Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 25. október 1988

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það er stórt nafn Hákot, það er mjög stórt nafn Hákot. Hv. 4. þm. Vestf. --- Hvar skyldi sá virðulegi þm. vera? Kannski af því að maður er að vitna í virðulegan þm. þó að ég sé ekki neitt að afflytja hans mál, en við skulum láta það eiga sig. ( Gripið fram í: Geymdu það bara.) Nei, ég mun byrja á þessu.
    Hv. 4. þm. Vestf. Þorv. Garðar Kristjánsson lét þess getið í hv. deild sl. þriðjudag við upphaf umræðnanna um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar að efnahagsaðgerðir, það væri mjög stórt orð. Í framhaldi af því sagði þm., með leyfi forseta: ,,Oftar en ekki hafa svokallaðar efnahagsaðgerðir haft takmarkað gildi, verið ómarkvissar, fálmkenndar og árangurslausar ef þær hafa ekki gert illt verra.`` Ég held að það hafi verið vegna þessarar setningar hv. þm. sem ég ákvað að taka hér til máls í þessari umræðu. Þessi ábending hv. 4. þm. Vestf. eru orð í tíma töluð, nú við þessa umræðu og ekki síst eftir ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. og hæstv. forsrh. Út frá þeirra ræðum hefði verið hægt að álykta sem svo að það ástand efnahagsmála sem kallað hefur á þessar efnahagsaðgerðir hafi komið með einni af haustlægðunum núna í september. Ég taldi víst að hæstv. forsrh. mundi ekki láta hjá líða, um leið og hann mælti fyrir neyðaraðgerðum stjórnar sinnar, bráðabirgðalögunum sem gefin voru út 28. sept. sl. af brýnni nauðsyn, að skýra frá því af hverju fyrri efnahagsaðgerðir hefðu ekki skilað árangri, af hverju efnahagsstjórnun ríkisstjórnar hans 1983--1987 og ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sem hæstv. forsrh. stóð að, leiddi til þeirrar stöðu nú að fjölmörg fyrirtæki eru á gjaldþrotsbarmi, ríkissjóður hefur verið rekinn með margra milljarða halla hvort sem fjmrh. hefur heitið Jón Baldvin eða Þorsteinn Pálsson og stórfelld byggðaröskun stendur yfir og blasir við.
    Hvernig stóð á því að hæstv. forsrh. gerði ekki smáúttekt á efnahagsstefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar? Getur það verið að það sem gert var í efnahagsmálum á þessu tímabili hafi fallið undir skilgreiningu hv. 4. þm. Vestf. sem ég las upp hér áðan? Hún var svohljóðandi: ,,Oftar en ekki hafa svokallaðar efnahagsaðgerðir haft takmarkað gildi, verið ómarkvissar, fálmkenndar og árangurslausar ef þær hafa þá ekki gert illa verra.`` Þetta er nefnilega þannig: Efnahagsstefna fyrri ríkisstjórna var árangurslaus og gerði í mörgum tilfellum illt verra eins og 4. þm. Vestf. sagði. Nú stöndum við frammi fyrir því að reyna að bjarga því sem bjargað verður eftir rúmlega fimm ára samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl.
