Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 25. október 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Í sambandi við bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar er kannski rétt að velta því fyrir sér að það er eitthvert ólán okkar Íslendinga að nánast allar efnahagsráðstafanir eru gerðar með bráðabirgðalögum. Það er eins og öll stjórnun efnahagsmála á Íslandi fari fram á þann hátt að ríkisstjórnir, í miklu bráðræði með allt í kaldakoli í kringum sig, setja bráðabirgðalög. En sjaldnast gefast tækifæri til þess á hinu háa Alþingi að ræða ástand mála í ró og næði og komast að skynsamlegri niðurstöðu með eðlilegri lagasetningu. Þetta ástand hefur varað hér um árabil, þ.e. að nánast öll stjórnun efnahagsmála fer fram með þessum hætti. Það er mjög miður að svona skuli vera komið fyrir okkur. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að í nágrannalöndunum er ekki gripið til bráðabirgðalagasetningar nema í einstaka tilvikum þegar nánast er ekki um aðrar leiðir að ræða. En ég held að nágrannaþjóðir okkar noti sér þessar heimildir miklu, miklu sjaldnar en við gerum.
    Segja má að bráðabirgðalögin sem hér liggja fyrir hv. Ed. séu kjarni þess stjórnarsáttmála sem gerður var við stjórnarmyndunina í septembermánuði sl. og má líta á efnisinnihald bráðabirgðalaganna sem aðalatriði þeirra aðgerða og þeirra hugmynda sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um.
    Borgfl. dróst skamma stund inn í þessar stjórnarmyndunarviðræður á sínum tíma. Það gerðist með þeim hætti að hæstv. forsrh. notfærði sér þegar Alþb. brá á leik og hélt til fundar, og voru þar af leiðandi ekki viðstaddir stjórnarmyndunina, að þá stalst hann til þess að boða fulltrúa Borgfl. til viðræðna til þess að hlýða okkur yfir og segja okkur frá því hvað væri að gerast. Ég hef tíundað þetta þannig að Alþb. tók þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum í eina sjö daga og sjö nætur, en fulltrúar Borgfl. tóku þátt í þessum stjórnarmyndunarviðræðum í sjö klukkutíma. Í sjö klukkutíma samfellt þjörkuðum við, fulltrúar Borgaraflokksins, í þessum stjórnarmyndunarviðræðum um atriði sem snerta hag fólksins í landinu. Um atriði sem skipta máli fyrir lágtekjufólkið í landinu, um ýmis atriði sem skipta afkomu okkar allra máli.
     Í sjö daga og sjö nætur virðist mér að fulltrúar Alþb. hafi hins vegar talað um allt annað, hluti sem varða launafólkið í landinu engu og skipta nánast engu máli fyrir afkomu og hag fólksins sem hér býr. Þeir körpuðu og eyddu ómældum tíma í að fjalla um það að ekki mættu fara fram neinar hernaðarframkvæmdir á vegum varnarliðsins hér á landi. Eins og öllum er kunnugt endaði það þannig að ekki skyldu settar í gang neinar nýjar hernaðarframkvæmdir á þessu kjörtímabili. Þetta skiptir nánast engu máli vegna þess að varnarliðsframkvæmdirnar sem nú eru í gangi og halda áfram eru svo umfangsmiklar að þeim verður hvergi nærri lokið fyrir lok þessa kjörtímabils. Þannig var þetta hlutur sem skipti nánast engu máli í þessu samhengi. Annað sem Alþb. lagði líka áherslu á í

stjórnarmyndunarviðræðunum var að fá með öllum ráðum stöðvað þær hugmyndir að álverið í Straumsvík yrði stækkað. Það tókst að vísu ekki nema til hálfs því að það er óljóst í stjórnarsáttmálanum hvernig á því máli skuli gripið. Ég nefni þetta tvennt sem dæmi til þess að sýna ljóslega hver afstöðumunurinn er milli þessara tveggja flokka.
    Við lögðum á það mikla áherslu, þegar við tókum þátt í viðræðunum þessa sjö klukkutíma aðfaranótt sunnudags, einhverja síðustu dagana í september, að kjarasamningar og skerðing þeirra á þann hátt sem reyndin er orðin, þ.e. að laun skulu fryst til 15. febr., væri ekki með neinu móti ásættanleg nema launþegar fengju eitthvað í staðinn. Við kröfðumst þess að á móti fengju launþegar matarskattinn að verulegu leyti felldan niður ef ekki alveg. Aðeins með þeim hætti töldum við að hægt væri fyrir launþegahreyfinguna í landinu að fallast á að laun yrðu fryst með þessum hætti. En án þess að launþegar fengju neitt í staðinn, eins og nú virðist vera reyndin, er ekki með nokkru móti hægt að sætta sig við þá kjaraskerðingu sem það ákvæði í bráðabirgðalögunum, að laun verði fryst til 15. febr., gerir að verkum.
