Smíði skuttogara fyrir Marokkó
Miðvikudaginn 19. október 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er allstórt í sniðum og ég ætla ekki að fara út í einstaka þætti þess, enda hef ég ekki kynnt mér það umfram það sem fram hefur komið í fjölmiðlum og hér í umræðunni í dag, en ég geri hér ekki athugasemdir við þá niðurstöðu stjórnvalda sem fyrir liggur á þessu stigi varðandi þetta sérstaka verkefni.
    Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs var að ræða mál sem þessu tengist lítillega, en það er staða íslenska skipasmíðaiðnaðarins og samskipti annarra atvinnugreina við skipasmíðar í landinu og þátt stjórnvalda í þeim efnum. Ég hafði óskað eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. væri hér við þessa umræðu sem snertir hans svið og ég vildi víkja örfáum orðum að mikilvægum þætti sem fram kom í hans máli. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að kanna hvort hæstv. iðnrh. er í húsinu.)
    Virðulegur forseti. Á meðan ég bíð eftir nærveru hæstv. ráðherra vildi ég koma því hér á framfæri sem fyrir liggur sem mat Félags dráttarbrauta og skipasmiðja og raunar samtaka sem heita Landssamband iðnaðarmanna, sem Félag dráttarbrauta og skipasmiðja er aðili að, varðandi verkefnastöðuna í skipasmíðaiðnaðinum sérstaklega.
    Að minni beiðni fékk ég yfirlit frá Landssambandi iðnaðarmanna, dags. 28. ágúst sl., varðandi stöðu í ýmsum greinum iðnaðar hérlendis, þar á meðal í málm- og skipasmíðaiðnaði, og um það segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Óþarft er að orðlengja um stöðu skipaiðnaðarins. Nýsmíðar hafa sem kunnugt er verið sáralitlar en atvinna í iðnaðinum hefur hins vegar að verulegu leyti byggst á stærri verkefnum við breytingar skipa ásamt viðhalds- og viðgerðarverkefnum. Nú hefur sem kunnugt er mjög mikið af verkefnum við íslensk skip verið unnið erlendis að undanförnu, bæði nýsmíði og breytingar. Með samdrætti í sjávarútveginum er hins vegar allt útlit fyrir að dragi úr fjárfestingu í stærri breytingaverkefnum. Í þessari stöðu er iðnaðinum því nauðsynlegra en ella að sem flest verkefni verði unnin innan lands. Meðal þeirra þátta sem ráða munu því hvort svo verður er hvernig tekið verður á fjármögnun breytingaverkefna í lánsfjárlögum næsta árs, þ.e. hvort Byggðasjóði verður tryggt fjármagn til að styðja við að verkefni verði unnin hér innan lands.``
    Síðan vísar Landssamband iðnaðarmanna í yfirlit um verkefnastöðu fyrirtækja í samtökum Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, en það yfirlit er dags. 15. maí sl., og ég vil draga upp þessa mynd með því að vitna hér í upphafsorð þess yfirlits án þess að fara út í verkefnastöðu einstakra stöðva sem rakin eru í þessu erindi. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Eins og oft áður er nú mikil óvissa um verkefni í íslenskum skipasmíðastöðvum. Á síðustu missirum hefur verið mjög mikið um útflutning á verkefnum, ekki bara nýsmíðaverkefnum og stærri endurbóta- og breytingaverkefnum, heldur færist nú mjög í vöxt að minni viðhalds- og viðgerðarverkefni eru falin

erlendum aðilum. Jafnframt ber á því í æ ríkara mæli að íslenskum skipasmíðastöðvum er ekki gefinn kostur á að bjóða í verkefni. Er óhætt að fullyrða að samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjunum hafi ástandið sjaldan eða aldrei verið jafnslæmt og nú. Það kemur m.a. fram í því að starfsmönnum hefur fækkað verulega að undanförnu og eru nú um 10% færri en um áramótin 1986--1987 og jafnframt því að stöðvarnar hafi fæstar trygg verkefni langt fram í tímann.
    Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun um fjárfestingu í fiskiskipum árin 1986 og 1987 kemur fram að hlutur innlends skipaiðnaðar hefur farið minnkandi. Á árinu 1986 var hlutdeild innlends skipaiðnaðar miðað við verðmæti um 54% árinu 1986, en á síðasta ári var markaðshlutdeildin komin í um 35%.``
    Ég held, virðulegur forseti og hæstv. ráðherrar, og hefði þá verið ástæða til að beina orðum sínum til ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn varðandi þessa stöðu alla, að stjórnvöldum hljóti að vera mikið umhugsunarefni sú staða sem blasir við í þessari grein almennt séð og það óháð því sem hefur verið að gerast í sambandi við svonefnt Marokkóverkefni í nýsmíðum fiskiskipa. Það er mjög eðlilegt að aðilar í skipasmíðaiðnaði leiti annarra fanga þegar þannig er spilað úr heimamarkaðnum, sem ég kalla svo, í sambandi við viðhald og breytingar á íslenska fiskiskipaflotanum. Það er ekkert smáræði þegar markaðshlutdeild í iðngrein eins og þessari þar sem starfar fjöldi manna, ekki bara málmiðnaðarmenn heldur einnig rafiðnaðarmenn og margir fleiri, þegar markaðshlutdeildin fellur milli ára úr 54% niður í 35%. En þetta er ekkert einsdæmi varðandi þróun í iðngreinum hér innan lands. Þar blasir við alveg hrikalegt dæmi á undanförnum árum hvernig markaðshlutdeild innlends iðnaðar hefur hríðfallið frá ári til árs undir forustu Sjálfstfl. í iðnrn. sem hefur horft aðgerðarlaus á þessa hluti, hrörnun íslensks iðnaðar án þess að þar væri tekið á með nokkrum marktækum hætti. Er ég þá ekki að biðja um neina ríkisforsjá í iðnaðarmálum heldur eðlilega hagsmunagæslu varðandi
atvinnutækifæri í landinu, varðandi þróun í aðalatvinnugreinum okkar. Ég ætla ekki að taka tíma til þess að fara að rekja það nánar, en við hljótum að ræða þessi mál betur hér á hv. Alþingi, sem nú er hafið, þó síðar verði.
    Síðan er það vegna þess sem kom fram í ræðu hæstv. iðnrh., athyglisverðri ræðu sem hæstv. ráðherra flutti. Hann vék að stöðunni í hinni alþjóðlegu samkeppni. Hæstv. ráðherra var mjög beinskeyttur í sínu máli í þeim efnum og tók skipasmíðaiðnaðinn sem dæmi og þá tilfærslu verkefna í þessari grein sem orðið hefur milli norðurs og suðurs. Hann skoðaði þetta sem kallað er á erlendu máli ,,glóbal`` eða út frá heimssýn, sem hæstv. ráðherra leit til þessara mála og það met ég. Ég tel það vera mjög gott að við athugum stöðu okkar atvinnugreina út frá heimsmyndinni eins og við metum hana og hún virðist

vera á hverjum tíma.
    Hæstv. ráðherra gat um stöðuna varðandi fríverslun eða réttara sagt hvernig troðið er á ákvæðum fríverslunar í sambandi við skipasmíðaiðnað. Það væri þörf á því fyrir íslensk stjórnvöld að athuga það með kannski ögn meiri ákveðni öðru hvoru hvernig viðskiptaþjóðir okkar og grannþjóðir, Norðurlandaþjóðir og fleiri ganga yfir ákvæði fríverslunar með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gat um varðandi skipasmíðaiðnaðinn, en án þess því miður að íslensk stjórnvöld hafi brugðist við með eðlilegum hætti til þess að verja sína hagsmuni og íslenskan rétt í þeim efnum með því að taka á innflutningi frá þessum löndum og svara þá í sömu mynt. Ég orðaði það hér á árum áður í samtölum við menn og hér úr þessum ræðustóli, þegar ég átti að fylgjast með iðnaðarmálum í þessu landi af hálfu stjórnvalda, að hér væru menn oft og tíðum kaþólskari en páfinn, hér stæðu menn ekki á réttinum og segðu eitt skal yfir alla ganga. Ég met sannarlega viðleitni sem hefur verið í gangi hjá einstökum hv. alþm. á alþjóðavettvangi til þess að fá stöðuna leiðrétta, t.d. í sambandi við fiskútflutning og samkeppni um fiskafurðir sem hafa verið utan við fríverslunarákvæðin fram að þessu, sem hafa ekki verið þáttur í hinni alþjóðlegu fríverslun. Ég nefni hv. þm. Kjartan Jóhannsson sem hefur sýnt einbeitta og ágæta framgöngu í því máli ásamt fleiri hv. þm. sem hafa haft tök á að lyfta því máli eða reisa það merki og reyna að þoka fram okkar hagsmunum í þeim efnum í alþjóðasamtökum. En íslensk stjórnvöld, og þar er það auðvitað viðskrn. íslenska sem á að horfa til með málum, hafa ekki verið mjög djarftæk í því að verja okkar hag í þessum efnum á liðnum árum og lít ég nokkuð langt til baka eins og réttmætt hefði verið til þess að verja hagsmuni innlends iðnaðar.