    Ég vona að hv. þm. hafi fylgst vel með ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég fékk hana í afriti hér hjá þingskrifurum. Hún reyndist vera 40 blaðsíður. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þá ræðu. Í upphafi vakti hv. þm. fyrirheit um að hann ætlaði í ræðu sinni að fara vítt um sviðið og vegna þess þyrfti hann að fá hér í deildina til að fylgjast með málflutningi sem flesta ráðherra og jafnvel þm. úr hv. Nd. Hann nefndi það meira að segja að það þyrfti að draga þessa fyrri

samstarfsmenn hans til vitnis --- hann nefndi þá reyndar ekki fallegu orði, ég ætla ekki að endurtaka það hér. ( KP: Kóna.) Ja, það var ekki ég sem sagði það, það var hv. þm. af Vestfjörðum. ( KP: Nei, það var hv. 2. þm. Norðurl. e.) Já, hann sagði það en það var endurtekið nú af hv. þm. Karvel Pálmasyni en vitnaleiðslurnar urðu frekar takmarkaðar um liðinn tíma. Mest var ræða þm. fullyrðingar um líðandi stund. Hann var ekki yfirgripsmikill, sá hluti ræðunnar þar sem þessi aðalmálsvari Sjálfstfl. hér í deildinni --- ja, ég efast um að ég sé að segja alveg rétt hér, það getur verið að hann sé ekki aðalmálsvarinn, það má vel vera að það sé hv. 4. þm. Vestf. eða hv. 14. þm. Reykv., en í þessu máli kom hann fram sem slíkur og hélt langa ræðu eins og ég nefndi áðan --- fjallaði um hvernig komið væri eftir fimm ára setu flokksins hans í ríkisstjórn. Fyrsti hluti ræðunnar fór í að ræða um framlagningu bráðabirgðalaganna og það var ansi mikill hluti ræðunnar. Ég taldi ekki síðurnar en sjálfsagt hefur það verið a.m.k. 1 / 3 en Mogginn sá ekki ástæðu til að birta neitt af því sem þm. sagði þar um. Það segir kannski nokkuð um þann málflutning og málflutning ýmissa annarra hér í hv. deild um það hvort bráðabirgðalögin hafi verið lögð að einhverju leyti rangt fram og hafi ekki notið stuðnings o.s.frv. Annar hluti ræðunnar fór svo í það að ræða samstarfið í fyrri ríkisstjórn og aðdraganda að stjórnarslitunum. Það var þessi sama rulla sem við höfum heyrt undanfarna daga, um ákveðin ótrúverðugheit þessa og hins. Þriðji hluti ræðunnar fór í það að kvarta undan því að þær efnahagsaðgerðir sem í bráðabirgðalögunum felast séu ekki nægjanlegar til að bæta það hallærisástand sem stjórn Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. skilur eftir sig. Þar segir hv. þm. m.a., með leyfi forseta: ,,Fyrsti kafli bráðabirgðalaganna fjallar um aðgerðir í atvinnumálum og ber þess ljós merki að ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því eins og flestir aðrir að efnahagsráðstafanir hennar duga hvergi nærri til fyrir atvinnureksturinn. Því fer víðs fjarri að með þeim séu atvinnuvegunum tryggð lágmarksrekstrarskilyrði. Höfuðástæðan er vitaskuld sú að ríkisstjórnin þráast við að viðurkenna að þær kostnaðarhækkanir sem orðið hafa hér innan lands séu
langt umfram það sem þau fyrirtæki þola sem eru í samkeppni við erlend fyrirtæki hvort sem við erum að tala um heimamarkað eða erlendan markað. Nú væri hæstv. forsrh. e.t.v. vorkunn ef hann vissi ekki betur þótt maður í hans stöðu eigi að vera með á nótunum. En það dugir ekki að leita þvílíkra skýringa. Við höfum orð hans sjálfs fyrir því að ráðstafanirnar séu ónógar fyrir atvinnureksturinn. Hann sagði á fyrsta fréttamannafundinum eftir að hann var orðinn forsrh. að raungengi krónunnar væri of hátt og að það yrði að leiðrétta það smám saman.``
    Ég get í mörgu tekið undir þessa lýsingu hv. þm. Halldórs Blöndals. Forsrh. mun varla bera á móti því að hann telji gengið rangt skráð eftir þær yfirlýsingar í sjónvarpi og víðar sem hann gaf um þá stöðu í fyrrakvöld. Þm. segir að ríkisstjórnin þráist við að

viðurkenna kostnaðarhækkanir hér innan lands og má það sjálfsagt til sanns vegar færa. En hitt er samþætt og er aðalatriði að þráast er við að viðurkenna það efnahagslega þrotabú þjóðarbúsins og fjölda fyrirtækja og einstaklinga sem Sjálfstfl. og fylgiflokkur hans úr fyrri ríkisstjórn skilja eftir.
