Ríkisábyrgð á launum
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Herra forseti. Ég kem hér til að taka undir þetta frv. sem hv. þm. Lára V. Júlíusdóttir og Jón Sæmundur Sigurjónsson hafa lagt fram. Ég tel það mikið réttlætismál að þetta verði lagað í núgildandi lögum. Það er alveg ófært að launþegar þurfi að bíða lengi eftir launum sínum, en eins og fram hefur komið í máli flm. geta liðið vikur og mánuðir frá því að fólk missir starf þar til það fær laun sín greidd. Ég vil þó benda á að nú stendur til að skerða tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs verulega, núv. ríkisstjórn hefur áform uppi um það með bráðabirgðalögum þeim sem hún hefur sett að skerða framlög ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég vona þó að sjóðnum verði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar. Að vísu er ekki ætlast til að það fari neitt meira úr sjóðnum þótt þessi breyting verði samþykkt, heldur að greitt verði fyrr út en nú er. Ég vona að skerðing sú sem fyrirhuguð er hafi ekki áhrif á það sem sjóðnum ber að greiða til launafólks.