    Síðan er það þetta með alþjóðlegu verkaskiptinguna. Hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson er nýsestur í stól iðnrh. og ég óska honum alls velfarnaðar þar en hann tekur við slæmu búi. Hann tekur við innlendum iðnaði í hálfgerðum rústum eins og gildir raunar um annað atvinnulíf í þessu landi sem er í raun strand, undirstöðuatvinnuvegir í landinu eru í raun strand ef dæmin hefðu verið gerð upp þegar skipti urðu í ríkisstjórn landsins. Ég held ég hafi séð það fljúga fyrir hjá hæstv. núv. forsrh. að menn hafi aldrei verið jafnnærri bjargbrúninni, en það virtist ekki halda vöku fyrir öllum í fyrrv. ríkisstjórn að vita af þeirri brún á næsta leiti. Hafa þó stundum þeir flokkar, sem þar voru saman í sæng, viljað telja sig gæslumenn atvinnurekstrar á Íslandi, en atvinnulífið í landinu hefur aldrei verið nær bjargbrúninni en undir stjórn þessara manna, Sjálfstfl. í forsæti.
    Hæstv. iðnrh. hann ræðir um iðnaðarmálin út frá heimsviðhorfum, út frá heimssýn. Og nú hlýtur hæstv. ráðherra að fara yfir málin áframhaldandi út frá þeirri sýn sem hann lagði sem mælistiku í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn. Ég er ekkert að halda því fram að hann hafi komist að rangri niðurstöðu varðandi það verkefni sem við ræðum hér. Menn skyldu hins vegar

gæta að sér að alhæfa ekki of mikið, draga ekki hlutina upp með of einföldum dráttum hvað þetta snertir. Ef sú röksemdafærsla réði að það eigi að láta hina alþjóðlegu samkeppni algjörlega ráða ferðinni stæði kannski heldur lítið eftir af innlendum iðnaði þegar upp væri staðið.
    Ég held að í skipasmíðaiðnaðinum sé t.d. mynd sem er ekki svona einföld eins og skilja mátti af hæstv. ráðherra. Spurningin hlýtur að vera: Ætlum við ekki að reyna að byggja upp eða viðhalda iðnaði í sambandi við skipasmíðar á Íslandi til þess að sinna hér margháttuðum verkefnum varðandi viðhald okkar fiskiskipaflota, varðandi breytingar á okkar fiskiskipum, jafnvel varðandi nýsmíði varðandi ákveðnar gerðir fiskiskipa ef hagkvæmt reynist? Það er ekkert einfalt að fara með flotann til Singapore til viðhalds og viðgerða, það er ekkert sjálfsagt mál. En ef verið er að tala um réttlæti í þessum efnum og alþjóðlega samkeppni skulu menn gæta þess að búa þannig í haginn fyrir fyrirtækin hvað snertir aðbúnað, hvað snertir fjármálalega fyrirgreiðslu, að reynt sé að tryggja að þau sitji við sama borð og keppinautarnir. Ég tel það mjög eðlilegt að reynt sé að hafa aðhald í þessum efnum, að það gangi ekki sjálfkrafa án athugunar hvert verkefnum er beint í sambandi við innlendan fiskiskipaflota. Ég reyndi hér á árum áður að ná samstöðu um það að gætt væri
heildarhagsmuna í þessum efnum. Það er býsna margt sem togar skipin okkar til útlanda til viðhalds, ýmislegt fleira en hagkvæmnisjónarmiðin ein og ætla ég ekki að gera það sérstaklega að umtalsefni.
    En ég hvet hæstv. ráðherra til þess að greina nánar þessa heimsmynd sem hann vék að í sinni ágætu ræðu en gæta þess jafnframt að hún kann að vera nokkuð flókin og það er margs að gæta áður en upp er staðið. Við þurfum að halda vöku okkar. Það er að þrengja að í íslensku atvinnulífi að okkur er sagt. Við þurfum að gæta að atvinnunni í landinu og ekki af gáleysi flytja út verkefni og atvinnutækifæri, sem svo eru kölluð, til útlanda að þarflausu ef rétt er á haldið.