Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

    Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Um sl. helgi hélt hæstv. fjmrh. ræðu á vegum flokkssamtaka sinna þar sem fram koma ásakanir á núv. hæstv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., fyrir það að hafa gefið rangar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs þegar fyrrv. ríkisstjórn lét af völdum. Í kvöldfréttum útvarpsins 15. október segir m.a. um þetta, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ólafur Ragnar Grímsson fjmrh. sagði á opnum fundi Alþb. í Garðabæ í dag að ýmsar veigamiklar ákvarðanir Þorsteins Pálssonar leiði til miklu lakari stöðu ríkissjóðs um næstu áramót en fráfarandi ríkisstjórn hefði áætlað um miðbik ársins.`` Síðan ræðir hæstv. fjmrh. um vanda atvinnuveganna og segir að þar sé ekki einasti vandinn sem við blasi heldur, með leyfi forseta, ,,ekki síður gífurleg vandamál sem snerta fjármál og rekstur hins opinbera kerfis, nánast í öllum ráðuneytum, bæði fagráðuneytum og í fjmrn.``
    Í frétt í Þjóðviljanum í dag er haft eftir hæstv. fjmrh.: ,,"Niðurstöðutölurnar verða því miður mun verri en menn héldu fyrr í sumar og haust``, sagði Ólafur Ragnar Grímsson m.a. um viðskilnað fyrri ríkisstjórnar á fundi í Garðabæ. Að sögn Ólafs er nú unnið að uppgjöri á stöðu ríkissjóðs og ríkisstofnana fram að stjórnarskiptum og munu niðurstöður þessa uppgjörs liggja fyrir á næstu dögum.``
    Í frétt í Morgunblaðinu er haft eftir hæstv. fjmrh. að auka þurfi skattheimtu um 5--9 milljarða kr., að vísu fer ekki mikið fyrir nákvæmninni í þessum efnum, 5--9 milljarðar kr., m.a. til þess að auka mjög verulega millifærslur til atvinnuveganna. Um eina helgi flutti hæstv. fjmrh. ræðu þess efnis að nú væri liðin sú tíð að borga fjármuni úr ríkissjóði yfir til atvinnuveganna. Um næstu helgi þar á eftir heldur hann ræðu um að það eigi að auka skattheimtuna um 5--9 milljarða kr. til þess að yfirfæra í atvinnuvegina.
    En víkjum þá aftur að tölulegum staðreyndum um hallann á ríkissjóði á þessu ári. Fjárlög voru samþykkt með 26 millj. kr. rekstrarafgangi. Í júnímánuði upplýsti þáv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., að hallinn yrði þrátt fyrir niðurstöður fjárlaga í framkvæmd um 483 millj. kr. Í byrjun septembermánaðar upplýsti núv. hæstv. utanrrh., þáv. fjmrh., í ríkisstjórn og öllum almenningi í landinu að hallinn á þessu ári yrði væntanlega tæpar 700 millj. kr. eða 693 millj. kr.
    Nú minnast menn þess að fjmrn. var mjög varkárt í spám um veltuhraða á þessu ári, spáði mun minni viðskiptahalla en Þjóðhagsstofnun svo sem menn rekur minni til, og þar af leiðandi voru tekjuspár þess varlegar áætlaðar en annarra í þjóðfélaginu. Ég hef ekki orðið var við það að frá því í september hafi komið fram nýjar upplýsingar um breyttar þjóðhagsstærðir að þessu leyti til, en þó má það auðvitað vera og getur þá hæstv. fjmrh. upplýst það hér á eftir.
    Þessar upplýsingar liggja fyrir af hálfu hæstv. utanrrh. sem gegndi störfum fjmrh. í fyrri ríkisstjórn. Nú kemur fram af hálfu hins nýja hæstv. fjmrh. að um sé að ræða allt aðrar og hærri tölur um viðskilnaðinn í fjármálaráðuneytinu. Ég vil því spyrja

hæstv. fjmrh. að því hvort þær tölur sem forveri hans gaf í ríkisstjórn hafi verið rangar, hvort þær upplýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur nú undir höndum bendi til þess að forveri hans hafi mátt sjá annað í tíð sinni í fjmrn. Það er nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar fram þegar í stað því hér er um mjög alvarlegar ásakanir að tefla á hæstv. utanrrh., forvera núv. hæstv. fjmrh., hvort hann gaf rangar upplýsingar eða mátti sjá á sinni tíð að þær upplýsingar sem hann gaf ríkisstjórn og alþjóð um 700 millj. kr. væntanlegan halla hafi ekki átt við rök að styðjast.