Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 25. október 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um staðfestingu á bráðabirgðalögum um fyrstu efnahagsaðgerðir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og hefur nú senn verið til í einn mánuð, sem hefur verið býsna viðburðaríkur tími út af fyrir sig þó hann hafi kannski ekki sætt eins miklum tíðindum alltaf og síðustu dagar fráfarandi ríkisstjórnar.
    Það sem var ljóst þegar ríkisstjórnin tók við var þetta:
    1. Atvinnulífið var að stöðvast. Fyrirtækjum víðs vegar um landið hafði verið lokað og gjaldþrot voru fleiri en nokkru sinni fyrr.
    2. Það var ljóst og hefur verið að skýrast síðustu daga og mun skýrast enn betur næstu daga að ríkissjóður var rekinn með stórkostlegum halla á þessu ári þrátt fyrir mikla tekjuöflun í upphafi árs, m.a. vegna þess að samdráttur hafði orðið í efnahagslífinu að öðru leyti.
    3. Það var ljóst að heimilin áttu af fyrrgreindum ástæðum og einnig öðrum við sérstakan vanda að etja og þegar menn spyrja svo að því: Af hverju stafar þessi vandi? Hvernig stendur á því að fyrirtækin, ríkissjóður og heimilin áttu við þennan vanda að stríða þrátt fyrir eitthvert mesta góðæri sem yfir þessa þjóð hefur gengið á undanförnum árum? þá hygg ég að svarið við því sé tvíþætt: Í fyrsta lagi tel ég að svarið sé að vextirnir, fjármagnskostnaðurinn, tóku allt of mikið til sín frá atvinnulífinu og frá heimilunum. Ég hygg að það sé ekki hægt að mæla því mót að sú ákvörðun sem tekin var, ég hygg á árinu 1984 eða 1985, um að hleypa vöxtunum svo að segja lausum hafi reynst mistök og þjóðarbúinu ákaflega dýr, sérstaklega undirstöðuatvinnuvegunum, sjávarútveginum alveg sérstaklega sem verður að treysta á lánsfé að verulegu leyti til síns rekstrar. Hin ástæðan fyrir þeim vanda sem ríkissjóður, fyrirtækin og heimilin áttu við að glíma liggur hins vegar í öðru: í raun og veru í stjórnleysi. Fráfarandi ríkisstjórn auðnaðist ekki að taka utan um heildarvandann í efnahagsmálum. Menn hafa skipst á skoðunum um það, sem áttu aðild að þeirri stjórn, hverjum þar hafi verið um að kenna. Ég hygg að það sé í raun og veru ákaflega ófrjó og gagnslítil umræða því mér heyrist að í grundvallaratriðum séu allir sammála um að ríkisstjórninni hafi ekki tekist sem skyldi að ná utan um vandann. Þetta held ég að séu meginástæðurnar fyrir þeim vandamálum sem við blöstu þegar síðasta ríkisstjórn fór frá og núverandi ríkisstjórn tók við.
    Þegar stjórnin tekur við er um þessi verkefni að ræða og þetta er það fyrsta sem hún gerir: Hún setur þessi bráðabirgðalög. Það sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í þessu sambandi varðandi afstöðu Alþb. eru sérstaklega samningsréttarmálin og kjaramálin. Um það er það að segja: Það var og er okkar skoðun í Alþb. að hér sé um að ræða grundvallaratriði og að það hefði verið skynsamlegra að reyna að taka á þessum hlutum öðruvísi. Samkomulag varð hins vegar um þetta eins og það birtist í þessum pappírum, þessu frv., þar sem er m.a. gert ráð fyrir því að

samningsskerðingartíminn er styttur og einnig kaupbreytingartíminn sem gert var ráð fyrir í hinum upphaflegu bráðabirgðalögum fráfarandi ríkisstjórnar. Þess vegna er alveg ljóst að þetta frv. út af fyrir sig kemur til móts við þau sjónarmið sem við höfum haft í þessum efnum og hv. 14. þm. Reykv. m.a. gerði grein fyrir áðan. Út af fyrir sig hygg ég að það hljóti að vera erfitt, bæði fyrir hann og fyrir mig og aðra slíka, að segja að hérna sé ekki um neinn árangur að ræða út frá hinum almennu baráttusjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar í landinu.