    Það er með ólíkindum hvað viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar hafa verið máttlaus við þessari kjaraskerðingu og vakna upp ýmsar spurningar í því sambandi. En ég spái því að þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur og launasamningar verða aftur frjálsir, þá verði hér mikil ketilsprenging þannig að verðlag mun stefna nánast lóðrétt upp til himinsins á nýjan leik. Verðbólgan kemst á fullt skrið aftur og fróðlegt verður að sjá hvernig stjórnun efnahagsmála fer þá fram. Ef ríkisstjórnin lifir þær hremmingar af, sem ég tel nú harla ólíklegt, er alveg ljóst að næsta ríkisstjórn mun enn á ný þurfa að grípa til einhvers konar bráðabirgðalaga næsta sumar til að reyna að lappa upp á ástandið eins og það verður þá orðið.
    Í þessu sambandi ræddum við mikið um svokallaða lánskjaravísitölu og áhrif hennar á verðlag. Ég fer ekkert í launkofa með að það er skoðun okkar í Borgfl. að lánskjaravísitalan sé einn af hinum ýmsu verðbólguvöldum sem eru í efnahagskerfinu. Lánskjaravísitalan skrúfar upp verðlag með þeirri sjálfvirku
tengingu sem er milli fjárskuldbindinga og lánskjaravísitölu, sem sjálfsagt og eðlilega skilar sér beint út í verðlagið hjá öllum þeim fyrirtækjum sem þurfa að búa í slíku efnahagslegu umhverfi. Þess vegna töldum við alveg nauðsynlegt að aftengja lánskjaravísitöluna við lok verðstöðvunartímabilsins til þess að verðstöðvunin endi ekki með þeirri ketilsprengingu sem ég hef hér verið að spá fyrir um.
    Í sjálfu sér gátum við fallist á ýmsar þær hugmyndir og tillögur sem voru til viðræðu í stjórnarmyndunarkabarettinum sem fór fram hér í septembermánuði. Það var alveg ljóst að útflutningsatvinnuvegirnir voru þá nánast komnir í þrot og það varð eitthvað að gera. Hins vegar get ég tekið undir það með síðasta ræðumanni, hv. 14. þm. Reykv., að það var orðið það stutt þangað til Alþingi

kæmi saman að eflaust var vel hægt að bíða með að gera ýmsar þær ráðstafanir sem lagðar eru til í bráðabirgðalögunum og leggja þær þá frekar fyrir Alþingi með venjulegum hætti.
    Atvinnutryggingarsjóðurinn er kannski aðalmál þessara bráðabirgðalaga fyrir utan kjaraskerðinguna og langar mig til að staldra aðeins við hann. Það sem við höfum fyrst og fremst við hann að athuga er sú mismunun sem kemur fram með Atvinnutryggingarsjóðnum, þ.e. hvaða atvinnugreinar eiga að fá aðstoð. Hér er skýlaust lagt til að aðeins sé um að ræða að veita aðstoð útflutningsatvinnugreinunum, þ.e. hinum hefðbundnu útflutningsatvinnugreinum sem eru í sjáavarútvegi, en iðnaður og sérstaklega samkeppnisiðnaður eru alveg skildir eftir útundan. Hún er afar einkennileg þessi afstaða ráðamanna til atvinnulífsins að iðnaðurinn og þá sérstaklega samkeppnisiðnaðurinn getur yfirleitt fengið að eiga sig. Hann má fara lönd og leið í huga þeirra sem hér fara með völd, bara ef við getum haldið lífi í fiskvinnslunni og sjávarútveginum. Auðvitað verður að halda lífi í fiskvinnslu og sjávarútvegi, það vitum við öll því að þetta er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. En hins vegar er sá vaxtarbroddur sem er í íslensku atvinnulífi ekki þar. Hann er fyrst og fremst í sambandi við ýmsar hugmyndir duglegra athafnamanna í iðnaði og í samkeppnisiðnaði. Það hefði ekki verið úr vegi að reyna að nota nú tækifærið og styrkja t.d. athafnamenn til dáða í útflutningi á iðnvarningi. En því miður virðist stefna í að iðnaður á Íslandi muni brátt leggjast af því mér heyrist skoðun ráðamanna vera sú að það sé í raun og veru allt í lagi þó að hér sé enginn iðnaður. Það er engu líkara þegar núverandi valdhafar ræða um málefni iðnaðarins sín á milli en að afstaða þeirra sé eitthvað með þessum hætti: Þetta eru einhverjir menn úti í bæ sem eru að reyna að burðast við að framleiða eitthvað. Þeir eru alltaf síkvartandi yfir því hvað rekstrarskilyrði séu óhagstæð, hvað vextirnir séu háir. Er ekki best að þeir hætti þessu einfaldlega og gerist almennir launþegar, leggi launin sín inn á banka og fái heldur vexti? Því að út á það virðist allt ganga, það er að fá nógu mikla vexti fyrir peninga sem eru geymdir í bönkum og hjá þessum nýju verðbréfasjóðum.
