Jöfnun á námskostnaði
Miðvikudaginn 19. október 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft mjög þörfu máli og tel að það sé meira en tímabært að þessi endurskoðun eigi sér stað og tekið verði tillit til breyttra aðstæðna. Það er vitað að í nútímaþjóðfélagi mun henda flesta að þurfa nokkuð oft að skipta um starf á lífsleiðinni. Fyrir nokkrum árum heyrði ég þá tölu að það mætti gera ráð fyrir því að menn gerðu það þrisvar. Ég gæti vel trúað því að það væri orðið úrelt, það væri oftar. Og að mínu viti er fyrsta skilyrðið til þess að hægt sé að vinna að meiri jöfnuði, bæði milli einstaklinga og milli kynjanna, að jafna möguleikana til náms. Vissulega vita það allir sem hafa fengist við kennslu að ástæðurnar fyrir því að nemendur ljúka ekki námi geta verið margvíslegar. Í sumum tilfellum eru það fyrst og fremst heimilisástæður viðkomandi nemenda sem hafa gert þeim ómögulegt að ljúka náminu. Vandamálið hefur sem sé ekki verið það að þeir væru af guði gerðir ekki með gott upplag til náms heldur hitt að aðstaðan heima fyrir gerði þeim ekki kleift að stunda sitt nám í barnaskóla t.d.
    Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Ég stóð fyrst og fremst upp til þess að lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill.