Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. viðhafði um sl. helgi ummæli sem eðlilegt var að taka upp til umræðu utan dagskrár þegar í stað á hinu háa Alþingi. Ég get mjög vel tekið undir það að það hefði verið eðlilegt að slík umræða færi fram í sameinuðu þingi, en þar sem fundir sameinaðs þings eru með óreglulegum hætti þessa viku og fóru ekki fram í gær þótti mér nauðsynlegt að óska eftir því að slík umræða færi fram hér á fundi hv. Nd. þegar í dag. En með því að eðlilegt er, að mínu mati, að slíkar umræður fari fram í sameinuðu þingi, sem ekki verður við komið vegna þess hvernig fundum sameinaðs þings er háttað í þessari viku, fór ég fram á það við forseta deildarinnar að þær færu fram með þeim hætti sem hér hefur verið ákveðið. Ég get mjög tekið undir að það væri æskilegt að hafa um þetta mun lengri umræðu, en með því að verið er að fara fram á óvenjulega málsmeðferð vegna þess að ekki er fundur í sameinuðu þingi kaus ég að fara ekki fram á lengri umræðu en þessa og vil fyrir mitt leyti standa við það gagnvart hæstv. forseta að umræðan taki ekki lengri tíma. Ég get hins vegar fyrir mitt leyti mjög vel fallist á að taka lengri tíma annaðhvort á þessum fundi eða taka þessa umræðu upp aftur síðar, en ég vildi aðeins að þessi skýring kæmi fram af minni hálfu hvers vegna beðið var um umræður hér í deildinni og hvers vegna með þessum hætti.