    Í öðru lagi benti hv. 14. þm. Reykv. á það, sem er mikilsvert þegar hann vitnaði í grein eftir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðing, flokksbróður minn, þar sem það kom fram að fjöldi vinstri manna í landinu vildi að vinstri stjórn yrði til og að flokkurinn færi í ríkisstjórn. Það er alveg hárrétt. Þessi þrýstingur var alveg augljós og hann kom fram t.d. í skoðanakönnunum fyrstu sólarhringana eftir að stjórnin var mynduð. Auðvitað er það svo, eins og hv. 14. þm. Reykv. veit og allir þingmenn, að slík alemnn viðhorf, slík almenn hreyfing, hafa auðvitað áhrif á úrslitaákvörðun flokka um hvort þeir ganga til myndunar ríkisstjórnar eða ekki. Mér er engin launung á því að þessi víðtæka hreyfing hafði a.m.k. áhrif á mig og minn flokk hygg ég allan í þessu sambandi. Hitt er svo alveg ljóst og það viðurkenni ég fúslega: Það er ekki auðvelt fyrir verkalýðsflokk eða vinstri flokk að taka þátt í stjórnarsamstarfi við þær aðstæður sem nú er við að glíma í íslenska þjóðfélaginu. Það er um að ræða veruleg efnahagsleg vandamál í atvinnulífinu og það verður að vera fyrsta verkefni stjórnarinnar að taka á þeim vandamálum. Það er grundvallaratriði.
    Ég vil líka segja það hér eins og ég hef iðulega sagt áður: Það er lítið gagn að verkalýðsflokki fyrir verkalýðinn í landinu nema þessi sami verkalýðsflokkur þori að takast á við vandamálin. Félagslega sinnaður flokkur, verkalýðsflokkur, sem flýr af hólmi þegar vandamálin koma upp er einskis virði fyrir hið vinnandi fólk í landinu. Það er meginmál sem menn þurfa að hafa í huga og ég veit að margir hér gera.
    Spurningin er svo líka um það, virðulegi forseti, hvað aðrir hefðu gert. Var það þannig að hv. þm. Sjálfstfl., Borgarafl. eða Kvennalistans væru með hugmyndir sem í grundvallaratriðum tækju allt öðruvísi á vandanum en hér er verið að ræða um? ( HBl: Já.) Það er rangt, hv. þm. Halldór Blöndal. Sjálfstfl. gerði engar tillögur aðrar en þær að setja ríkissjóð enn frekar á hausinn. Það var í rauninni ekkert annað sem hann var uppi með. Síðan var hann að vísu með vissar tilfærsluhugmyndir í hagkerfinu, en ég ætla að koma að því nánar á eftir að hverju þær lutu.
    Nei, staðreyndin er svo, virðulegi forseti, að í fyrsta lagi er okkur stuðningsmönnum þessarar stjórnar fullkomlega ljóst að hér er alls ekki um hinn endanlega fullkomleika að ræða. Okkur dettur ekki í hug að halda því fram. En ég bið aðra að líta í eigin

barm og spyrja: Voru þeir með lykilinn að Paradís í höndunum og ef þeir voru það, af hverju var hann þá ekki notaður? Vegna þess að t.d. Sjálfstfl. hafði haft stjórnaraðstöðu í hálfan áratug til að nota þennan lykil, til að leysa vandann, en það tókst því miður ekki betur til en þetta, m.a. og fyrst og fremst vegna þess að menn voru haldnir af þessari frjálshyggjutrú, vextirnir, fjármagnið átti að fá að vera frjálst hvað sem öllu öðru liði. Það var vitlaust og það eru snillingar eins og hv. þm. Matthías Bjarnason að viðurkenna í dag og er hann maður að meiri fyrir vikið.
