fæst með afgreiðslu þeirra það jafnræði og notendavernd sem stefnt er að.