    Nú og áfram hélt þm. við það að lýsa arfinum frá fyrri ríkisstjórn, með leyfi forseta: ,,Hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson hefur einnig talað um nauðsyn verulegrar gengisfellingar í sambandi við stuðningsaðgerðir við atvinnuvegina og skyldi engan undra um sjútvrh. þótt loksins losni um málbeinið á honum svo lengi sem hann hefur þagað þunnu hljóði meðan fjarað hefur undan þeim atvinnurekstri sem honum var trúað fyrir að standa vörð um og þjóðin á svo mikið undir.`` Um þessa klausu er varla hægt að segja annað en það að hér gangi þm. aðeins meðfram heiðarleikaveginum því varla hefur annar þagað betur með ráðherranum en þm. sjálfur á meðan fjarað hefur undan sjávarútvegi á síðustu árum.
    Og áfram heldur hv. þm. Halldór Blöndal og nú leiðir hann fram vitni eins og hann reyndar lofaði í upphafi ræðu sinnar. Það eru tveir forstjórar, flokksbræður hæstv. forsrh., og hann hefur eftir öðrum, Álafossforstjóranum Jóni Sigurðarsyni, með leyfi forseta: ,,Á hinn bóginn eru önnur fyrirtæki skilin eftir í blóði sínu, samkeppnisfyrirtæki á við Sjöfn, Kaffibrennsluna, Plasteinangrun, DNG og Sæplast svo dæmi séu tekin af fyrirtækjum hér norðan lands. Þessi fyrirtæki fá engan bata í formi millifærslu eða breytts gengis. Það er varla til það fyrirtæki í samkeppnisiðnaði eða útflutningsiðnaði sem kláraði sig sæmilega á árinu.`` Þá vitnar þm. í forstjóra SÍS, Guðjón B. Ólafsson, með leyfi forseta: ,,Ég hefði viljað sjá raunhæfari aðgerðir í þá átt að í stað verulegra lánveitinga og skuldbreytinga kæmi raunhæfari og varanlegri bót á rekstrargrundvelli. Útflutningsgreinar verða að geta starfað með hagnaði í þessu landi og það á að vera frumforsenda allra aðgerða í efnahagsmálum.``
    Þm. komst að þeirri niðurstöðu að þessir tveir framsóknarforstjórar hafi með tilvitnuðum orðum verið að vega að núv. ríkisstjórn og hún hafi verið léttvæg fundin. En augljóslega eru þessi tilvitnuðu orð þeirra forstjóra fyrst og fremst dómur um ríkisstjórn krataframsóknar undir forsæti Þorsteins Pálssonar.
    Fyrirtækin liggja í blóði sínu vegna stjórnleysis og rangra efnahagsaðgerða þeirrar ríkisstjórnar og ef um yfirvofandi atvinnuleysi er að ræða er það af sömu orsökum. Það er ósköp þægilegt, eftir að hafa gert skaða, að hrópa þá á aðra að nú skuli þeir bæta skaðann sem orðinn er. Við því var svo sem aldrei að búast að frá forustu Sjálfstfl. nú kæmu ráð sem gætu leitt til úrbóta, hvorki í rekstri framleiðslufyrirtækja eða ríkissjóðs. Reynslan af því frjálshyggjuliði hefur því miður verið þannig undanfarin ár. Hinu gat maður varla búist við að þeir færu að halda því fram að þeirra eigin gerðir séu öðrum að kenna og þeir heimti að aðrir bæti þann skaða sem þeir hafa valdið.