    Það sem menn ræða um í sambandi við þessi margumtöluðu efnahagsvandamál, sem er alltaf verið að tala um í þinginu og hefur verið talað um hér eins lengi og ég man eftir mér og mikið lengur, er hvernig á að leysa þetta og þar er í grundvallaratriðum um að ræða þrjár leiðir. Ein heitir millifærsla. Það er sú leið sem er farin hér. Það er tilfærsla á fjármunum. Það er rétt. Það er tilfærsla á fjármunum. Önnur heitir uppfærsla eða gengislækkun. Það er líka tilfærsla á fjármunum. Gerist hins vegar með allt öðrum hætti og kemur mikið verr við vinnandi fólk í landinu en millifærsluleiðin gerir. Síðan er það niðurfærsla sem er leið sem líka er hægt að fara en getur einnig komið mikið verr við launafólk en millifærslan í þessu formi gerir. Þess vegna held ég að ekki sé hægt að gagnrýna þessa leið út af fyrir sig bara vegna þess að þetta sé millifærsla á fjármunum. Það er auðvitað það sem pólitíkin gengur alltaf út á. Það er það sem hv. þm. sem hafa verið stuðningsmenn stjórna --- mér liggur við að segja áratugum saman með nokkrum hléum --- hafa alltaf verið að gera, færa til peninga. Spurningin er bara um á hvaða grundvelli það er gert og hvaða forsendur eru á bak við þær ráðstafanir.
    Ég ætla ekki að skattyrðast við menn um einstök efnisatriði. Mér fannst t.d. það athyglisvert sem hv. þm. Júlíus Sólnes sagði um lánskjaravísitöluna. Ég bendi á að það hefur verið um það rætt á vegum núverandi ríkisstjórnar að á því máli verði tekið með þeim hætti að hún verði tengd launum í auknum mæli. Ég segi hins vegar fyrir mitt leyti, herra forseti: Mér finnst þessi umræða um lánskjaravísitöluna oft hafa verið ákaflega ýkt. Lánskjaravísitalan, hvað er hún? Hún er hitamælir. Hún mælir í raun og veru það sjúkdómsstig þjóðfélagsins sem heitir verðbólga. Það verður að vera til svoleiðis mælir. Við læknum ekki sjúklingana með því að brjóta alla hitamæla í landinu eins og kunnugt er. Það verða að vera til einhverjir mælar. Þannig er það og það breytir engu þó að tölurnar séu svolítið mismunandi eftir því hvort við notum Fahrenheit eða Celsíus. Hvort tveggja er mælir, hvort tveggja er hiti. Ég held að menn þurfi að gera sér ljóst: Mælir hlýtur einhver að verða til, einnig í hagkerfinu. En það sem menn hafa verið að tala um í sambandi við lánskjaravísitöluna er aftur á móti að það væri æskilegt að ná því ástandi að hagkerfið væri með þeim hætti að það væri unnt að höggva á allar sjálfvirkar tengingar í hagkerfinu. Þar hafa menn verið að tala um sjálfvirkar tengingar launa við

verðlagsþróun, sjálfvirkar tengingar verðlags við eitthvað annað, sjálfvirkar tengingar á höfuðstól skulda og sjálfvirkar tengingar í verksamningum svo aðalþættirnir séu nefndir. Þetta er auðvitað það sem Finnar stóðu frammi fyrir fyrir allmörgum árum, sem oft hefur verið vitnað til, og ákváðu að banna þessar sjálfvirku tengingar. Það gera þeir í raun og veru eftir að hagkerfið hefur gengið í gegnum ákveðna efnahagslega meðferð, en í rauninni er það einnig þannig hjá þeim eins og öllum að það eru til einhverjar vísitölur sem mæla þróunina. Þannig liggur það.
    Það var einnig athyglisvert, fannst mér, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafði eftir Sigurði Helgasyni, bæjarfógeta á Seyðisfirði. Ég verð satt að segja að draga í efa að þetta sé rétt sem Sigurður Helgason heldur fram að hérna sé mönnum mismunað og brotið á jafnræðisreglunni. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ber það aðallega fyrir sig að stjórnarandstaða hafi ekki tök á því að koma að málum með eðlilegum hætti. Það er misskilningur vegna þess, í fyrsta lagi, að það er stofnun sem heyrir undir Alþingi, þ.e. Ríkisendurskoðun, sem á að annast endurskoðun reikninga Atvinnutryggingarsjóðs og á að geta fylgst með öllum ákvörðunum þess sjóðs. Það grundvallaratriði þingræðisins liggur hér fyrir. Einnig er það þannig að Byggðastofnun kemur nokkuð við sögu varðandi meðferð þessara mála eins og kunnugt er, bæði af reglugerð með þessum lögum og af lögunum sjálfum.
