Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Þegar nýir menn setjast á valdastóla eru þeir gjarnan krafðir sagna um hvar þeir hyggist helst beita kröftum sínum og hvernig staða þeirra embætta sem þeir skipa sé er þeir taka við. Í þeim málum sem hér um ræðir hefur sannarlega ekki þurft að krefja nýjan hæstv. fjmrh. sagna, yfirlýsingagleði hans um ástand efnahagsmála hefur nánast verið taumlaus að undanförnu. Það skal fúslega viðurkennt að hin nýja ríkisstjórn er síður en svo öfundsverð af því hlutskipti sem hún nú hefur tekist á hendur og því búi sem hún tekur við, en þá skulum við líka minnast þess að tveir þriðju þessarar hæstv. ríkisstjórnar, þar á meðal fyrrv. hæstv. fjmrh., ber sannarlega sinn hlut ábyrgðar á því hvernig komið er í efnahagsmálum þjóðarinnar. En það lofar ekki góðu um stjórnarsamstarfið ef hæstv. fjmrh. heldur áfram uppteknum hætti um að velta sér upp úr yfirlýsingum um hrikalegan og ótrúlegan viðskilnað síðustu ríkisstjórnar. Þar bera samstarfsmenn hans í núverandi ríkisstjórn sína sök, jafnvel þótt hæstv. forsrh. í núv. stjórn hafi að því er virðist verið í stjórnarandstöðu þá 14 mánuði sem sú stjórn var við völd.
    En þessar yfirlýsingar og þessar umræður hér leiða óneitanlega til umhugsunar um það til hvers verið er að setja fjárlög. Jú, fjárlögin eru sú fjárhagsáætlun sem ríkisstjórnin á að starfa eftir og það skal tekið fram að við afgreiðslu síðustu fjárlaga hafði stjórnarandstaðan uppi alvarlegar og rökstuddar efasemdir um að þeir útreikningar sem fjárlagafrv. byggði á stæðust. Fjárlögin voru afgreidd hallalaus á pappírum og fjárlög skulu standa, sagði þáv. hæstv. fjmrh. En nú liggur ljóst fyrir að allt er úr böndunum og halli ríkissjóðs nemur hundruðum milljóna eða milljörðum eftir því sem sumir segja og er illt að hér skuli ekki vera viðstaddur fyrrv. hæstv. fjmrh. til að skýra það mál. En ég vil láta hér í ljós þá skoðun að slík ráðsmennska af stjórnvalda hálfu er gróf lítilsvirðing við Alþingi og störf þess og full ástæða að taka upp breytta og betri hætti í þeim efnum hvort sem þessi hæstv. ríkisstjórn ber gæfu til að bæta þar um og gera fjárlög svo úr garði að þau standist og unnt sé að fylgja þeim eftir.
    Vissulega er hæstv. ríkisstjórn mikill vandi á höndum nú og það veltur mikið á fyrir alla landsmenn hvernig henni tekst að spila úr þeim hrökum sem hún telur sig hafa á hendi. En hæstv. fjmrh. ætti að fara sér hægt um yfirlýsingar, það er ávallt hægara um að tala en í að komast, og hver veit hversu langt þess er að bíða að slíkar yfirlýsingar sem hann nú hefur uppi kunni að hitta hann sjálfan fyrir.