    Hv. þm. Halldór Blöndal fjallaði um efni frv. í

frekar stuttu máli. Hann taldi ljóst að lán Verðjöfnunarsjóðs, 800 millj. kr., yrði greitt af ríkissjóði. Skil ég þá ekki alveg muninn á þessari millifærslu og öðrum ef þessi er góð en aðrar vondar. Þm. fór nokkrum hlýlegum orðum um hlutverk og starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs. Hann sagði þetta m.a. um stjórn sjóðsins, með leyfi forseta: ,,Þá sættum við sjálfstæðismenn okkur ekki við að stjórn Atvinnutryggingarsjóðs sé verslunarvara í stjórnarmyndunarviðræðum þar sem hv. þm. Stefán Valgeirsson og stjórnarflokkarnir eiga sinn mattadorinn hver sem útdeilir mattadorpeningum eftir pólitískum geðþótta. Slíkt fyrirkomulag er með öllu óþolandi. Það stangast gjörsamlega á við nútímaleg vinnubrögð og býður heim getsökum um að ekki sé hreint mjöl í pokanum.``
    Já, herra forseti. Ég var að hafa þessar setningar eftir þm. Sjálfstfl. Halldóri Blöndal. Hvað skyldi þm. kalla ,,nútímaleg vinnubrögð`` við stjórna- og nefndaskipan? Ekki það sem gerðist í gær eða fyrir nokkrum vikum þegar Sjálfstfl. var í ríkisstjórn, það að skipa flokksmattador í allar nefndir og ráð. Það er ekki nútímalegt. Slíkt fyrirkomulag var ekki með öllu óþolandi í síðustu ríkisstjórn heldur virtist það vera frekar vel séð og lítið talað um
óhreint mjöl í pokum.
    Burtséð frá stóryrðum þessa þm. Sjálfstfl. tel ég að skipan ráðherrafulltrúa í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs hafi ekki verið rétt. Alþingi átt að kjósa þessa stjórn, a.m.k. að hluta, þannig að stjórnarandstaðan fengi þar fulltrúa. Trúlega hafa framsókn og kratar verið það uppteknir af vinnubrögðum fyrri stjórnar að aðild Ólafs Ragnars og Svavars að ráðslaginu hafi þar engu fengið breytt. (Gripið fram í.) Það að Svavar og Ólafur Ragnar voru þarna með í ráðum hafi engu fengið breytt vegna þess að kratar og framsókn voru það mengaðir af sjálfstæðishyggjunni að koma sínum alls staðar fyrir í stjórn. ( Gripið fram í: Já, þetta er gott.) Þetta er alveg rétt.
    Hv. þm. minnti á það í ræðu sinni að í III. kafla bráðabirgðalaganna sé fjallað um vaxtaákvarðanir og kveðið á um að dráttarvextir skuli alltaf reiknast sem dagvextir. Þá lét hann það koma fram að senn væru átta mánuðir frá yfirlýsingu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar um sama efni og þar með staðfesti hann enn getuleysi þeirrar ríkisstjórnar og ummæli hv. 4. þm. Vestf. að oftar en ekki hafi efnahagsaðgerðir verið fálmkenndar og árangurslausar.
    Herra forseti. Ætli ég láti ekki að mestu lokið umfjöllun um ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals þótt þar sé margs ógetið sem gaman hefði verið að benda á en flest er það á svipuðum nótum og það sem ég hef rætt um. Eins og kom fram hjá mér í upphafi var ræða hv. 4. þm. Vestf. Þorv. Garðars Kristjánssonar með nokkuð öðrum áherslum en ræða hv. þm. Halldórs Blöndals þótt þeir báðir séu þm. Sjálfstfl. Hv. 4. þm. Vestf. gagnrýndi þá óráðsíu í ríkisfjármálum sem viðgengist hefur undanfarin ár, meginvandamál okkar í dag er að við eyðum meiru en við öflum og þar er mikilvægast staðan í

ríkisfjármálunum, sagði hv. þm. Hefur ekki ríkissjóður verið rekinn með milljarða halla sl. fimm ár í samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. og eru ekki vaxtagreiðslur ríkissjóðs í dag um eða yfir 10% af fjárlagaupphæðinni, 7--8 milljarðar króna? Einhverja þarf að skattleggja fyrir það, sannkallaður sjálfstæðisflokksskattur á þjóðina.
    Hv. 4. þm. Vestf. gerði í ræðu sinni grein fyrir stöðu atvinnuveganna nú. Hann skaut sér ekki undan því að gera grein fyrir því ástandi sem ríkir hér á landi eftir fimm ára stjórnartímabil Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar með smástuðningi frá Jóni Baldvini. Hafi hann þökk fyrir það.
    Forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, Guðjón B. Ólafsson, hefur verið nefndur í umræðunni og eftir honum höfð góð ábending um hvað þurfi að gera, en hvað skyldi Guðjón hafa sagt um það hvað hafi verið að gerast? T.d. þetta, með leyfi forseta: ,,Ég er undrandi á því hvað fólk í stjórnmálum hefur verið lengi að átta sig á því hvað hefur verið að gerast í þessum efnum. Ég tel að margt af þessu fólki sé einum til tveimur árum á eftir að skilja hvað er að gerast. Ég held því miður að ástandið sé mun alvarlegra en flestir gera sér grein fyrir enn þá.`` Og Guðjón heldur áfram, með leyfi forseta: ,,Ef við förum örlítið aftur í tímann, þá liggur það fyrir að á árinu 1986 hækkaði verð á sjávarafurðum á erlendum markaði svo mikið að sú hækkun skilaði þjóðarbúinu 10 milljörðum króna meira fyrir nánast sama magn afurða og árið á undan. Þessir fjármunir fóru beint inn í eyðsluþáttinn í þjóðfélaginu. Það voru ekki gerðar ráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins í þá átt að a.m.k. hluti þessara fjármuna héldist inni í fyrirtækjunum í sjávarútvegi. Þetta fór út í eyðslu og út í þenslu. Þetta háa verðlag hélst fram á mitt árið í fyrra. Þegar svo kemur fram á þetta ár fer verð að lækka og þá fara gjaldeyristekjur minnkandi en þenslan heldur áfram. Það sem hafði gerst á þessu tímabili þegar sjávarútvegur og vinnsla afurða skila svona miklum tekjum var að sjávarútvegi voru búin verri skilyrði. Þetta á við um fiskvinnslu og þó alveg sérstaklega frystinguna. Það hefur átt sér stað meiri háttar eignaupptaka hjá þessum fyrirtækjum í formi þess að þau hafi þurft að selja gjaldeyri sinn á verði sem er undir kostnaði. Þau hafa auk þess þurft að borga fjármagnskostnað sem ég leyfi mér að kalla hæsta fjármagnskostnað í hinum vestræna heimi. Það er enginn möguleiki á því að þessi atvinnuvegur geti staðið undir þeim kjörum sem honum hafa verið búin. Þannig hefur orðið veruleg eignauppfærsla hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og fiskvinnslunni og öðrum fyrirtækjum sem standa í útflutningi. Þessir fjármunir hafa lent í þenslu sem hefur verið langt umfram það sem eðlilegt er. Þessi þróun hefur leitt af sér offjárfestingu í þjóðfélaginu á öllum sviðum.``
    Þetta sem hér er haft eftir Guðjóni er hinn bitri sannleiki sem flestir staðfesta sem staðið hafa fyrir atvinnurekstri undanfarandi ár. Slíkar yfirlýsingar þarf vitaskuld ekki. Ástand efnahagsmála segir þar sjálft

sína sögu.
    Svo eru menn að tala um það að verið sé að fara út í millifærslu með 800 millj. kr. framlagi í Verðjöfnunarsjóð. Hvað var millifærsla ef gengisstefna síðustu ára var það ekki? Það bera fáir á móti þeirri millifærslu lengur þótt greinilega verði erfitt að ná því aftur sem millifært var á þessum árum frá aðalatvinnuvegum okkar og landsbyggðinni til eyðsluþáttanna í þjóðfélaginu. Það eru margir undrandi á því hvað sumt fólk í stjórnmálum hefur verið lengi að átta sig, fleiri en Guðjón B. Ólafsson, á því hvað hefur verið að gerast í
þessum málum og jafnvel að sumir séu ekki búnir að átta sig á þessari stöðu enn þá.
    Það ber allt að sömu niðurstöðu. Frjálshyggjustefna Sjálfstfl., Framsfl. og krata hefur beðið skipbrot. Þau bráðabirgðalög sem hér eru til umfjöllunar eru nokkurs konar björgunartæki til að bjarga þjóðinni, fyrirtækjum og almenningi, frá enn hrikalegri afleiðingum stefnunnar en þegar eru fram komnar.