    Þá eru ýmis atriði í þessum lögum sem vert er að fara betur inn á svo að ég haldi áfram með sjálfan Atvinnutryggingarsjóðinn. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni með þá gagnrýni hvers vegna þurfti að stofna alveg nýjan sjóð til þess að veita fjármagni til atvinnuveganna. Ég var á sínum tíma ekkert sérlega hrifinn af því þegar Byggðastofnun var komið á fót og taldi hægt að leysa vandamál landsbyggðarinnar og atvinnuveganna með ýmsum öðrum hætti. En nú er Byggðastofnun orðin staðreynd og hún hefur komið sér upp ágætu starfsliði og fylgist mjög vel með atvinnufyrirtækjum víðs vegar um landið. Væri ekki miklu, miklu einfaldara að veita þessum fjármunum beint til Byggðastofnunar og fela henni að annast þá millifærslu sem hér er verið að stefna að?

    Það vakna upp ýmsar spurningar í sambandi við þá skuldbreytingu sem Atvinnutryggingarsjóður á að gangast fyrir. Þar er talað um að sjóðnum verði heimilt að taka við skuldabréfum fyrirtækja og í staðinn láta lánastofnunum þeirra í té skuldabréf sem sjóðurinn ábyrgist. Ég hef spurt sjálfan mig hvernig þetta geti gengið fyrir sig. Atvinnutryggingarsjóðurinn tekur væntanlega við skuldabréfum frá fyrirtækjum sem eru orðin svo illa stödd fjárhagslega að engin lánastofnun mundi láta sér detta til hugar að taka við slíkum skuldabréfum. Það hlýtur því að vera um að ræða algjörlega ónýtan pappír sem verða skuldabréf þeirra fyrirtækja sem fá skuldbreytingu með þessum hætti. Hins vegar á svo Atvinnutryggingarsjóðurinn að afhenda viðkomandi lánastofnun ný skuldabréf sem sjóðurinn sjálfur gefur út og á að bera ábyrgð á greiðslu þeirra með eignum sínum. En hvaða eignir á Atvinnutryggingarsjóðurinn? Hann fær að vísu verulega fjármuni til ráðstöfunar, en ég fæ ekki betur séð en allir þeir fjármunir séu í útlánum þannig að sjóðurinn á raunverulega ekkert nema útistandandi skuldir. Og þannig vaknar spurning: Eru þessi skuldabréf sjóðsins þess virði að lánastofnanir muni almennt vera ákafar í að fá þau og taka við þeim?
