Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það sætir nokkurri furðu að hér skuli fara fram umræða utan dagskrár þegar sérstaklega er tekinn fyrir sá þáttur í störfum fyrrv. ríkisstjórnar sem heyrði undir þáv. fjmrh. að honum fjarstöddum. Það þarf nokkuð mikla lagni í pólitískum vopnaburði til að leggjast lágt, til að hefja þann leik hér í þingsölum. Mig undrar það. Aftur á móti gaf forseti það út að hér ættu að fara fram umræður um viðskilnað ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og það er miklu rýmra umræðuefni. Og það er kannski rétt að hugleiða það hér að verði sá viðskilnaður gerður upp af sögunni, sem hann verður, munu menn fyrst og fremst horfa á það hvernig sú ríkisstjórn skildi við atvinnuvegi þessarar þjóðar.
    Það er nefnilega hlálegt að flokkurinn sem kennir sig við einstaklingsframtak og frelsi einstaklingsins skyldi standa þannig að málum að hafi nokkurn tíma verið unnið hratt að þjóðnýtingu á Íslandi var það undir forsæti Þorsteins Pálssonar, fyrrv. forsrh. Þjóðnýtingin fór fram á þann hátt að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar voru reknir með halla og það stefndi hraðbyri í að sjóðir ríkisins, m.a. Fiskveiðasjóður og fleiri, eignuðust mestöll fyrirtækin í sjávarútvegi t.d. Það er dálítið merkilegt að flokkurinn sem kenndi sig við einstaklingsframtak og leiddi ríkisstjórnina skyldi standa þannig að málum.
    Hér á höfuðborgarsvæðinu forðuðu menn sér á handahlaupum út úr atvinnugreininni og stofnuðu nýtt fyrirtæki eins og menn vissu og það þurfti sérstakar stuðningsaðgerðir til þess að það héldi velli. Ég held nefnilega að sú sögulega stund sé upp runnin að endurtaka gömlu vopnaviðskiptin sem áttu sér einu sinni stað innan Sjálfstfl. milli þáv. leiðtoga Ólafs Thors og nokkurra harðlínumanna þegar hann spurði: Viljið þið hafa þingflokk með fimm eða tíu þingmönnum eða viljið þið hafa þingflokkinn af þeirri stærð sem hann er? Ef Sjálfstfl. er aðeins orðinn hagsmunagæsluaðili fyrir verðbréfasjóðina hina nýju er hætt við því að stærðin á þingflokknum sigli fljótt í samræmi við markmiðin.