    Úrræðaleysi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar var með ódæmum mikið. Sú staðreynd hvílir þungt á þm. Sjálfstfl. og ekki síst þeim sem töldu sig vera og voru málsvarar flokksins hér á hv. Alþingi þótt þeir sætu ekki í ráðherrastólum. Frjálshyggjutilraunin hefur farið frekar illa með þessa menn. Það er því miður víðar en gagnvart undirstöðuatvinnuvegunum sem fimm ára samstjórn hefur farið illa að ráði sínu og menn undrast það hvað sumir eru lengi að átta sig.
    Það hafa verið minnkandi framlög til vegamála ár frá ári og einnig til hafnarframkvæmda, grunnskólabygginga, dagvistunarstofnana, íþróttamannvirkja og næstum allra samfélagslegra þátta --- ( EgJ: Það breytist nú allt núna.) (Gripið fram í.) Úr hvaða sjóðum skyldi eiga að borga núna, hv. þm.? Þrotabúi Sjálfstfl.? --- enda eru fjárfestingarframlög og heildarupphæð fjárlaga nú aðeins um 5% í stað 25% áður samkvæmt upplýsingum hv. 4. þm. Vestf. hér í ræðunni á þriðjudaginn.
    Svo er það fiskveiðistefnan. Hvernig skyldu málin standa þar eftir þessa fimm ára samstjórn? Hv. þm. Halldór Blöndal segir að á þessu tímabili hafi fjarað undan sjávarútvegi og hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson segir í viðtali við Tímann á laugardaginn þar sem rætt er við hann um hvalamálið, með leyfi forseta:
    ,,Ég held á hinn bóginn að okkar menn á markaðinum þurfi ekki síður að hafa áhyggjur af því að við höfum nægilega mikið magn af afurðum til að selja.`` Ég ætla að lesa þessa setningu aftur: ,,Ég held á hinn bóginn að okkar menn á markaðinum þurfi ekki síður að hafa áhyggjur af því að við höfum nægilega mikið magn af afurðum til að selja. Við þurfum þá að velja okkur markaði. Nú stöndum við frammi fyrir samdrætti í fiskveiðum. Núna í morgun, föstudag, var Hafrannsóknastofnun að skila hér inn skýrslu um verra ástand rækjustofnsins. Hún gefur til kynna að það þarf að draga rækjuveiðina mjög verulega saman á næsta ári. Því verður það aðalatriði að hafa einhverja vöru til að selja.`` --- Ég ætla að

endurtaka þetta líka: ,,Því verður það aðalatriði að hafa einhverja vöru til að selja,,, segir sjútvrh. Íslands í dag.
    Um svona hugsanagang í hvalveiðimálinu vil ég ekkert segja. Þessi klausa segir hins vegar mikla sögu um fiskveiðistjórn síðustu ára, kannski fyrst og fremst það að þótt ríkissjóður sé illa haldinn og flest fyrirtæki sömuleiðis er það ekkert í samanburði við það sem við blasir í sambandi við þorskstofninn og jafnvel rækjustofninn líka. Rækjan og þorskurinn eru fyrst og fremst þeir fiskstofnar sem fimm ára stjórnin, framsóknar og íhalds, hefur haft veg og vanda af að leggja línurnar um hvernig nýta skuli.
    Undanfarin ár hefur verið góðæri til lands og sjávar. Fæðuframleiðsla sjávarins umhverfis landið hefur verið í hámarki, uppskera jarðarnytja mikil, verð afurða hátt. Samt er ástandið eins og raun ber vitni og við erum hér að fjalla um bráðabirgðalög sem mörgum finnst að geri ekki nóg.
    Herra forseti. Mig langar að skjótast svolítið aftur í tímann. Að loknum kosningum vorið 1983 myndaði samstarfsflokkur okkar alþýðubandalagsfólks úr ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, Framsfl., ríkisstjórn með Sjálfstfl. Stuðningsmenn og ráðherrar Gunnars Thoroddsens fylktu þar einnig liði undir forustu Steingríms Hermannssonar. Samfylkingarmottóið var: Björgum þjóðinni frá verðbólgustefnu Alþb. 130% verðbólga er Alþb. að kenna. Föðurlegur svipur forsrh. staðfesti þetta. Nú er þessi maður alls trausts verður frá okkar hendi, alþýðubandalagsmanna, og er forsrh. í stjórn félagshyggju og jafnréttis. ( Gripið fram í: Og bræðralags.)
