Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Herra forseti. Óskaplega líður nú varaformanni Sjálfstfl. illa og óskaplega líður formanni Sjálfstfl. illa, mennirnir sem tóku við flokknum, ætluðu að leiða hann til stóraukinna valda í íslensku þjóðfélagi, menn einkaframtaksins og heilbrigðs atvinnulífs sem skilja við mörg blómlegustu fyrirtæki einstaklinganna í þessu landi í rúst, í rúst.
    Sú tala, 5--9 milljarðar, sem ég nefndi í Garðabæ, var ekki tengd hallanum á ríkissjóði eins og hver maður veit sem hlustar á það sem ég sagði eða les það sem eftir mér er haft. Það var tengt skuldinni við atvinnulífið í landinu fyrst og fremst, þeim hallarekstri á útflutningsgreinunum. Það var eitt fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að breyta til, að færa fólkinu í landinu atvinnu á ný og endurreisa atvinnulíf landsbyggðarinnar. Formaður Sjálfstfl. ætti að spyrja Einar Guðfinnsson, fyrirtækið í Bolungarvík, hvað stjórnarstefna Þorsteins Pálssonar hafi kostað það --- eða er hann búinn að gleyma för sinni um Vestfirði þegar hann komst að því í fyrsta sinn hvers konar hörmungar stjórnarstefnan hafði leitt yfir þann landshluta? Hann ætti að fara á Suðurland og spyrja forsvarsmenn fyrirtækjanna sem ég hef talað við undanfarið hvað stjórnarstefna Þorsteins Pálssonar hefur kostað þá. Þetta er reikningurinn við þjóðfélagið í heild sinni og það er ósköp eðlilegt að þessir ágætu menn skuli vera að reyna að hlaupa frá fortíðinni, hlaupa frá fyrstu stjórnarsetu sinni með þessum hætti.
    Það er mjög góð samvinna milli mín og formanns Alþfl., hefur verið og verður. Við höfum ekki alltaf verið sammála, en við kunnum að vinna saman. Við samstillum okkar krafta og við leysum okkar verk og við munum ekki þurfa að standa í blaðadeilum um veisluhöld þegar og ef þessari stjórnarsamvinnu lýkur einhvern tíma. ( FrS: Það minnir á lifrarbandalagið.) Þess vegna þurfa þingmenn Sjálfstfl. ekki að hafa neinar áhyggjur af samvinnunni í þessari ríkisstjórn. Hún er og verður mjög góð og ég hef fundið það á ríkisstjórnarfundunum af samráðherrum mínum að það er eins og fargi sé af þeim létt að vera lausir við ráðherra Sjálfstfl. Og ég skil það reyndar ósköp vel þegar ég hlusta á ræðurnar tvær sem formaður og varaformaður Sjálfstfl. hafa flutt hér vegna þess að það virðist greinilegt að þeir hafi ekki einu sinni vitað hvað var að gerast á þeirra eigin vettvangi.
    Það er alveg rétt að í júní var sett fram spá á sama grundvelli og gerð var í upphafi ársins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur hér lýst eðlilega. Það vissu það flestir sem vildu vita þá að líkurnar á því að þetta gengi eftir voru ekki alveg öruggar og á því var hægt að hafa ýmsar skoðanir. Mér tókst t.d. þá í júní og hafði ég þó ekki aðgang að gögnum ríkisstjórnarinnar að draga upp aðra mynd af þessari þróun og um það er til vitnisburður í fjölmiðlum frá þeim tíma. Það er bara eins og út úr kú þegar þrír ráðherrar Sjálfstfl. í síðustu ríkisstjórn, og vantar þá bara hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, koma hingað í ræðustólinn og segjast ekki hafa vitað neitt um þetta í byrjun septembermánaðar. Menn sem hafa svo

takmarkaða vitneskju um gang þjóðmála eiga auðvitað ekki að bjóða sig fram til að stýra ríkisstjórnum, varla til að sitja í þeim.
    Herra forseti. Ég mun við eðlilegt tækifæri greina hv. Alþingi frá niðurstöðum af þróun ríkisfjármála á þessu ári. Það verður auðvitað ánægjulegt að heyra ráðherra Sjálfstfl. deila við samstarfsmenn sína í fyrrv. ríkisstjórn. Það mun auðvitað gerast hér af og til í vetur og verður skemmtan fyrir okkur hin. En ég endurtek það: Mér fannst það ekki vera tilefni utandagskrárumræðu hér að fara upp með málin eins og formaður Sjálfstfl. gerði, fyrst og fremst til þess að reyna að halda áfram í ræðustól Alþingis blaðadeilum sínum við formann Alþfl. að honum fjarstöddum.