Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Ég þakka, herra forseti, að fá tækifæri til að gera þessa örstuttu athugasemd. Vegna síðustu orða hv. þm. Þorsteins Pálssonar vil ég endurtaka það sem ég hef þegar sagt í dag: Ég mun gera Alþingi grein fyrir niðurstöðum í ríkisfjármálum og efnahagsmálum á þessu ári þegar þær liggja fyrir og við þær kringumstæður í þinginu að allir hv. þm. geti tekið þátt í þeirri umræðu með eðlilegum hætti en ekki hálftíma utandagskrárumræðu sem hv. þm. Þorsteini Pálssyni þóknast að efna til þar sem aðeins hluti þm. er viðstaddur og þeim er skammtaður tveggja mínútna umræðutími. Efnið er það stórt, er það viðamikið og felur í sér það ítarlega lýsingu á þessu ári að það er ekki sæmandi Alþingi að vera að meðhöndla það hér við þau skilyrði sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson vill meðhöndla það. Þess vegna hef ég kosið að gera Alþingi grein fyrir þessum málum við aðrar og eðlilegri kringumstæður.