    Það er verið að nefna núna, þó seint sé, fleiri ókosti við þessa ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Hv. 14. þm. Reykv. nefndi áðan að þetta hefði verið hin mesta fjárfestingarstjórn, en það er seint að nefna það núna eftir öll þessi ár. Allt var gott sem Framsfl. hafði gert í þeirri stjórn þegar Sjálfstfl. myndaði ríkisstjórn með Framsfl. vorið 1983, þannig að þetta er heldur seint tilnefnt.
    Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 byrjaði starfsferil sinn með stórfelldri kjaraskerðingu og hrikalegu misgengi launa og lánskjara. (Gripið fram í.) Tók nú við dálítið öðru búi, hv. þm. Það var ekki milljarðahalli á ríkiskassanum þá. Það þurfti ekki að gera líkar aðgerðir í sambandi við sjávarútveginn og verið er að gera núna. Aðgerðir þessar orsökuðu þá mestu millifærslu sem átt hafði sér stað í íslensku þjóðfélagi. Á starfstíma stjórnarinnar var síðan haldið áfram með kaupskerðingar og millifærslur frá launafólki og undirstöðuatvinnuvegunum til eyðsluþátta þjóðfélagsins. Vaxtakjör og peningamarkaður voru óheft. Sú skoðun að peningar yrðu til í
bönkum og af starfsemi peningavíxlara var skoðun og stefna stjórnvalda. Samkvæmt stefnu og skoðun stjórnvalda á þessum tíma var þarflaust að fjármagn í framleiðslufyrirtækjunum skilaði arði. Það er ekki fyrr en á síðustu dögum að farið er að tala um að nauðsynlegt sé að hafa eigið fjármagn í fyrirtæki. Það hefur verið staðið að því á undanförnum missirum og

mánuðum að eyða því, brenna það undir forustu Sjálfstfl. og framsóknar. Best var að kvelja fyrirtækin sem mest til að halda niðri kaupi framleiðslustéttanna svo að eyðsluhóparnir gætu boðið upp á augljósara launaskrið.
    Vorið 1987 voru kosningar. Jón nokkur Baldvin Hannibalsson hafði í undanfara þeirra farið mikinn um byggðir og spurt: ,,Hverjir eiga Ísland?`` Þorsteinn Pálsson sagðist vera ,,á réttri leið`` í ríkisstjórninni undir forustu Steingríms Hermannssonar og Steingrímur Hermannsson var auglýstur upp sem kletturinn úr hafinu sem allt stóðst og öruggt var að byggja á. Þessir þrír höfðingjar mynduðu svo saman ríkisstjórn sumarið 1987, fyrir rúmu ári síðan. Þeir sem áttu Ísland voru þeir sem víxluðu peningum og græddu á því. Þetta er allt í fersku minni.
    Fastgengisstefnan. Mér fannst afleitt þegar hæstv. menntmrh. Svavar Gestsson gleymdi því í upptalningu um vonda hluti á síðustu tímum að fastgengisstefnan hefði gert neitt af sér. Matarskattur. Muna nokkrir eftir honum? Ógilding kjarasamninga og samningsréttar og ráðleysi og síðan uppgjöf núna í september.