    Verðjöfnunarsjóður er efldur með nýrri lántöku og allt byggist þetta að sjálfsögðu á auknum erlendum lánum og auknum viðskiptahalla. Við lögðum til á
sínum tíma í kosningastefnuskrá Borgfl. að í stað þess að vera með verðjöfnunarsjóð í sjávarútvegi væri miklu nær að gefa fyrirtækjum í sjávarútvegi kost á því að mynda sveiflujöfnunarsjóði. Annaðhvort gætu fyrirtæki slegið sér saman um að mynda slíka sjóði eða gert það ein og sér. Ég minnist þess að í kosningabaráttunni var ég staddur á Ísafirði þar sem við ræddum um framlag og greiðslur fiskvinnslufyrirtækja á Ísafirði í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Þá kom það fram að frá Vestfjörðum höfðu runnið, að mig minnir, á milli 300 og 400 millj. í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, peningar sem höfðu runnið frá atvinnufyrirtækjum á Vestfjörðum suður til Reykjavíkur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins til ráðstöfunar þar. Þessari miðstýringu í íslensku atvinnulífi er mjög vel lýst með öllum þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til, en það er einmitt að safna öllum peningunum í sjóði hér í Reykjavík og skammta þá síðan út um landið eftir að stjórn og ráðamenn, sem eru allir hér fyrir sunnan, hafa vegið og metið stöðuna. Hvar eigi nú að hjálpa og hvar eigi að koma þessum peningum fyrir, hvar eigi að veita aðstoðina, í stað þess að láta þessa sjóði myndast í byggðarlögunum sjálfum og láta síðan heimamönnum eftir að ráðstafa þessum fjármunum beint þar sem þeir hljóta að geta fylgst miklu betur með því hvernig á að verja þessum fjármunum þannig að þeir skili sem mestum árangri. Það hefði verið einhver munur t.d. fyrir Vestfirðinga ef þessar 300--400 millj., sem voru greiddar suður til verðjöfnunarsjóðs, hefðu orðið eftir í bankakerfinu á Vestfjörðum og hægt hefði verið að lána þessa peninga eða veita þeim beint út í atvinnulífið á Vestfjörðum. ( Gripið fram í: Eru þeir

með sérstakt bankakerfi á Vestfjörðum?) Ja, það er önnur sorgarsaga, hv. þm., að íslenska bankakerfið er með þeim hætti að því er líka miðstýrt héðan úr Reykjavík. Bankarnir úti á landi hafa engin völd, enda skilst mér að þetta virki með þeim hætti að bankastjórarnir í hinum ýmsu útibúum ríkisbankanna verði að hringja suður og fá heimildir ef á að lána einhverjar upphæðir sem eru yfir 10--15 þús. kr. eða svo. Ég veit ekki hvað upphæðin er há núna, en hún er ekki mjög há.
    Örfá orð um vextina. Í sjálfu sér getum við fallist á að það verði að grípa til einhverra leiða til að lækka vexti í landinu því það er alveg ljóst að atvinnulífið hér getur ekki staðið undir því vaxtaokri sem hér hefur viðgengist upp á síðkastið. Það er að sjálfsögðu ekki alveg sama hvernig að því er farið, en ég vildi varpa því til hæstv. forsrh. að hann geri okkur grein fyrir því á eftir hvernig gengur að lækka vextina því mér skilst að það eigi fyrst og fremst að gerast með þeim hætti að Seðlabankinn í beinum samningum við viðskiptabankana hlutist til um að þeir lækki vexti. Væri gaman að fá stutta skýrslu um hvernig það mál stendur, hvernig hefur gengið að fá þessa ágætu viðskiptabanka og peningastofnanir til þess að lækka vextina. Það er mikið áhyggjuefni og væri efni í aðra umræðu hér hve vaxtamunurinn í bankakerfinu er mikill, þ.e. hvað bankakerfið er dýrt. Spurningin er hvort þar væri ekki hægt að grípa niður einmitt til þess að fá vextina lækkaða, þ.e. að gera bankakerfið hagkvæmara og koma á einhverri raunhæfri samkeppni í bankakerfinu til að minnka þennan vaxtamun.
    Að lokum þetta: Ef fer sem fer held ég að ég vilji ítreka að með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til er óhjákvæmilegt að verðbólgan mun geysast áfram af fullum krafti einhvern tímann á útmánuðum þegar verðstöðvunartímabilinu er lokið og kjarasamningar eru komnir af stað aftur. Það er ekki nokkur vafi á að launþegar munu reyna að sækja rétt sinn á nýjan leik þegar frystingu launa er lokið og samningar verða á ný lausir því þeir eiga svo sannarlega rétt á því að fá að einhverju leyti bætta þá kaupmáttarskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir. Þeir hafa nákvæmlega ekkert fengið í staðinn fyrir að taka það á sig að kaupmáttur launa hefur verið minnkaður og þessa launafrystingu sem hér er lögbundin. Þeir hafa ekkert fengið í staðinn. Það var þó lágmark að okkar viti að það hefði verið komið til móts við launþega með því t.d., eins og við lögðum til, að lækka matarskattinn. Þess vegna leyfi ég mér á þessari stundu að spá því að það verði erfitt ástandið hjá okkur á útmánuðum.