    Ég tel því út af fyrir sig að sæmilega sé fyrir þessum hlutum séð, en ég segi: Ég tel athugasemdir hv. 14. þm. Reykv. í þessu sambandi langt frá því að vera óeðlilegar. Ég tel að þær séu að mörgu leyti réttmætar miðað við það hvað hér er um mikla hagsmuni að tefla og leggur auðvitað áherslu um leið á það grundvallaratriði að vel verði farið með það vald sem mönnum er fært á grundvelli þessara bráðabirgðalaga, þannig að ég tók vel eftir þessu sem hv. 14. þm. Reykv. sagði og vil nefna það sérstaklega. Sömuleiðis það sem hann nefndi varðandi 24. gr. sem lýtur að vissum heimildum fyrir fjmrh. Ég segi: Auðvitað hlýtur hæstv. fjmrh. að setja almennar reglur í þessu efni og ekkert annað. Og það er auðvitað eins með þennan Atvinnutryggingarsjóð. Þar verða menn að setja almennar reglur. Það gengur ekki annað þegar um jafnmikla hagsmuni er að tefla. ( HBl: Hefur verið gengið úr skugga um að það sé þingmeirihluti fyrir þeirri skipan Atvinnutryggingarsjóðs sem er í bráðabirgðalögunum eða er það bara svona . . . ) Alþingi er að fjalla um málið, hv. þm., og Alþingi hefur að sjálfsögðu fullt frelsi í þeim efnum eins og jafnan fyrr og ég veit að hv. þm. hefur ævinlega lagt á það ríka áherslu sem stuðningsmaður ríkisstjórnar síðustu fimm ár að alþingismenn gætu um frjálst höfuð strokið. ( HBl: Er ekki fyrirmyndin sótt . . . ?) Ég kannast ekki við það, hv. þm., hvert hún er sótt. Hins vegar hygg ég að verið gæti að í einu og einu tilviki á síðasta hálfum áratug eða svo hafi hann tekið eitt og annað upp eftir Estrup hinum danska sem hann

sér nú kannski eftir, hv. þm., og hefði betur látið ógert á síðustu fimm árum. En það er svo annað mál. ( HBl: Svo það hefur kannski verið gert núna . . . ?) Ég kannast ekki við það, hv. þm. Annars væri það fróðlegt rannsóknarefni og við báðir sjálfsagt vel komnir í rannsóknum á þessu verkefni, jafnvel strax, ég tala nú ekki um þegar við eldumst og höfum öðlast enn meiri yfirsýn en við höfum nú þegar.
    Varðandi málið að öðru leyti, herra forseti, vildi ég leggja áherslu á að tilgangurinn með þessum bráðabirgðalögum og þessum aðgerðum öllum er tvíþættur. Hann er í fyrsta lagi sá að verja atvinnustigið í landinu, hann er að tryggja launafólki réttinn til atvinnu, og í öðru lagi að ná niður verðbólgunni þannig að þar sé um að ræða viðráðanlegar tölur á þeim grundvelli að atvinnulífið hafi verið tryggt með sæmilegum hætti og að verðbólgunni hafi verið náð niður. Á þeim grundvelli er síðan unnt að gera sér vonir um að við náum hagkerfinu og þjóðarbúinu inn í betri efnahagslegar aðstæður í heild. Ég held að það sé mjög mikilvægt atriði, einnig frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar. Ég held að það sé öllum skiljanlegt að það er mjög erfitt fyrir verkalýðshreyfinguna að ná viðspyrnu til baráttu og átaka öðruvísi en að um sé að ræða sæmilega heilbrigt efnahagslíf. Ég held að þetta sé meginatriði sem menn þurfa að átta sig á.
    Ég vil síðan segja þetta að lokum, herra forseti: Eins og staðan var var ekkert annað að gera. Og hvað sem menn segja hér um það að þeir gagnrýni þetta og séu á móti hinu þá er það nú einu sinni þannig að allt eru þetta reyndir stjórnmálamenn sem hér hafa talað og sitja hér í þessari virðulegu deild sem er nú betri deild hússins eins og kunnugt er. Menn vita hvernig verkin eru. Sum eru vond, sum eru erfið, önnur góð, en það var ekkert annað að gera. Þessi ríkisstjórn var mynduð á elleftu stundu eftir að önnur hafði gefist upp á verkunum.