    Alþb. barðist gegn stefnu tveggja fyrrv. ríkisstjórna, stundum kannski af veikum mætti vegna innbyrðis vandamála og líka vegna þess að við nutum ekki aðstöðu í fjölmiðlum eins og frjálshyggjupostularnir. En samt, í byrjun september stóðum við sem barist höfðum gegn ríkisstjórninni og frjálshyggjustefnunni uppi sem sigurvegarar. Pólitík frjálshyggjunnar og markaðshyggjunnar hafði beðið skipbrot á Íslandi. Formælendur frjálshyggjunnar, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., lágu hundflatir og ráðalausir. Þeir sem Alþfl. hafði útnefnt sem eigendur Íslands voru hver um annan þveran að fara á hausinn. Rétta leið Sjálfstfl. var ekki nefnd á nafn og kletturinn í hafinu hafði grotnað niður. ( GHG: Nú er ég farinn að ruglast. Ertu ekki stjórnarsinni?) Það hefur verið mikið rætt um stjórnarslitin, palladómar á ýmsa vegu. Allt er það frekar ómerkilegt. Aðalatriðið er og það sem er staðreynd er að frjálshyggjustjórn númer tvö á Íslandi gafst upp og ekki með mikilli reisn. Hver lá flatastur eftir þá bræðrabyltu er erfitt að meta. Ætli sé ekki bara best að slá því föstu að þeir hafi legið mismunandi mikið upp í loft en allir jafnlágt?
    Svo var mynduð ríkisstjórn, ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju. Um aðdragandann að myndun ríkisstjórnarinnar mætti ýmislegt segja, en ég geri það ekki. Þó vil ég taka fram að ég tel að átt hefði að kjósa, lofa þjóðinni að dæma fráfarandi stjórnarflokka. Gera átti markverða tilraun til að mynda minnihlutastjórn, kosningastjórn þeirra flokka sem voru í stjórnarandstöðu. Það sem Alþb. átti að gera strax eftir stjórnarslitin var að samfylkja stjórnarandstöðunni og krefjast kosninga, láta frjálshyggjuflokkana sameiginlega, í því ástandi sem þeir voru, standa frammi fyrir þjóðinni í kosningum. Staðreyndin er sú að kosningar í haust þurftu ekki að skapa nein vandræði. Mikið meiri vandræði koma til með að skapast af því að allir spyrja nú: Hvað er

langt í kosningar? Og hætt er við að kosningaskjálfta gæti mjög innan flokka, innan ríkisstjórnar og meðal almennings næstu mánuði. ( EgJ: Það er bara svona, já.) Ef samstaða hefði tekist um þessa tilhögun mála hefðu þrotabúsflokkarnir orðið að skríða saman eða veita þessari stjórn hlutleysi. Kosningastjórn stjórnarandstöðunnar var rökrétt afleiðing uppgjafar þríflokkanna og jafnvel hefði komið til mála ríkisstjórn Albþ. eða Kvennalistans einna á báti líkt og kratanna 1979.
    Ég var á móti því að Alþb. gerðist aðili að núv. ríkisstjórn. Fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru á ýmsan hátt þannig að ég var mjög óánægður með þær. Þau atriði voru t.d. að launafólk fékk ekki samningsrétt og ekki heldur afnumda kjaraskerðingu. Ég tel að þau bráðabirgðalög sem við erum hér að fjalla um leysi ekki þann vanda sem stjórnarstefna þríflokkanna skilur eftir sig. Ég tel líka að ekkert liggi fyrir um bætta stöðu landsbyggðar og það hilli ekki undir það með nýrri ríkisstjórn að mótuð verði fiskveiðistefna sem stuðli að hagkvæmri nýtingu fiskistofna við strendur landsins.
    Herra forseti. Ég hef gjarnan viljað líta á flokkinn minn sem skipshöfn á fiskibáti. Við erum farin í veiðiferð, erum komin á miðin. Ég hefði viljað um tíma leita á önnur mið, en það verður ekki aftur snúið. ( Gripið fram í: En hver stjórnar?) Við höfum þegar fengið nokkurn afla þótt þar hefði svo sem mátt vera svolítið meira af góðfiski. Það er ljóst að skipið leitar í kjölfar þeirra íhaldsafla sem okkar félagar hafa lengi haft náið samneyti við og okkur hefur þó þegar orðið nokkuð ágengt þótt báturinn sé hverfur í stjórn. Þess vegna erum við að færa nokkurn afla að landi með þeim bráðabirgðalögum sem hér eru til umræðu. Á íhaldsmiðunum hefði ekkert aflast og skipið jafnvel sokkið.